Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 28. ágúst 2021 leggur áherslu á að hreyfingin leiði næstu ríkisstjórn að loknum kosningum nú í haust. Málefnalegur árangur Vinstri-grænna af núverandi stjórnarsamstarfi er óumdeildur en framundan eru stór verkefni.
Næsta ríkisstjórn þarf að halda áfram á sömu braut og leggja enn frekari áherslu á loftslagsmálin, draga enn meira úr losun, auka kolefnisbindingu og sjá til þess að aðgerðir gegn loftslagsvánni tryggi réttlát umskipti þannig að þær bitni ekki tekjulágum. Við eigum að setja okkur enn metnaðarfyllri markmið um samdrátt – stefna að a.m.k. 60% samdrætti árið 2030 og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.
Tryggja þarf grænar áherslur í atvinnuuppbyggingu, m.a. með eflingu hringrásarhagkerfis. Huga þarf betur að hvötum til endurnýtingar, til dæmis á margs konar varahlutum.
Nýta þarf þau stóru sóknarfæri sem íslenskt samfélag á í þekkingariðnaði, nýsköpun og skapandi greinum. Það eykur verðmætasköpun í samfélaginu, skapar störf og tryggir fjölbreyttari stoðir undir efnahagslífið.
Halda skal áfram að byggja upp menntun á öllum skólastigum, brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, tryggja nýliðun í kennarastétt og styðja enn betur við námsmenn. Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu.
Leggja þarf aukna áherslu á jöfnunarhlutverk skattkerfisins með réttlátum breytingum. Þá þarf einnig að nýta skattkerfið betur til að stuðla að loftslagsmarkmiðum okkar.
Raunhæfar aðgerðir þarf til að útrýma launamun kynjanna, meðal annars með skýru endurmati á stöðu kvennastétta. Farið verði í tilraunaverkefni á þessu sviði. Meta þarf áhrif styttingar vinnuvikunnar á kjör launafólks, ekki síst vaktavinnafólks en þar á meðal eru stórar kvennastéttir.
Vinna þarf að því að eldra fólk geti búið lengur heima. Endurskoða þarf lífeyris- og almannatryggingakerfið þannig að fólk geti unnið lengur. Tryggja þarf hjúkrunarrými í takt við þarfir samfélagsins. Eins þarf að byggja áfram upp félagslegan viðbótarstuðning við tekjulága í hópi aldraðra.
Markvissar aðgerðir þarf til að styðja við tekjulágar barnafjölskyldur með eflingu barnabótakerfis.
Tryggja þarf aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku og setja heildstæða stefnu í málefnum ungs fólks.
Á næsta kjörtímabili þarf að endurskoða framfærslukerfi öryrkja og bæta stöðu tekjulægri öryrkja og öryrkja með börn.
Halda þarf áfram uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis, bæta í stofnframlög til uppbyggingar almennra íbúða og efla það kerfi til framtíðar. Þá þarf að efla og stækka leigufélagið Bríeti sem er í eigu ríkisins og ætlað er að koma á öflugum og sanngjörnum leigumarkaði um land allt. Halda þarf áfram að bæta réttindi leigjenda og bjóða upp á öfluga upplýsingagjöf til þeirra á mörgum tungumálum.
Skoða þarf að setja á lagaheimild til búsetuskyldu í íbúðarhúsnæði, með áherslu á þéttbýlissvæði eins og þekkist víða í Evrópu, til að tryggja að húsnæði standi ekki autt árum og áratugum saman á sama tíma og fólk vantar þak yfir höfuðið.
Hugsum til framtíðar í húsnæðismálum með því að leggja sjónarmið í þágu umhverfis- og loftslagsmála til grundvallar skipulagi og uppbyggingu húsnæðis. Horfa þarf til hagkvæmra lausna í húsnæðismálum með minna húsnæði, umhverfisvænum byggingaraðferðum, bættri orkunýtingu, bættu aðgengi og styttri fjarlægðum frá þjónustu.
Halda þarf áfram að draga úr kostnaði sjúklinga. Næsta skref er að afnema komugjöld á heilsugæslu og lækka gjöld fyrir aðra heilbrigðisþjónustu, lyf og hjálpartæki.
Efla þarf enn frekar opinbera heilbrigðiskerfið og standa vörð um það gagnvart mikilli ásókn í hagnaðardrifinn einkarekstur. Þá þarf að ljúka við byggingu nýs spítala.
Áfram þarf að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu um land allt, efla forvarnir og tryggja snemmtæka íhlutun enda er góð geðheilsa órjúfanlegur þáttur í góðri lýðheilsu.
Halda þarf áfram að efla innviði samfélagsins á ýmsum sviðum, m.a. með fjölþættum lausnum í samgöngum, fjarskiptum o.fl.
