EN
PO
Search
Close this search box.

Stefnuræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra

Deildu 

Kæru landsmenn.

Við sem búum hér á landi höfum alltaf þurft að reiða okkur á náttúruna og við höfum alltaf þurft að geta lesið skilaboð náttúrunnar.

Og sjaldan eða aldrei hafa skilaboð náttúrunnar verið jafn skýr, ekki aðeins hér heldur um heim allan: Óstöðugra veðurfar. Tíðari og öflugri fellibylir. Þurrkar. Flóð. Hækkun sjávarborðs. Fækkun tegunda á skala sem við höfum aldrei séð áður. Súrnun sjávar. Fólk á flótta. Bráðnun jökla.

Loftslagsváin er að skapa neyðarástand nú þegar víða um heim. Hún er okkar stærsta áskorun. Mannkynið ber ábyrgð á ástandinu, mannkyninu stafar ógn af því og nú er stærsta verkefni mannkynsins að draga úr hraða þessarar ógnvænlegu þróunar, lágmarka skaðann og tryggja framtíð okkar og lífríkisins alls á þessari plánetu. Því að mannkynið á ekki eftir að fá annað tækifæri á annarri plánetu heldur aðeins það tækifæri sem við höfum hér og nú.

Í slíku ástandi skiptir máli að læra af fortíðinni en lykilatriðið er samt sem áður núið: ráðstafanirnar sem við ætlum að grípa til núna. Ég er stolt af því að leiða ríkisstjórn sem leggur fram fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina til að berjast gegn loftslagsvánni sem snýst um orkuskipti í samgöngum og stóraukna kolefnisbindingu.

Við munum nýta efnahagslega hvata til að ná loftslagsmarkmiðum, bæði græna skatta og grænar ívilnanir. Matvælastefna stjórnvalda lítur dagsins ljós í vetur en þar verða loftslagsmarkmiðin höfuðmarkmið ásamt lýðheilsu og sjálfbærni. Við höfum ákveðið að forgangsraða fjármagni til rannsókna á loftslagsbreytingum og aðgerðaáætlunin sjálf mun verða í stöðugri endurskoðun til samræmis við niðurstöður vísindanna.

Ekkert af þessu er einfalt í framkvæmd og við munum þurfa að gera breytingar eftir því sem fram líður. En nú er sannarlega siglt í rétta átt. Ég fagna þeirri auknu meðvitund sem gætir meðal almennings um mikilvægi þess að við leggjum öll okkar lóð á vogarskálarnar. En við getum ekki ætlast til að almenningur sjái alfarið um baráttuna. Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, atvinnurekendur og samtök launafólks verða að draga vagninn. Samstillt átak er forsenda þess að við náum raunverulegum árangri.

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna í síðustu viku vakti nokkra athygli ekki síst hér í Reykjavík þar sem umferðarteppur og regnbogafánar settu svip sinn á borgarlífið. En heimsóknin opnaði einnig á mikilvæga umræðu um samskipti Íslands við stórveldi heimsins, um öryggis- og friðarmál, hernaðaruppbyggingu og loftslagsmál. Þessi umræða þarf að halda áfram hér á vettvangi þingsins og í samfélaginu almennt.

Ég legg ríka áherslu á að loftslagsváin verður ekki leyst með gamaldags málflutningi kalda stríðsins heldur þarf alþjóðlega samvinnu þar sem allir sitja við borðið. Þess vegna setjum við umhverfismálin í forgang í formennskuáætlun okkar íslenskra stjórnvalda í Norðurskautsráðinu og nýtum hvert tækifæri sem gefst á vettvangi alþjóðamála til að setja loftslagsmálin á dagskrá.

Kæru landsmenn.

Nú í vor náðust lífskjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum. Stjórnvöld komu með skýrari hætti að gerð þessara kjarasamninga en áður hefur tíðkast og allar okkar aðgerðir miða að auknum félagslegum stöðugleika. Við munum lækka skattbyrði á tekjulægstu hópana með því að innleiða þriggja þrepa skattkerfi. Þessi breyting mun auka jöfnuð og bæta kjör þeirra sem verst standa. Þegar samningum lauk í vor lögðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar áherslu á að þessum breytingum yrði flýtt og leggur ríkisstjórnin nú til að þær verði innleiddar á tveimur árum en ekki þremur. Þetta skiptir máli til að jafna kjörin.

Nýleg skýrsla sýnir að of mörg börn búa við fátækt á Íslandi. Það er því sérstakt fagnaðarefni að meðal þeirra aðgerða sem stjórnvöld boða í vetur er fyrra skref í lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf. Hún mun ásamt ákvörðun stjórnvalda um að hækka barnabætur og hækka skerðingarmörk barnabóta bæta hag barnafjölskyldna svo um munar. Hvorttveggja er mikilvægt til að jafna kjörin.

Þá eru ótaldar aðgerðir í húsnæðismálum en húsnæðisvandinn hefur verið yfir og allt umlykjandi frá hruni. Með stuðningi við uppbyggingu félagslegs húsnæðis á vegum verkalýðshreyfingarinnar, úrræðum til að styðja við fyrstu kaupendur, aðgerðum til að tryggja framboð íbúðarhúsnæðis til lengri tíma og aukinni yfirsýn stjórnvalda og stefnumótun í húsnæðismálum, erum við þegar farin að sjá árangur. Það jafnar kjörin að tryggja öllum þak yfir höfuð og öruggt skjól.

Í kjölfar lífskjarasamninga hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti um eitt prósentustig sem er gríðarlegt hagsmunamál fyrir almenning. Á sama tíma eru stjórnvöld að auka opinbera fjárfestingu til að mæta slaka í hagkerfinu í kjölfar loðnubrests og áfalla í flugrekstri. Stjórnvöld munu standa undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar. En þar með er verkinu ekki lokið. Það er ánægjulegt að fyrsti fundur nýs þjóðhagsráðs verður haldinn í október þar sem eiga sæti fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga, og Seðlabanka. Ég hef væntingar til þess að samtal stjórnvalda og vinnumarkaðar sé komið í skýran farveg sem mun hafa jákvæð áhrif á efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Í vetur munu stjórnvöld leggja fram tillögur að aðgerðum til að mæta fjórðu iðnbyltingunni og áhrifum hennar á íslenskan vinnumarkað. Í nýlegri skýrslu forsætisráðuneytisins kom fram að af þeim sem voru starfandi á íslenskum vinnumarkaði árið 2017 voru aðeins um 14% í störfum þar sem litlar líkur eru á sjálfvirknivæðingu. Önnur störf munu taka breytingum eða jafnvel hverfa. En ný störf munu líka verða til. Fólk af kynslóð afa og ömmu ætlaði ekki að verða zúmbakennari eða forritari enda störfin ekki til þá.

Við erum að mörgu leyti vel í sveit sett til að bregðast við en þurfum að efla fjárfestingu í nýsköpun og auka tækifæri fólks til að sækja sér nýja menntun og færa sig til í starfi. Hugvitið verður nefnilega í askana látið, þótt atvinnusköpun Íslendinga hafi ekki tekið nægilegt mið af því í áranna rás. Áskorunin verður sú að auka verðmætasköpun í öllum atvinnugreinum en tryggja um leið að ávinningurinn af tæknibreytingunum dreifist með réttlátum hætti. Venjulegt fólk njóti ávaxtanna með styttri vinnuviku og bættum kjörum og breytingar á vinnumarkaði verði ekki til þess að skerða réttindi vinnandi fólks sem barist hefur verið fyrir svo lengi.

Nú í september mun hópur á vegum stjórnvalda skila tillögum um hvernig megi fjölga störfum fyrir fólk með skerta starfsgetu hjá hinu opinbera. Þessar tillögur koma í kjölfar þess að Alþingi samþykkti í sumar frumvarp félags- og barnamálaráðherra um að draga úr skerðingum örorkulífeyris sem hefur lengi verið baráttumál örorkulífeyrisþega. Heilbrigðisráðherra hefur forgangsraðað öldruðum og örorkulífeyrisþegum í áætlun sinni um að draga úr kostnaði sjúklinga við heilbrigðisþjónustu, annars vegar með því að fella niður komugjöld aldraðra og öryrkja á heilsugæsluna og hins vegar með því að stórauka niðurgreiðslur á tannlæknaþjónustu fyrir þennan hóp.

Á þessu kjörtímabili hafa verið gerðar mikilvægar úrbætur í mannréttindamálum og frekari aðgerðir bíða afgreiðslu. Frumvarp um kynrænt sjálfræði varð að lögum í vor, á þessu þingi legg ég fram framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og réttarfarsnefnd vinnur að tillögum um heildstæðar úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisbrota. Í næstu viku verður haldin hér alþjóðleg ráðstefna um METOO-hreyfinguna sem afhjúpaði rótgróna menningu kynjakerfisins. Umræðan sem þar mun fara fram er gríðarlega mikilvæg, bæði í alþjóðlegu samhengi og svo hér á Íslandi þar sem við eigum – þrátt fyrir allar alþjóðlegar mælingar og viðurkenningar – enn langt í land með að ná fullu jafnrétti kynjanna.

Kæru landsmenn.

Allt það sem ég hef hér rætt snýst um lífskjör og lífsgæði almennings í landinu. En hvað eru lífsgæði og er hægt að mæla þau? Einfaldur mælikvarði á þjóðarframleiðslu nægir ekki; við þurfum fjölbreyttari mælitæki. Ímyndum okkur hvað það dregur úr streitu ungs barnafólks að lengja fæðingarorlof. Eða hve mikil efnahagsleg tækifæri felast í að bæta menntun innflytjenda. Nú eða þau sóknarfæri sem felast í því að verða óháðari innfluttum orkugjöfum. Við viljum taka upp fjölbreyttari mælikvarða og þess vegna er Ísland komið í formlegt samstarf með Nýja-Sjálandi, Skotlandi og fleiri þjóðum um svokölluð velsældarhagkerfi í þeim tilgangi að stefnumótun stjórnvalda og fjárútlát styðji við velsældarmarkmið þar sem árangur er mældur með fjölbreyttum hætti.

Lífsgæði okkar hafa um aldir byggst á því að við búum á auðlindaríku og gjöfulu landi. Meðferð orkuauðlindarinnar hefur verið mikið rædd á undanförnum vikum og mánuðum. Sú hatramma umræða sýnir hve mikil þörf er á því að Alþingi standi við að gera breytingar á stjórnarskrá, ekki síst með ákvæði um þjóðareign á auðlindum og umhverfissjónarmið við auðlindanýtingu.

Það á að vera forgangsmál að tryggja að öll þau gæði sem náttúran hefur gefið okkur séu í sameiginlegri eigu okkar allra – hvort sem það er vatnið, jarðvarminn, vindurinn, hafið eða hvað annað. Tillögur að slíkum stjórnarskrárákvæðum voru settar í opið samráð fyrr í sumar og ég vænti þess að vinnu við þau verði lokið síðar á þessu ári. Þá er á mínum vegum einnig unnið að tillögum að skýrari lagaramma fyrir jarða- og landaviðskipti og þar á meðal stöðu landsréttinda og vatnsréttinda.

Ágætu landsmenn.

Fjölmargir þingmenn voru sakaðir um landráð í umræðum um þriðja orkupakkann. Eða kallaðir morðingjar fyrir að styðja ný lög um þungunarrof sem styrkja sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Ofsinn á greiða leið í fréttir og stundum á kostnað málefnalegrar umræðu. Víða í Evrópu vex popúlískum hreyfingum fiskur um hrygg, grafið er undan mannréttindum og vegið að innflytjendum. Sanngirni víkur fyrir æsingi og öfgum. Þá verður leiðin æ greiðari fyrir þá ófyrirleitnu að komast til valda og ýta undir fyrirlitningu almennings á stjórnmálum, flokkum, lýðræði og þingræði. Nýleg könnun í Bretlandi sýndi aukna jákvæðni almennings gagnvart „sterkum leiðtoga sem láti reglur ekki binda sig“ eins og það var orðað.

