Search
Close this search box.

Stjórnmálaályktun landsfundar

Deildu 

(Birt með fyrirvara um lokayfirlestur ritstjórnar þ.e. það gætu verið einstaka innsláttarvillur í skjölunum.)

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri dagana 17. – 19. mars 2023, fagnar þeim málefnalega árangri sem hreyfingin hefur náð fram í ríkisstjórn undanfarin ár. Nægir þar að nefna:

 • þrepaskipt tekjuskattskerfi tekið upp;
 • fæðingarorlof lengt úr níu mánuðum í tólf með skýrum reglum um skiptingu milli foreldra;
 • styttingu vinnuvikunnar;
 • lægri kostnaðarþátttöku sjúklinga;
 • ný hlutdeildarlán fyrir þau sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð;
 • að dregið hefur verið úr skerðingum á greiðslum til öryrkja og frítekjumark vegna atvinnutekna tvöfaldað;
 • að tekinn hefur verið upp félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða;
 • barnabætur hækkaðar og kerfinu breytt þannig að mun fleiri fjölskyldur fá nú barnabætur;
 • húsnæðisstuðningur hefur verið hækkaður um fjórðung;
 • stuðningskerfi við börn endurskoðuð frá grunni til að tryggja farsælt samstarf ólíkra stofnana ríkis og sveitarfélaga í þágu barna;
 • aukna fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun og aukinn stuðning við menntakerfið;
 • byggingu nýs Landspítala;
 • eflingu heilsugæslunnar um allt land;
 • stórsókn í geðheilbrigðismálum;
 • fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum;
 • lögfesting markmiðs um kolefnishlutleysi, eitt fárra ríkja heims;
 • stefnu um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum;
 • aldrei fleiri friðlýsingar náttúruminja;
 • nýja framsækna úrgangslöggjöf sem samræmir og skyldar flokkun sorps;
 • ný lög um kynrænt sjálfræði;
 • ný jafnréttislög;
 • mikilvæg skref sem stigin hafa verið við innleiðingu hringrásarhagkerfisins, m.a. bann við markaðssetningu óþarfa einnota plasts;
 • aðgerðaáætlun um að sporna gegn matarsóun;
 • ný lög um þungunarrof;
 • fyrstu aðgerðaáætlunina í málefnum hinsegin fólks;
 • lög gegn mismunun innan og utan vinnumarkaðar;
 • bætta réttarstöðu brotaþola;
 • ný lagaákvæði um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi;
 • ný lög um sorgarleyfi í kjölfar barnsmissis;
 • lög um vernd uppljóstrara.

Sátt um orkuuppbyggingu

Fundurinn áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld móti stefnu um nýtingu vindorku sem byggir á breiðri sátt, virðingu fyrir viðkvæmri náttúru og samfélagslegum áhrifum og sem kveði á um gjaldtöku af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Mikilvægt er að arður af þessari auðlind renni í sameiginlega sjóði þjóðarinnar eins og önnur auðlindagjöld. Vindorkuver eiga að falla undir lög um rammaáætlun og brýnt að ekki verði ráðist í uppbyggingu vindorkuvera, annarra en þeirra tveggja sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, fyrr en stefna um nýtingu vindorku liggur fyrir. Þá þarf að tryggja að öll viðbótarorka sem kann að verða framleidd renni til innlendra orkuskipta. Leggja skal áherslu á að opinber orkufyrirtæki á borð við Landsvirkjun njóti forgangs þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda okkar. Tryggja þarf afhendingaröryggi sem og neytendavernd til að koma í veg fyrir hækkun raforkuverðs til almennra neytenda og smærri og meðalstórra innlendra fyrirtækja.

Aðgerðir gegn loftslagsvá

Fundurinn brýnir stjórnvöld í baráttunni gegn loftslagsvánni þar sem orkuskipti gegna mikilvægu hlutverki en nægja ekki ein og sér til að Ísland nái metnaðarfullum markmiðum sínum um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040 og um 55% samdrátt í losun á eigin ábyrgð fyrir 2030. Ísland á að vera leiðandi í baráttunni, innleiða hringrásarhagkerfi, breyttar neyslu- og ferðavenjur og sækja fram í kolefnisbindingu, með náttúrulegum lausnum sem og með að styðja við hraða tækniþróun lausna við föngun og förgun koltvísýrings á landi og sjó. Fundurinn lýsir yfir ánægju með samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins um að setja markmið um samdrátt í losun í hverri atvinnugrein fyrir sig og minnir á nauðsyn þess að allar aðgerðir í baráttunni miði að réttlátum umskiptum og félagslegu réttlæti. Fundurinn ítrekar mikilvægi þess að banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri efnahagslögsögu sem allra fyrst.

