Loftslagsváin, tæknibreytingar og hærra hlutfall aldraðra – allt eru þetta áskoranir sem blasa við öllum vestrænum samfélögum. Hvernig þau bregðast við mun skipta sköpum fyrir framtíðina. Hvernig okkur tekst til mun ráðast af því hvernig við tryggjum ákveðin grundvallaratriði; jöfnuð, sjálfbærni og lýðræði. Sterk samfélög framtíðar munu verða þau sem tryggja ákveðið jafnvægi milli þessara þriggja þátta, sem fela í sér fjölbreyttar stoðir efnahagslífsins, sterkafélagslega innviði og sjálfbæra auðlindanýtingu.
Markmiðið um að byggja upp sterkt samfélag fer saman við að auka lífsgæði og hamingju fólks. Ef við skoðum öll meginverkefni stjórnvalda, hvort sem það er rekstur heilbrigðisþjónustu, skóla eða félagslegs kerfis má segja að markmið þeirra allra sé í senn að tryggja gott samfélag og að auka lífsgæði fólks og þar með hamingju þess. En hvernig geta stjórnvöld tryggt að þeir fjármunir sem þau setja í þessi verkefni skili sér í þessum markmiðum, stefnumótun og ákvarðanir þjóni hagsmunum fólksins og mælikvarðarnir sem við notum til að mæla árangur mæli fjölbreyttari þætti en gert hefur verið hingað til?
Nefnd um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði skilaði tillögum til stjórnvalda í síðasta mánuði. Nefndin var skipuð fulltrúum stofnana og ráðuneyta og fulltrúum meirihluta og minnihluta á Alþingi. Markmiðið er að við stefnumótun til framtíðar verði horft til fjölbreyttari mælikvarða en áður hefur verið gert, öðlast betri skilning á velsæld, velmegun og félagslegum framförum og auka velsæld allra í samfélaginu. Nefndin lagði í fyrsta lagi til 39 mælikvarða um velsæld og lífsgæði sem mæla efnahagslega, félagslega og umhverfislega þætti. Í öðru lagi lagði hún til að bætt yrði úr skorti á tölulegum gögnum um umhverfismál og félagsauð. Í þriðja lagi að stjórnvöld móti afstöðu til þess með hvaða hætti þau nýti sér mælikvarðana við stefnumótun og í fjórða og síðasta lagi að Hagstofunni verði falið að halda utan um mælikvarðana.
Í kjölfar þessarar vinnu var haldin alþjóðleg ráðstefna í samstarfi við OECD og skosk stjórnvöld í Háskóla Íslands. Ísland hóf í fyrra þátttöku í samstarfi með Skotlandi og Nýja-Sjálandi um velsældarhagkerfi. Þar hefur Nýja-Sjáland tekið forystu um að skilgreina stjórn ríkisfjármála út frá velsældarmarkmiðum og Skotland hefur einnig hafið slíka vinnu. Og það er markmið ríkisstjórnarinnar að næsta fjármálaáætlun muni byggja á nýjum velsældarmælikvörðum samhliða því að unnið verði að því að bæta úr gagnaskorti þar sem hann er fyrir hendi og tryggja þannig að mælikvarðarnir nái yfir fjölbreytt svið.
Áfram verði að sjálfsögðu stuðst við hefðbundna mælikvarða, s.s. verga landsframleiðslu, atvinnuþátttöku og skuldastöðu hins opinbera, heimila og fyrirtækja. Hins vegar verði einnig teknir upp fjölbreyttari mælikvarðar sem mæli t.a.m. starfsánægju, hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkunotkun, traust til samborgara og eigið mat á andlegri heilsu og lengd vinnuviku.Í tengslum við mótun mælikvarðanna lét nefndin kanna viðhorf almennings til þess hvað skipti mestu máli varðandi eigin lífsgæði annars vegar og hvað skipti mestu máli fyrir samfélagið hins vegar. Þar er áhugavert að sjá að góð heilsa og gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu lenda efst á blaði, hvort sem spurt er um eigin lífsgæði eða samfélagslegt mikilvægi. Þegar horft er til samfélagslegra þátta eru öruggt húsnæði og aðgengi að menntun næst í röðinni en þegar horft er til eigin lífsgæða eru það samskipti við vini, fjölskyldu, nágranna og samstarfsfólk sem koma næst á eftir heilsunni.
Ef markmið stjórnvalda er að auka hamingju almennings hlýtur það að vera nauðsynlegt að mælikvarðar í opinberri stefnumótun endurspegli þessa þætti; mæli bæði lífslíkur og aðgengi að heilbrigðisþjónustu; öruggt húsnæði og aðgengi að menntun, en mæli líka stuðning annarra, lágtekjuhlutfall og jöfnuð í samfélaginu. Og á tímum þar sem umhverfi hefur vaxandi áhrif á lífsgæði okkar skiptir máli að mæla árangur í landgræðslu, svifryk og magn heimilisúrgangs.
Aðgerðir stjórnvalda til að mæta hinum stóru áskorunum sem blasa við samfélaginu munu skipta sköpum fyrir framtíðina. Aðgerðir stjórnvalda geta einnig haft sannanleg áhrif til að auka hamingju og lífsgæði fólks. Stjórnvöld eiga að setja sér skýr markmið í þeim efnum enda hlýtur það að vera skylda allra stjórnvalda að tryggja að lífsgæði alls almennings fari saman við aukna hagsæld og velsæld og vernd umhverfis.
Katrín Jakobsdóttir