PO
EN

Stjórnarandstaðan vaknar

Deildu 

Daginn sem 17 innanlandssmit greindust var eins og stjórnarandstaðan hefði hrokkið fram úr rúminu – steinsofandi – með allt á hornum sér eins og gjarnt er um þá sem þannig fer fyrir.

Ekki að það væri óvænt, yfirvöld höfðu margsagt að veiran myndi berast hingað aftur. Nú virðist, sem betur fer, að fumlausar en óvinsælar aðgerðir stjórnvalda fyrir verslunarmannahelgi hafi náð að stöðva nýjan faraldur í fæðingu. Þá var eins og áður, í einu og öllu farið að tillögum sóttvarnalæknis.

Það var líka að ráði sóttvarnalæknis að hafin var skimun á landamærum 15. júní. Stjórnarandstaðan mótmælti því ekki, þvert á móti, en nú á skimunin að vera pólitísk aðgerð, runnin undan rifjum ferðaþjónustunnar sem ríkisstjórnin hafi beygt sig undir. Ekkert er fjær sanni. Landið var aldrei lokað og skimunin skilar góðum árangri, eins og smithlutfallið sýnir.

Formaður Viðreisnar segir að ríkisstjórnin sé að koma úr löngu sumarfríi. Margur heldur mig sig! Ríkisstjórnin hefur sannarlega ekki verið í fríi – frá byrjun júní hafa verið haldnir 15 ríkisstjórnarfundir, forsætisráðherra og aðrir ráðherrar hafa unnið náið með sínu málasviði: menntamálaráðherra með skólunum, ferðamálaráðherra með ferðabransanum, samgönguráðherra með sveitarfélögum, félagsmálaráðherra með verkalýðshreyfingu og svo má áfram telja.

Meðan stjórnarandstaðan svaf sumarlangt voru sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórn nefnilega í vinnunni sinni, reiðubúin til að takast á við vanda hvers dags, en einnig að undirbúa aðgerðir til lengri tíma. Á haustþingi verður þessi vinna kynnt m.a. í fjármálaáætlun næstu fimm ára, fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 og kóvíd-aðgerðum til mótvægis við áhrif veirunnar á samfélagið. Markmiðið er sem fyrr að tryggja heilsu þjóðarinnar og halda samfélaginu gangandi.

Það er mikilvægt að hrósa því sem vel er gert og benda á hvað betur má fara. En stjórnarandstaða sem rumskar þegar verst lætur og hefur lítið til málanna að leggja annað en neikvæðni og nöldur ætti að leggja sig aftur. Það er oft betra að takast á við verkefni dagsins eftir viðbótarblund.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search