Það eru gömul sannindi og ný að ef þú veist ekki hvert þú stefnir skiptir engu máli hvaða leið þú velur. Síðustu ár hefur orðið ævintýralega hröð uppbygging í fiskeldi. Haldi þessi þróun áfram verður eldislaxinn orðinn mikilvægasti nytjastofn landsins í efnahagslegu tilliti eftir fáein ár. Samhliða þessum öra vexti hefur lítil stefnumótun um fiskeldi verið unnin af hálfu stjórnvalda. Hvernig viljum við sjá þennan atvinnuveg þróast á næstu áratugum? Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að í þessa stefnumótun skuli ráðast á kjörtímabilinu. Mín sýn í þessum málum er einföld; tækifæri fiskeldis á Íslandi eru fyrst og fremst fólgin í því að byggja upp fiskeldi á sjónarmiðum sjálfbærni. Þessi mikilvæga stefnumótun er farin af stað og verður unnin hratt og vel.
Þríþætt athugun
Ég hef sett af stað þrjú verkefni sem tengjast stefnumótun í fiskeldi. Í fyrsta lagi óskaði ég eftir því í febrúar að Ríkisendurskoðun myndi fara í saumana á stjórnsýslu ráðuneytisins og undirstofnana er tengjast fiskeldi. Í öðru lagi óskaði ég eftir því að staða fiskeldis á Íslandi í dag yrði kortlögð til þess að við getum útbúið stefnumörkunina á bestu mögulegu upplýsingum. Ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group sér um að vinna þessa kortlagningu, með ítarlegu samráði við innlenda haghafa, og mun skila af sér í nóvember. Í þriðja lagi setti ég á fót hóp sem hefur það hlutverk að yfirfara smitvarnir í fiskeldi á Íslandi og hvernig við getum komið í veg fyrir að smitsjúkdómar valdi frekara tjóni til framtíðar. Afurð þessara verkefna verður heildstætt yfirlit um hvaðan við komum og hvert við viljum fara. Þegar við höfum ákveðið hvert við viljum fara þá getum við stillt áttavitann og farið rétta leið.
Ýmislegt athugavert í regluverkinu
Að mörgu er að hyggja og mikið hefur verið rætt um gjaldtökuna. Við þurfum að sjá til þess að tekjurnar sem fiskeldið skapar skiptist á réttlátan hátt. Pláss í fjörðum er afar takmörkuð auðlind sem samfélagið á saman og því þarf að gæta að því að skiptingin standist skoðun. Sveitarstjórnarfulltrúar fiskeldissveitarfélaga hafa kallað eftir því að fyrirkomulag Fiskeldissjóðs verði endurskoðað. Einnig hefur verið bent á fleiri möguleika til gjaldtöku af fiskeldi. Hvaða leið sem verður valin er ljóst að fyrirkomulag Fiskeldissjóðs verður ekki undanskilið í stefnumótuninni.
Með því að stilla áttavitann sjáum við til þess að uppbygging fiskeldis á Íslandi verði á forsendum sjálfbærni. Með því getum við betur tryggt að fiskeldi verði hluti af lausninni í því verkefni að brauðfæða mannkyn sem fjölgar – án þess að fórna náttúrunni.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra