Stjórn VG fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem nú hefur staðið í fimm vikur og ítrekar þá lífsnauðsyn að ágreiningur milli ríkja sé alltaf leystur með viðræðum en ekki stríðsátökum.
Stjórn Vinstri grænna styður formann sinn og forsætisráðherra í að tala fyrir friði í öllu alþjóðasamstarfi sem Ísland tekur þátt í og einnig á vettvangi Nató.
Rödd herlausrar þjóðar þarf að vera öflug. Hernaðarsinnar ganga nú á lagið og vilja stórauka vígvæðingu alls staðar í heiminum. Gegn því þarf að standa og leggja til friðsamlegar lausnir á móti. Vinstri græn standa við stefnu sína um að ganga úr Nató, en stjórn VG virðir jafnframt þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í öryggisstefnu þjóðarinnar.
Stjórn Vinstri grænna hvetur ríkisstjórn og sveitarfélög til að taka myndarlega á móti fólki á flótta frá Úkraínu og líta þar jafnframt til viðkvæmra hópa. Jafnframt þarf að halda áfram að taka vel á móti flóttafólki annars staðar að úr heiminum, en þörfin er víða brýn. Með þessu móti getum við sem herlaus þjóð lagt gott til mála.