Ég hef hins vegar bjargfasta trú á þingræðinu. Ég hef trú á því kerfi að fólkið kjósi á milli lýðræðislegra stjórnmálaflokka sem byggjast á tilteknum gildum og standa fyrir ákveðna stefnu. Ég hef líka trú á að pólitísk rökræða og átök geti að lokum skilað góðum málamiðlunum sem eru nauðsynlegar í lýðræðissamfélagi og óumflýjanlegar í ríkisstjórn í fjölflokkakerfi. Við höfum hingað til borið gæfu til að standa saman vörð um ákveðin grunngildi sem víða um heim eru í hættu.

Það eru ekki margir sem halda uppi vörnum fyrir stjórnmálaflokka nú í seinni tíð. En ég ætla að gera það hér. Ég lít á lýðræðislegar stjórnmálahreyfingar sem eina undirstöðu lýðræðisríkja þar sem staðinn er vörður um mannréttindi, réttindi þeirra sem standa höllum fæti og lýðræðislegar stofnanir. Við eigum þeirri gæfu að fagna hér á Íslandi að hafa sett lög um fjármál stjórnmálaflokka sem auka gagnsæi og tryggja að hagsmunatengsl séu uppi á borðum. Og í samhengi þjóðanna eru tækifæri til stjórnmálaþátttöku á Íslandi mikil, sem er jákvætt. En við þurfum að vera á verði gagnvart breyttu starfsumhverfi stjórnmálanna og ekki síst tilraunum til að ná völdum og áhrifum með nafnlausum áróðri á nýjum miðlum ef takast á að tryggja áfram gagnsæið sem er undirstaða lýðræðisins.

Kæru landsmenn.

Að ferðast um Ísland yfir sumarmánuðina til að njóta náttúrunnar, birtunnar og mannlífsins er engu líkt og hluti af okkar miklu forréttindum sem búum hér.

Hér á landi vantaði ekki fræga og ófræga erlenda gesti. Það hefur vissulega orðið erfiður samdráttur í ferðaþjónustu eftir gjaldþrot stórs flugfélags í vor. En hagkerfið, og ekki síður samfélagið, var vel í stakk búið til að takast á við áskorunina. Á ferðum mínum um landið í sumar fann ég fyrir áhuga og innblæstri, sóknarhug og jákvæðni hjá þeim sem starfa við ferðaþjónustu. Þann sóknarhug má heimfæra upp á fleiri atvinnugreinar.

Ég hóf ræðu mína í dag á því að ræða um stærstu áskorunina sem er loftslagsváin. Þar eigum við sem samfélag því láni að fagna að forsvarsfólk bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar er reiðubúið að taka þátt í því verkefni með stjórnvöldum og almenningi.

Ísland er best í heimi í þessu og hinu en við getum orðið enn betri. Og um það ættum við að geta verið sammála.

75 ára lýðveldið Ísland er enn þeirrar gerðar að það eflist við hverja raun. Þess vegna er ég stolt af því að tilheyra þessu samfélagi þar sem við tökumst á um ýmis mál en stöndum saman þegar á reynir, þar sem við hræðumst ekki áskoranir heldur tökumst á við þær. Ágreiningur er ekkert til að óttast heldur er hann sameiginleg áskorun okkar allra sem eigum það sameiginlegt að vilja búa hér í þessu landi.

Við erum ekki minni eða meiri Íslendingar þó að uppruni okkar sé ólíkur. Við erum ekki minni eða meiri Íslendingar þó að skoðanir okkar séu ólíkar. Við erum ekki minni eða meiri Íslendingar hvort sem við erum með eða á móti orkupakkanum. Við erum ekki minni eða meiri Íslendingar hvort sem við búum í sveit eða borg. Við erum öll Íslendingar.

Grunnskylda okkar allra er við samfélagið okkar og það er hún sem gerir okkur að einni þjóð. Það er hún sem gerir okkur öll að Íslendingum og í samstöðunni um að vilja gera samfélagi sínu gagn felast mestu verðmætin. Gleymum því ekki.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search