Þjóðgarður

Fundurinn fagnar samkomulagi um „30×30 markmiðin“ sem snýst um að vernda 30% af landi og 30% af hafi fyrir árið 2030 og áréttar að tapi í tegundafjölbreytni í lífríkinu verður ekki snúið við nema með samstilltu átaki allra þjóða. Þá hvetur fundurinn til þess að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hraði vinnu við þjóðgarð sem fjallað er ítarlega um í stjórnarsáttmála og frumvarp þess efnis komi fram á næsta þingi.

Minjavernd

Fundurinn leggur áherslu á að standa vörð um og efla minjavernd í landinu. Mikilvægt er að styðja og styrkja sjálfstæða stofnun minjaverndar líkt og gert er hjá viðmiðunarþjóðum. Á Íslandi eru mikil sóknarfæri til að styðja við málaflokkinn og miðla áfram menningararfi með margvíslegum hætti bæði til innlendra og erlendra gesta.

Aðgerðir gegn verðbólgu

Fundurinn hvetur til skýrra aðgerða gegn verðbólgu, verðlagseftirlit verði aukið og komandi fjármálaáætlun endurspegli skýr áform um að tekið verði á verðbólgu. Fundurinn fagnar áherslum sem birtust í stuðningsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í desember sl. og endurspegla áherslur sem birtust í stuðningi stjórnvalda vegna aukinnar verðbólgu sl. sumar og í fjárlögum þessa árs og styðja við lífskjör lág- og millitekjufólks, barnafjölskyldur og verja viðkvæmustu hópa samfélagsins. Á tímum verðbólgu er mikilvægt að stjórnvöld efli neytendavernd og verðlagseftirlit eins og Neytendasamtökin hafa hvatt til. Setja þarf skorður við fákeppni og óhóflegum arðgreiðslum verslunar og banka. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að fylgja fordæmi Norðurlandaþjóða og láta fara fram rannsókn á hækkun matvælaverðs og annarra brýnna nauðsynja heimilanna svo sem olíu- og bensínverði.

Betri barnabætur og félagslegar lausnir á húsnæðismarkaði

Fundurinn fagnar sérstaklega breytingum á húsnæðis- og barnabótakerfum sem kynntar voru í tengslum við kjarasamninga og efla bæði kerfin til muna með hærri greiðslum og minni skerðingum auk þess sem barnabætur munu ná til meira en 3.000 fleiri fjölskyldna en áður. Þá eru markvissar aðgerðir í húsnæðismálum mikilvægar, með uppbyggingu í almenna íbúðarkerfinu í gegnum aukin stofnframlög, og ekki síður sú langtímasýn sem birtist í gerð fyrsta rammasamkomulagsins í húsnæðismálum á milli ríkis og sveitarfélaga sem kveður á um byggingu meira en 30.000 íbúða á næstu árum. Aukið framboð íbúða fyrir alla tekjuhópa er forsenda þess að hægt sé að tryggja meiri jöfnuð og öryggi fólks í húsnæðismálum.

Betri leigumarkaður

Fundurinn lýsir yfir ánægju með skref sem tekin voru til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda á Alþingi fyrir jól en ítrekar afstöðu sína að ganga verði lengra í að tryggja öryggi og stöðu leigjenda, en nauðsyn þess sást skýrt í nýlegri umræðu um gífurlegar hækkanir Ölmu leigufélags og ljóst er að það er ekki eina leigufélagið sem fer fram með óverjanlegum hætti gagnvart lífskjörum og stöðu fólks á leigumarkaði. Á þessu þarf að taka og fundurinn hvetur til þess að settar verði skýrari lagareglur um leigumarkaðinn þar sem verði meðal annars kveðið á um bremsu á hækkun leiguverðs. Vinstrihreyfingin – grænt framboð styður baráttu þeirra sem berjast fyrir bættum kjörum, ekki síst þeirra sem vilja hækka lægstu launin í samfélaginu en ítrekar um leið að best er að vinnudeilur leysist við samningaborðið.

Bætt kjör öryrkja

Fundurinn lýsir yfir stuðningi við vinnu félags- og vinnumarkaðsráðherra í endurskoðun á þjónustu og afkomutryggingarkerfi endurhæfingar- og örorkulífeyrisþega og fagnar skrefi sem þegar hefur verið tekið með tvöföldun frítekjumarks sem ekki hafði verið hækkað frá 2009. Það er fagnaðarefni að loks hreyfist þessi mál áfram eftir áratugalanga kyrrstöðu sem bitnað hefur á lífskjörum örorkulífeyrisþega. Þá fagnar fundurinn mikilvægri vinnu við mótun heildstæðrar stefnu um bætta þjónustu við eldra fólk og telur mikilvægt að ljúka henni sem fyrst.

Almannaþjónustan

Almannaþjónustan hefur aldrei verið mikilvægari og brýnt er að haldið verði áfram að efla hið opinbera heilbrigðiskerfi, stytta biðlista eftir nauðsynlegri læknisþjónustu og draga úr kostnaði sjúklinga. Áfram þarf að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu. Mönnun í kerfinu verður eitt stærsta viðfangsefni komandi ára og þar þarf að tryggja samvinnu menntakerfisins- og heilbrigðiskerfisins. Nýta þarf og vinna markvisst að framgangi Heilbrigðisstefnu til 2030. Hraða þarf innleiðingu farsældarlaganna og tryggja þannig hag allra barna í íslensku samfélagi.

Aukin framlög til háskóla

Fundurinn hvetur ríkisstjórnina og Alþingi til að auka fjárframlög til háskóla en ljóst má vera að íslenskir háskólar eru enn vanfjármagnaðir í alþjóðlegu samhengi. Það birtist til að mynda í of fáum fastráðnum kennurum, reiknilíkani sem tekur ekki mið af kröfum samtímans og ónógu rannsóknafé inni í háskólunum. Háskólarnir eru undirstöðustofnanir í þekkingarsamfélagi og á sama tíma og vel hefur tekist til með að styðja við samkeppnissjóði í rannsóknum og nýsköpun og stuðningur við atvinnulífið á þessu sviði hefur verið stóraukinn þarf að huga að undirstöðunum. Sérstaklega þarf að styrkja stöðu Háskóla Íslands sem hefur breiðari skyldum að gegna en aðrir skólar gagnvart fjölbreyttum rannsóknum og kennslu.

Íslenskukennsla

Fundurinn fagnar að málefni íslenskrar tungu séu tekin föstum tökum með stofnun ráðherranefndar um íslensku. Áframhaldandi stuðningur við þróun máltækni og að við getum talað við tækin okkar á íslensku er lykilþáttur í vernd tungumálsins. Þá er nauðsynlegt að auka aðgang innflytjenda að íslenskukennslu, á kostnað atvinnurekenda og á vinnutíma. Fundurinn ítrekar einnig mikilvægi þess að þau börn sem hingað koma fái ekki eingöngu íslenskukennslu heldur einnig móðurmálskennslu þar sem því verður við komið. Fundurinn brýnir bæði hið opinbera og atvinnulífið til að sinna þessum málum af ábyrgð og að gefa innflytjendum raunveruleg tækifæri til að nýta menntun og reynslu sína þegar ráðið er í störf. Íslenskt samfélag fer á mis við að njóta hæfileika fólks sem hingað flytur til fulls eins og sést á tölum um menntun og atvinnuþátttöku innflytjenda. Hlutfall innflytjenda með háskólapróf er talið vera 40% eða hærra en á sama tíma er talið að um 45% erlendra kvenna sinni störfum þar sem menntun þeirra nýtist þeim ekki að fullu.

