Search
Close this search box.

Stefnuræða: Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Deildu 

Kæru landsmenn

Árið 2020 verður tæpast talið viðburðalítið í Íslandssögunni. Óveður, jarðhræringar, snjóflóð og að lokum það smæsta en þó rúmfrekasta í lífi okkar allra – kórónuveiran sjálf – orðin eins og þaulsætinn ættingi í fermingarveislu sem átti að vera lokið. Eins og Albert Camus orðaði það í sinni frægu sögu, Plágunni en öll eintök hennar voru í útláni á Borgarbókasafninu í dag:

„Drepsóttir og styrjaldir koma fólkinu ávallt jafnmikið á óvart. … Plágan fer út fyrir ímyndun mannsins, menn segja því að hún sé óraunveruleg, vondur draumur sem líði hjá. En hún líður ekki ævinlega hjá.“

Þessi ganga ætlar að verða löng og ekki sér alveg fyrir endann á henni. Það er jafnan það sem gerir gönguferðir erfiðar – að vita ekki alveg hve mikið er eftir. Þá reynir á seigluna, fátt annað í stöðunni en að einbeita sér að því að ljúka þessu slysalaust. Taka eitt skref í einu og vanda hvert þeirra eins vel og hægt er; stíga varlega til jarðar. Eitt vitum við þó, þessu lýkur, og ég veit að okkur mun takast að færa líf okkar í betra horf.

Faraldurinn var ekki til umræðu hér í síðustu stefnuræðu enda ófyrirséður í september 2019. En nú ári síðar hefur hann leikið allar þjóðir grátt. Um milljón manna hefur nú látið lífið og Alþjóða-heilbrigðismálastofnunin óttast að annar eins fjöldi muni falla í valinn áður en yfir lýkur. Þó að hér á landi hafi þurft að grípa til margvíslegra aðgerða þá hefur okkur tekist að fást við faraldurinn án þess að þurfa að grípa til jafn harkalegra aðgerða og í flestum nágrannalöndum okkar. Metfjöldi ferðaðist innanlands í sumar og margir heimsóttu staði á landinu sem þeir höfðu aldrei komið á áður – umræðuefni kaffitímans á fjölmörgum vinnustöðum voru áfangastaðir eins og Stuðlagil og Græni-hryggur, Stórurð og Látrabjarg.

Margoft hef ég verið stolt af því að tilheyra samfélagi þar sem leiðarstefið hefur verið að treysta hvert öðru og standa saman. Það gat aldrei orðið auðvelt, og við höfum ekki yfirstigið alla erfiðleika. En það eru forréttindi að búa í slíku samfélagi.

Herra forseti.

Þegar fyrsta smitið barst til Íslands ákváðu stjórnvöld að gera það sem þyrfti, og frekar meira en minna, til að koma samfélaginu í gegnum þann mikla efnahagslega skell sem leiðir af heimsfaraldrinum. Við gripum samstundis inn í með efnahagsaðgerðum til að tryggja afkomu fólks og styðja við almenning og atvinnulíf í gegnum þessa erfiðu tíma. Framundan er tími endurreisnar þar sem við munum efla opinbera fjárfestingu, verja velferð og beita til þess krafti ríkisfjármálanna.

Við njótum þess að hafa búið í haginn; staða þjóðarbúsins er sterk, skuldir hafa verið greiddar niður og Seðlabankinn ræður yfir öflugum gjaldeyrisvaraforða. Peningastefnan hefur skilað lægstu vöxtum lýðveldissögunnar. Mikil samvinna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um bætt samskipti á vinnumarkaði hefur skilað margvíslegum árangri, stofnun nýs þjóðhagsráðs og kjaratölfræðinefndar.

Fyrr í þessari viku kynntu stjórnvöld aðgerðir til að greiða fyrir sátt á vinnumarkaði. Þar fara saman aðgerðir sem öllum er ætlað að auka umsvif, fjölga störfum og stuðla að grænni umbreytingu og aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Það er ánægjulegt að aðilar vinnumarkaðarins sýndu þá ábyrgð að segja ekki upp samningum og halda friðinn á vinnumarkaði. Þar með getum við samhent snúið okkur að stóru áskoruninni sem er að skapa störf og tryggja að atvinnuleysi verði ekki langvarandi böl í samfélagi okkar. Þó að sjaldan hafi umræða verið jafn mikil um vinnumarkaðsmál og á undanförnum misserum hefur samtal stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda reynst farsælt og þannig hafa mikilvægir áfangar náðst á undanförnum árum við að byggja stoðir undir öfluga samvinnu um þessi mikilvægu mál.

Fjármálaáætlunin sem dreift var í dag sýnir staðfastan vilja stjórnvalda til að verja þann árangur sem náðst hefur í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfis og nýja sókn í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Í fjárfestingaátaki stjórnvalda eru fjölbreyttar fjárfestingar; samgöngumannvirki, byggingar, þekkingargreinar, skapandi greinar og grænar fjárfestingar. Ríkissjóði verður beitt af fullum þunga til að skapa viðspyrnu fyrir almenning og atvinnulíf í landinu.

