Search
Close this search box.

Stjórnmál á umbrotatímum

Deildu 

Náttúran hefur ætíð verið mikilvægur hluti af tilveru okkar Íslendinga. Við lifum af henni og höfum lært að lifa með henni. Við veltum fyrir okkur veðrinu á hverjum degi, metum færðina yfir vetrartímann, eltum sólina á sumrin. Veðrið er þó ekki eina áhyggjuefni okkar. Jörðin sjálf hefur sett svip sinn á tilveru okkar undanfarin ár, ekki síst á suðvesturhorninu. Ekki einu sinni heldur tvisvar opnaðist jörðin á Reykjanesskaga í ár og spúði út úr sér glóandi hrauni.

Í aðdraganda síðara gossins skalf jörðin ógurlega þannig að sprungur opnuðust og ákveðið var að rýma Grindavík. Það er stór ákvörðun að flytja hátt í 4000 manns af heimilum sínum en það er frumskylda stjórnvalda að tryggja öryggi fólks og hafa allar ákvarðanir miðað að því marki. Ógnin af eldgosi náði einnig til allra 30 þúsund íbúa Suðurnesja sem reiða sig á hita og rafmagn frá orkuverinu við Svartsengi. Þess vegna var brýn nauðsyn að ráðast í byggingu varnargarðs til að verja orkuverið og þar með öryggi allra íbúa Suðurnesja.

Ekki sér fyrir endann á jarðhræringum á Reykjanesskaga. Stjórnvöld hafa undanfarið ráðist í umfangsmikla kortlagningu innviða á svæðinu og meðal annars þess vegna var unnt að bregðast skjótt við þeim umbrotum sem gengu yfir í haust. Íslenskt samfélag sýndi vel úr hverju það er gert þegar þessir atburðir riðu yfir. Það er samstaðan sem kemur okkur í gegnum áföll af þessu tagi og hana sýnum við þegar á reynir.

Snúin staða alþjóðamála

Náttúran veldur víðar usla. Loftslagsvá af manna völdum hefur þegar skapað neyðarástand víða um heim. Árið sem nú er á enda er heitasta ár sögunnar. Ísinn á norður- og suðurskauti hopar, yfirborð sjávar hækkar, öfgar í veðurfari aukast og vistkerfum hnignar. Neyðarástand er staðreynd og við því þarf að bregðast. Við verðum að draga hraðar og meira úr losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars með því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis til að ná markmiðinu um að halda hlýnun jarðar innan einnar og hálfrar gráðu. Ísland mun sem fyrr leggja sitt af mörkum í þeirri baráttu.

Náttúran var þó ekki ein um að valda usla í heiminum. Mannskepnan lét sitt ekki eftir liggja. Rússar réðust inn í Úkraínu snemma árs 2022 og stríð hefur geisað síðan. Mannfall hefur verið gríðarlegt og óljóst hverju stríðið á að skila öðru en dauða og myrkri, skaða á náttúru og innviðum, sorg og reiði.

Á árinu sem er að líða réðust Hamas-samtökin inn í Ísrael með þeim afleiðingum að á annað þúsund almennir borgarar dóu. Þessi árás leiddi til árása Ísraels á Gaza þar sem meira en 20 þúsund almennir palestínskir borgarar, meira en 8000 börn, hafa fallið. Þessar hræðilegu árásir hafa leitt af sér miklar hörmungar. Íslensk stjórnvöld hafa fordæmt  árásir á óbreytta borgara og innviði og gert kröfu um tafarlaust vopnahlé og rannsókn á stríðsglæpum. Ljóst er að enn hefur dregið hefur úr von um varanlegan frið og öryggi á grundvelli tveggja ríkja lausnar.

Vopnuð átök hafa ekki verið fleiri um langt skeið og neyð af völdum loftslagsbreytinga hefur samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, neikvæð áhrif á stöðu kvenna og stúlkna og veldur auknum ójöfnuði. Óstöðugleiki fer vaxandi víða um heim, skautun í pólitískri umræðu hefur aukist og víða sjáum við auknar öfgar í stjórnmálum. Nýtt tækniumhverfi þar sem æ fleiri sækja sér upplýsingar á samfélagsmiðla getur gert að verkum að fólk lokist inni í eigin upplýsingablöðru, sjái sjaldan önnur sjónarmið og heimsmyndin þrengist. Þessi þróun verður á sama tíma og við stöndum frammi fyrir viðfangsefnum sem kalla á skýra upplýsingamiðlun, ákvarðanir sem byggjast á gögnum og staðreyndum og samstöðu um meginstefnu samfélagsins og heimsins. Á Íslandi höfum við náð góðum árangri í að takast sameinuð á við hvort sem er náttúruvá eða heimsfaraldur. Við erum þó ekki ósnortin af þessari þróun frekar en aðrir.

