Okkur er ítrekað sagt, í fjölmiðlum og á Alþingi, að stjórnvöld þjáist af stefnuleysi og vanmætti, bæði fyrir faraldurinn og nú í honum. Í raunheimum skulum við sem snöggvast horfa til Ölfuss sem er um 2.300 manna samfélag. Þar er nú hafin uppbygging samkvæmt atvinnustefnu og langtímasýn sem á sér rætur hjá ríkisstjórninni, einbeittum áhuga sveitarstjórnar Ölfuss og fjölmargra íbúa. Verið að undirbúa aukinn vatnsútflutning (Iceland Glacial) og kolefnisjöfnun hans, byggja upp 5.000 tonna laxeldi á landi í tveimur áföngum (Landeldi) og stefnt að stórfelldri ylrækt til útflutnings í samvinnu við ylræktarbændur á Suðurlandi. Í auðlindagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði er að finna merka og vaxandi þörungarækt sem skilar omega-3-fitu, próteini og fleiri afurðum sprotafyrirtækisins Vaxa. Nýtt þekkingar- og þróunarsetur hefur tekið til starfa í Þorlákshöfn og bætt hafnaraðstaða til útflutnings í Þorlákshöfn hefur laðað að Smyril Cargo Line með sínar reglubundnu flutningaferðir.
Þetta allt endurspeglar atvinnustefnu stjórnvalda, eins fjölbreytt og hún er, öfluga nýsköpunarstefnu og nýja sjóði, langþráða matvælastefnu, metnaðarfulla samgönguáætlun, vistvæna orkustefnu og loftslagsvænar aðgerðir. Framfarirnar minna okkur á fjölmörg tækifæri sem bíða í Suðurkjördæmi, allt frá Suðurnesjum til Hafnar í Hornafirði, og einnig á sjálfan raunveruleikann. Hann felst ekki í stóryrðum allt of margra í stjórnarandstöðunni um stefnuleysi og getuleysi stjórnvalda. Slík orð ala því miður á ruglingi, reiði og sundrungu á erfiðum tímum. Þar horfum við í andlit lýðhyggjunnar, eða lýðskrumsins, þar sem stjórnmálamenn taka að sér að deila og drottna. Sem sagt: Verið er að halla réttu máli með rakalausum fullyrðingum, frammi fyrir raunveruleikanum sem blasir við. Uppbyggingin einangrast ekki við Ölfus. Áherslur á menntun, rannsóknir, innviðafjárfestingar, nýsköpun í öllum atvinnugreinum, nýjar atvinnugreinar og grænar áherslur eru stefnumið stjórnvalda fyrir landið allt. Það er því ekki um skort á markmiðum og vanmátt stjórnvalda að ræða, þvert á móti. VG leggur ríflega sitt af mörkum í samræmi við stjórnarsamning flokkanna þriggja eins og hæfir félagslegum stefnumiðum, jafnrétti og umhverfisvernd.
Þessi orð mín eru svar við óréttmætri og innantómri gagnrýni. Þau eiga að vera áminning til allra sem hafa áhuga á stjórnmálum að máta raunveruleikann við síbyljuna um vanheilsu ríkisstjórnarinnar, vangetu og vanefndir. Samsteypustjórn er vettvangur málamiðlana og er byggð á trausti. Undan því kemst enginn flokkur á þingi sem tekur að sér framkvæmdavald.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG í Suðurkjördæmi.