Í hvoru liðinu ertu, stendur þú með bændum eða neytendum? Landsbyggðinni eða höfuðborginni? Þetta eru spurningar sem oft er stillt upp. Sem þingmaður Reykvíkinga í matvælaráðuneytinu er skoðun mín einföld. Bændur og neytendur eru í sama liði. Við byrjum öll daginn á því að eiga í samskiptum við bændur. Við fáum okkur morgunmat, verkefni dagsins eru erfiðari á fastandi maga. Þegar við viljum gera okkur dagamun þá eigum við líka í viðskiptum við bændur, við eldum eitthvað gott, hvort sem það er kjöt eða grænmeti.
Það eru því einföld stjórnmál sundrungar að stilla hagsmunum neytenda og bænda upp sem andstæðum pólum. Vissulega eru það hagsmunir beggja að matvælaverð sé sanngjarnt. Ef verð á afurðum bænda er með þeim hætti að afkoman er engin þá verður engin nýliðun. En að sama skapi er það svo að ef verð á afurðum bænda er það hátt að þorri almennings hefur ekki efnahagslegt aðgengi að þeim gefur eftirspurnin eftir. Landsbyggð og höfuðborg geta ekki án hvors annars verið.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur verið viðvarandi umræða um það á Íslandi, og raunar á öllum Vesturlöndum, hvernig við tryggjum nýliðun í landbúnaði. Að mínum dómi verða afkomumálin ekki skilin frá samfélagi dreifbýlisins. Tannhjól sögunnar snúast í átt til aukinnar sérhæfingar, skilvirkni og stærðarhagkvæmni, hvort sem er í frumframleiðslu eða úrvinnslu. Því tel ég mikilvægt að við sáum fræjum fjölbreytni í sveitum og hlúum að þeim þannig að fleiri stoðir séu undir búsetu. Það er markmið þessarar ríkisstjórnar og einn liður í því er að setja fram aðgerðaáætlun til að efla kornrækt. Sérfræðingar á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands hafa unnið slík drög sem kynnt verða á Hótel Nordica þann 15. mars næstkomandi kl. 11. Þar verða færð rök fyrir því að tækifæri í aukinni akuryrkju séu næg ef við berum gæfu til þess að stíga rétt skref núna. Hingað til hef ég ekki skynjað annað en þverpólitíska samstöðu um mikilvægi þess að stuðla að auknu fæðuöryggi og skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenska matvælaframleiðslu.
Uppbygging aukinnar kornræktar er liður í því. Á næstunni mun ég einnig leggja fram á Alþingi þingsályktun um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, sem hefur verið í samráði við almenning síðustu vikur. Þar verður horft til aukins fjölbreytileika og fjölþættra hlutverka landbúnaðar með skýrari hætti en áður hefur verið. Dæmi um þá fjölþættu þjónustu sem bændur veita eða geta veitt er aukinn árangur í loftslagsmálum, endurheimt vistkerfa og verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Sú þjónusta, ásamt stoðum hefðbundinnar matvælaframleiðslu, getur verið grunnurinn að blómlegum samfélögum um allt land.
Höfundur er matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.