Málefni innflytjenda

Fundurinn leggur áherslu á mikilvægi heildstefnumótunar í málefnum innflytjenda og áréttar að nýsamþykkt útlendingafrumvarp hvorki breytir né má tefja þá vinnu. Finna þarf leiðir fyrir þau sem hingað flytja til að taka fullan þátt í samfélaginu og tækifæri til að blómstra á eigin forsendum. Efla þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga enn frekar vegna þjónustu við innflytjendur og fólk á flótta eins og með samræmdri móttöku flóttafólks. Nauðsynlegt er að sveitarfélög um allt land taki þátt í samræmdri móttöku fólks á flótta og fái þannig nauðsynlegan stuðning. Þá fagnar fundurinn tillögum um lagabreytingar sem auka tækifæri fólks sem býr utan EES-svæðisins til að flytjast til Íslands með því að rýmka reglur um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku fyrir þann hóp. Fundurinn lýsir ánægju með að þjónusta við fólk með alþjóðlega vernd heyri nú undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og telur ýmis jákvæð skref hafa verið stigin, til dæmis með einni móttökumiðstöð. Ljóst er að halda þarf áfram að endurskoða kerfið og tryggja að það standi betur undir auknum fjölda fólks á flótta.

Samskipti ríkis og sveitarfélaga

Miklu skiptir að koma fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga í farsælan farveg og þörf er á heildarendurskoðun á fyrirkomulagi þeirra, þar með talið Jöfnunarsjóði og tekjustofnum. Ljúka þarf fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fundurinn fagnar fyrirætlunum um sjálfstæða Mannréttindastofnun.

Fjölmiðlar og upplýsingar

Þá ítrekar fundurinn mikilvægi öflugs almannaútvarps á tímum aukinnar skautunar í opinberri umræðu. Ríkisútvarpið hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að tryggja upplýsta umræðu. Hins vegar er ástæða til að lýsa yfir áhyggjum af bágri rekstrarstöðu einkarekinna fjölmiðla og mikilvægt að sátt skapist um framtíðarstuðning hins opinbera við þá. Fundurinn ítrekar mikilvægi þess að opinberir aðilar hafi gagnsæi að leiðarljósi í vinnubrögðum sínum og telur að það eigi ekki eingöngu við um framkvæmdavaldið heldur einnig löggjafarsamkunduna. Mörg góð skref voru stigin í þá átt á síðasta kjörtímabili en deilur um birtingu gagna grafa undan trausti og trúverðugleika þingsins.

Veiðigjöld

Fundurinn telur stefnumótun matvælaráðherra undir formerkjum Auðlindarinnar okkar vera stærstu skref í átt að aukinni sátt um sjávarútveg í langan tíma. Fundurinn hvetur matvælaráðherra til að halda áfram að byggja stefnumótun á grundvelli sjónarmiða sjálfbærrar þróunar, vísinda og þekkingar. Þannig sé best komið til móts við þá djúpstæðu tilfinningu um óréttlæti sem ríkt hefur um fiskveiðistjórnun Íslendinga um áratugaskeið. Fundurinn ítrekar að svigrúm er til að hækka veiðigjöld á stærstu útgerðirnar miðað við þær ríkulegu arðgreiðslur sem þær greiða sér vegna nýtingar sameiginlegrar auðlindar.

Umbætur í fiskeldi

Fundurinn brýnir stjórnvöld til að vinna gagngerar og heildstæðar umbætur í fiskeldismálum og styrkja rannsóknir og eftirlit í greininni. Fundurinn lýsir ánægju með ákvörðun matvælaráðherra að óska eftir skýrslum Ríkisendurskoðunar og ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group og nýta þær til þess að kafa ofan í stöðu málaflokksins og búa til grundvöll til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur og móta stefnu og byggja þannig upp atvinnugrein sem rekin er á grundvelli sjálfbærni – í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag. Hluti af þeirri sátt hlýtur að vera að aukinn hluti af arði fiskeldisfyrirtækjanna renni til almennings í formi auðlindagjalda.

Öflug matvælaframleiðsla

Fundurinn fagnar áherslum matvælaráðherra um eflingu fjölbreyttrar matvælaframleiðslu, til dæmis þegar kemur að kornrækt, en aðgerðaráætlun um aukna kornrækt hefur verið kynnt. Draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði og stuðningskerfi þurfa að styðja við árangur á því sviði. Fundurinn áréttar mikilvægi markvissra aðgerða í endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt, sem eru forsenda þess að við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Öflug matvælaframleiðsla á Íslandi er grundvallaratriði til að tryggja matvælaöryggi og fæðuöryggi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search