Efla þarf Matvælasjóð, innlenda matvælaframleiðslu, ekki síst grænmetisrækt, og gera þarf tímasetta áætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu. Leita þarf leiða til að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði og skjóta fleiri stoðum undir greinina.
Gera þarf tímasetta áætlun um orkuskipti í sjávarútvegi í samráði við greinina enda mikilvægt framlag til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum. Halda þarf áfram að auka byggðatengdar aflaheimildir (5,3% kerfið), efla strandveiðar, vinna gegn samþjöppun í sjávarútvegi og stuðla að fjölbreytni í útgerð. Meta þarf áhrif nýs fyrirkomulags afkomutengdra veiðigjalda á lítil og meðalstór fyrirtæki annars vegar og stærri fyrirtæki hins vegar.
Náttúruvernd og vernd líffræðilegrar fjölbreytni eru lykilþættir í því að tryggja sjálfbærni samfélagsins og mikilvægar aðgerðir til þess eru að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands og Vestfjörðum.
Efla þarf löggæsluna og tryggja að lögreglan hafi nægan mannafla, m.a. til að taka með skýrum hætti á alþjóðlegri glæpastarfsemi.
Halda skal áfram með umbætur á vinnumarkaði. Byggja þær m.a. á tillögum um hvernig koma megi í veg fyrir félagsleg undirboð og launaþjófnað á íslenskum vinnumarkaði. Efla þarf stuðning við launafólk til að sækja rétt sinn þegar brotið er á því.
Áfram skal efla stuðning við flóttamenn og tryggja að innflytjendur hafi hér tækifæri til að skapa sér betra líf.
Fjölga á störfum án staðsetningar hjá hinu opinbera. Þá þarf hið opinbera að sýna fordæmi hvað varðar ráðningu fólks í hlutastörf t.a.m. fyrir fólk sem býr við skerta starfsgetu. Halda þarf áfram innviðauppbyggingu um land allt og tryggja tækifæri til menntunar, rannsókna og nýsköpunar í öllum landshlutum.
Baráttunni fyrir mannréttindum lýkur aldrei. Áríðandi er að halda baráttunni áfram á öllum sviðum sérstaklega í málefnum fatlaðs fólks og öryrkja.
Endurskoða þarf stjórnsýslu útlendingamála og aðskilja stjórnsýslu og þjónustu Útlendingastofnunar. Markmiðið á að vera að taka á móti fleirum og gera það enn betur. Þá þarf að endurskoða fyrirkomulag atvinnuleyfa og greiða leið fyrir þau sem hingað koma til að starfa á íslenskum vinnumarkaði.
Stofna þarf sérstaka sjálfstæða Mannréttindastofnun.
Halda þarf áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að ný ákvæði um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd hljóti afgreiðslu Alþingis en einnig þarf að ráðast í tímabærar breytingar á öðrum köflum. Endurskoða þarf mannréttindakafla stjórnarskrárinnar meðal annars með hliðsjón af réttinum til menntunar, heilbrigðis og lífsviðurværis.
Mikilvægt er að halda áfram endurskoðun jarðalaga. Stórt skref var stigið þegar sett voru stærðarmörk á land sem einn aðili getur keypt sér en halda þarf áfram. Skýra þarf lagaumhverfið þegar um er að ræða sameign á jörðum og þá þarf einnig að tryggja forkaupsrétt ríkisins þegar um er að ræða land þar sem eru náttúru- og menningarminjar.
Ljúka þarf endurskoðun löggjafar sem tryggir enn frekar réttarstöðu brotaþola. Þá þarf að fylgja eftir forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðisofbeldi sem og áreitni.
Mikilvægt er að bregðast við auknum vígbúnaði á norðurslóðum og auknum umsvifum Bandaríkjahers og NATO, m.a. hér á landi. Auk þeirrar ógnar við frið í heiminum sem þessi þróun skapar verðum við líka að líta til þeirra umhverfisáhrifa sem stafa af vígbúnaði og umferð hernaðartækja.
Tryggja þarf að langtímaatvinnuleysi festist ekki í sessi í íslensku samfélagi með tilheyrandi samfélagslegum afleiðingum. Því þarf m.a. að skapa ný græn störf með fjölbreyttum fjárfestingum og áframhaldi öflugra vinnumarkaðsaðgerða.
Hætta er á að heimsfaraldur, efnahagslægð og loftslagsvá leiði af sér ranglæti og aukinn ójöfnuð. Einmitt þess vegna er mikilvægt að Vinstriheyfingin – grænt framboð haldi ótrauð áfram sínum góðu verkum og tryggi með öllum sínum krafti að Ísland verði áfram gott samfélag – samfélag fyrir okkur öll.
Stjórn VG