Þetta verður græn viðspyrna. Hvetja þarf til einkafjárfestingar og stjórnvöld munu tryggja með jákvæðum hvötum að kraftur hennar styðji við græna umbreytingu, kolefnishlutleysi og samdrátt gróðurhúsalofttegunda. Einnig við hátækni og þekkingariðnað sem verður mikilvæg stoð í efnahagslífi framtíðar. Þessi eru líka áhersluatriði stjórnvalda í nýjum markáætlunum á sviði vísinda og tækni.

Við eigum að nýta þau færi sem faraldurinn hefur skapað til að hraða tæknibreytingum og grænni byltingu. Um leið eflum við velsæld, heilbrigðisþjónustu og alla þá samfélagslegu innviði sem hafa sannað styrk sinn í þessum hamförum.

Kæru landsmenn

Á meðan faraldurinn hefur geisað höfum við haldið ótrauð áfram í þeirri vinnu sem hafin var. Fjölmörg mál voru afgreidd hér á síðasta þingi og mörg önnur mál eru á dagskrá komandi þings.

Metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftslagsmálum stjórnvalda var kynnt í sumar þar sem sagt var frá aðgerðum sem skila munu meiri árangri en alþjóðlegar skuldbindingar okkar krefjast af okkur samkvæmt Parísarsamkomulaginu og samkomulagi Ísland, Noregs og Evrópusambandsins. Og við stoppum ekki þar því að ríkisstjórnin ákvað strax í upphafi kjörtímabilsins að setja markið hærra og stefna að kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.

Fyrstu ákveðnu skrefin voru stigin í upphafi kjörtímabilsins þegar við settum stóraukinn kraft í orkuskipti í samgöngum og margháttaða kolefnisbindingu. Nú liggur fyrir áætlun um samdrátt í öllum geirum samfélagsins og við færumst nær og nær markmiði okkar um kolefnishlutlaust Ísland. Á síðustu tæpum þremur árum hefur orðið viðsnúningur í baráttunni við loftslagsvána á Íslandi, og ekki seinna vænna.

Framundan er líka stórt verkefni á sviði náttúruverndar: Miðhálendisþjóðgarður sem ég vonast til að Alþingi afgreiði hér á vetur sem væri stórkostlegt framlag til náttúruverndar á heimsvísu.

Kæru landmenn.

Þegar heimssagan er skoðuð reynast faraldrar á borð við þann sem enn geisar iðulega valda auknum ójöfnuði í heiminum. Þeim mun mikilvægara er að tryggja jöfnuð og félagslegt réttlæti í þessum hamförum. Á þeirri braut erum við nú; réttlátara skattkerfi var lögfest hér í fyrra og nú um áramót munu skattar lækka á tekjulægri hópa. Við höfum ákveðið að lengja fæðingarorlof og í vetur mun Alþingi glíma við hvernig staðið skuli að skiptingu þess milli foreldra. Sérstaklega þarf að huga að ólíkum afleiðingum faraldursins á karla og konur en sjá má merki þess að heimilisofbeldi hefur aukist um allan heim og þar er Ísland engin undantekning. Þess vegna var ein af fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar að styrkja Kvennaathvarfið og ráðist var í markvissa vitundarvakningu um þetta samfélagsmein.

Til að auka jöfnuð höfum við eflt félagslega húsnæðiskerfið og aukið möguleika tekjulægri hópa á að eignast húsnæði. Í vetur munum við takast á við að bæta réttarstöðu leigjenda og draga úr vægi verðtryggingar í húsnæðislánakerfinu. Við höfum dregið úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og eflt þjónustuna, ekki síst á sviði geðheilbrigðismála. Við höfum stóreflt heilsugæsluna um allt land og hafið byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Alþingi samþykkti sérstakar ráðstafanir til að koma til móts við tekjulægri hópa aldraðra og við drógum úr skerðingum á greiðslum til örorkulífeyrisþega.

Framundan eru stór verkefni til að vinna gegn kennitöluflakki og félagslegum undirboðum. Dregin verður varnarlína um fjárfestingarbankastarfsemi. Frumvarp um lagastoð gegn umsáturseinelti og endurskoðuð jafnréttislög verða lögð fram, eins ný ákvæði sem styrkja stöðu barna með ódæmigerð kyneinkenni í því skyni að efla enn lagaumhverfið í þágu hinsegin fólks. Staða fylgdarlaustra barna á flótta verður endurskoðuð sem og aðferðafræði við hagsmunamat barna sem hingað koma í leit að skjóli.

Kæru landsmenn.