Verðbólga niður á nýju ári

Verðbólga sem meðal annars stafar af þessum stríðsátökum hefur gert okkur lífið leitt allt árið. Nú horfir þó til betri vegar. Undirliggjandi þættir verðbólgunnar benda til þess að hún hjaðni á nýju ári. Það er í okkar höndum að ná verðbólgunni niður og tryggja forsendur fyrir lægri vexti og bætt lífskjör, ekki síst þeirra sem erfiðast eiga með að ná endum saman.

Með fjárlögum nýs árs setur ríkisstjórnin fram skýr markmið að stuðla að lækkandi verðbólgu. Halda þarf aftur af útgjöldum og þenslu í hagkerfinu. Aukin gjöld verða lögð á atvinnulífið með viðbótartekjuskatti á fyrirtæki, gistináttagjaldi og hærra fiskeldisgjaldi. Þá var ákveðið að krónutölugjöld ríkisins hækkuðu ekki í takt við verðbólgu heldur um einungis 3,5%, sem þýðir að þau lækka að raunvirði og stuðla þannig að minni verðbólgu.

Björninn er þó ekki unninn. Framundan eru kjarasamningar á  vinnumarkaði og miklu skiptir að þar takist vel til, samið verði til langs tíma og niðurstaðan styðji við verðstöðugleika og vaxandi kaupmátt. Ríkisstjórnin mun gera það sem unnt er til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga og verðbólgumarkmið á sama tíma. Það er ánægjulegt að finna ríkan vilja hjá bæði verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum til að ná samningum sem styðja við þessi markmið. Mikilvægt er einnig að atvinnulífið geri það sem það getur til að styðja við þetta markmið – til að mynda halda aftur af verðhækkunum, arðgreiðslum og óhóflegum kaupaukum til stjórnenda. Ef við leggjumst öll á eitt sköpum við forsendur til að unnt verði að lækka vexti sem mun skipta öllu fyrir almenning í landinu. Ég er sannfærð um að saman munum við ná árangri og að við munum sjá verðbólguna fara niður á árinu þannig að hún hafi lækkað um helming í lok árs.

Aðgerðir ríkisins til að styðja við farsæla kjarasamninga munu snúast um húsnæðismál. Þar höfum við þegar tekið stór skref til að auka framboð á húsnæði, einkum í gegnum almenna íbúðakerfið. Rammasamkomulag ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum og ný húsnæðisstefna er leiðarvísirinn sem þurfti í þessum efnum og vinna þarf áfram til að auka framboð og treysta húsnæðisöryggi allra hópa. Þá munu aðgerðir ríkisins beinast að barnafjölskyldum með það að markmiði að skapa forsendur fyrir öll börn til að nýta þau tækifæri sem samfélagið býður upp á. Með því að styðja betur við barnafjölskyldur og draga úr fátækt barna leggjum við grunn að aukinni velsæld til framtíðar.

Velsæld allra landsmanna

Hundrað þúsund manns tóku þátt í verkfalli kvenna og kvára núna í október. Krafan var skýr: Jafnrétti verður ekki náð nema við útrýmum kynbundnum launamun og kynbundu ofbeldi og áreiti. Verkfallið vakti athygli út fyrir landsteinana þar sem almennt er litið á Ísland sem fyrirmynd í jafnréttismálum. Ég hef í ófá skipti setið með erlendum blaðamönnum og farið yfir það að ástæða þess að Ísland stendur best í jafnréttismálum í heimi er elja og þrautseigja íslenskra kvenna sem hafa barist fyrir kerfislegum breytingum eins og leikskólum og fæðingarorlofi, sett málefni eins og kynbundið ofbeldi og áreiti rækilega á dagská og breytt hugarfari og gildismati í opinberri umræðu og daglegu lífi. En íslenskar konur munu ekki unna sér hvíldar fyrr en fullu jafnrétti er náð. Ég trúi því að við getum náð því markmiði fyrir árið 2030. Árangurinn undanfarin 30 ár ætti að vera innblástur til að gera það sem gera þarf til þess.

Það eru viðsjárverðir tímar í heiminum. Við á Íslandi stöndum vel í flestu alþjóðlegu samhengi, hvort sem litið er til efnahagslegra þátta, samfélagsgerðar eða umhverfis og náttúru. Við eigum að nýta góða stöðu okkar í þágu góðra verka hér heima og í heiminum.  Tækifærin eru ærin fyrir okkur ef við höldum rétt á spöðunum á nýju ári og sýnum samstöðu gagnvart áskorunum framundan. Samstaðan á eftir að verða okkar mesti ofurkraftur í verkefnunum framundan. Saman getum við náð markmiðum okkar og tryggt lífsgæði og velsæld allra landsmanna.

Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search