Alþingi fær tækifæri þennan vetur til að takast á við ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði þjóðareign. Um þetta hefur verið deilt allt frá því snemma á sjöunda áratug 20. aldar. Þingmenn úr ólíkum flokkum hafa gert þetta mál að sínu. Og nú fær Alþingi tækifæri til að stíga skrefið og setja slíkt ákvæði, skýrt og knappt, inn í stjórnarskrá til að tryggja réttlæti til framtíðar. Ásamt fleiri ákvæðum um umhverfis- og náttúruvernd, íslenska tungu og táknmál, forseta og framkvæmdavald, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði. Alþingi getur ákveðið að nýta þetta tækifæri til að sýna að þessi samkunda getur tekist á við stór og mikilvæg mál og breytt stjórnarskrá með skynsamlegum hætti með almannahagsmuni að leiðarljósi. Ég vona sannarlega að þingið standist þetta próf og taki hina efnislegu umræðu um málið. Ég vil ekki að þetta mál festist í hjólförum liðinna ára og áratuga. Við höfum nú tækifæri til að horfa til framtíðar og taka góðar ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir.

Kæru landsmenn.

Mörgum þykir eflaust nóg komið af umræðu um pláguófétið. En rétt eins og í Plágunni eftir Camus mun þessi sótt ganga yfir. Og þá er gott að muna hvaða lærdóm Rieux læknir, sögumaður Plágunnar, dró af drepsóttinni sem gekk yfir borgina Oran; þau einföldu sannindi sem menn læra á drepsóttartímum, að það er fleira aðdáunarvert en fyrirlitlegt í fari mannanna. Eins finnst mér að við sem samfélag höfum sýnt aðdáunarverða seiglu, styrk og heilbrigða skynsemi í átökum okkar við veiruna.

Við búum í sterku samfélagi. Samfélagi þar sem örlög og saga allra eru samtvinnuð en þó eru örlög hvers og eins sérstök. Og þó að hlutverk stjórnmálamanna sé fyrst og fremst að hugsa um samfélagið sem heild þá skiptir máli að hugsa um örlög hvers og eins. Ákvarðanir okkar snúast um heildarhagsmuni en áhrifa þeirra gætir hjá einstaklingum sem hver fyrir sig eða með öðrum reyna að fá það besta út úr lífinu.

Unga parið sem sér núna fram á að geta varið meiri tíma með nýfæddu barni sínu af því að við samþykktum að lengja fæðingarorlof. Ungi pilturinn sem ég hitti um daginn sem hafði fæðst í líkama stúlku og var núna búinn að segja frá því að hann væri drengur og leið vel með það af því að nú fjalla lögin ekki lengur um „kynáttunarvanda“ heldur samþykkti Alþingi lög um kynrænt sjálfræði.

Vísindamenn sem hafa þurft að berjast fyrir hverri krónu til að geta stundað rannsóknir sínar en hafa nú betri möguleika á að geta sinnt þekkingarleit sinni, samfélaginu öllu til hagsbóta, vegna þess að við höfum ákveðið að stórauka framlög til grunnrannsókna og þróunar. Frumkvöðlar sem allt í einu sjá möguleika á að nýsköpunarfyrirtækin þeirra geti vaxið enn frekar með bættum stuðningi við nýsköpun því að Alþingi samþykkti hærri endurgreiðslur og nýsköpunarsjóðinn Kríu. Tekjulágt ungt fólk sem nú á færi til að kaupa sér eigið húsnæði með nýjum hlutdeildarlánum, af því að við hér inni samþykktum einmitt að skapa það færi.

Ábyrgðarmennirnir sem fengu bréf um að þeir væru ekki lengur ábyrgðarmenn á námslánum sem höfðu nagað þá árum og áratugum saman – því að Alþingi ákvað að afnema ábyrgðir á námslánum. Öll þau sem hafa barist fyrir því að auka skilning á mikilvægi ósnortinnar náttúru og sáu Dettifoss friðlýstan og alla hans félaga í Jökulsá á Fjöllum í takt við ákvörðun Alþingis um að skipa Jökulsá á Fjöllum í verndarflokk.

Allt sem gerist hér í þessu húsi snertir örlög fólks. Og hlutverk okkar er að gera samfélagið betra, fjölbreyttara og jafnara þannig að fleiri fái notið sín, þroskað hæfileika sína og uppfyllt drauma sína.

Nú eru kosningar framundan á næsta ári og lesa má kunnuglega spádóma um að allt muni nú leysast upp í karp um keisarans skegg. Allt verði hér undirlagt í hefðbundnum átökum um völd undir neikvæðustu formerkjum stjórnmálaátaka. En við skulum ekki gleyma því að á bak við átökin og skoðanaskiptin eru ólíkar stefnur og hugmyndir. Þessar ólíku hugmyndir geta styrkt hver aðra eða kveikt nýjar. Hugmyndirnar eru það sem gerir samfélagið okkar að því sem það er. Á bak við átökin eru manneskjur með sannfæringu og hugsjónir sem hver og ein vill vinna að betra samfélagi. Og ég trúi því að okkur muni áfram lánast að vinna að því að gera samfélagið betra fyrir hvern og einn. Þó að faraldurinn hafi reynst erfiður þá er bjart framundan. Við erum ýmsu vön hér á hjara veraldar. Við þekkjum það úr sögunni að í íslensku samfélagi býr kynngikraftur og með þeim krafti munum við spyrna okkur sterklega frá botni.

Þetta mun allt fara vel.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stefnuræða 1. október 2020.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search