PO
EN

#MeT­oo og stjórn­mál­in

Deildu 

Sá tími er liðinn að hægt sé að horfa í kring­um fing­ur sér varðandi mál sem tengja má við #MeT­oo bylt­ing­una og við þurf­um að geta tekið á slík­um óþægi­leg­um mál­um. Þetta sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra á fundinum  „#MeT­oo og stjórnmálin“ en þetta var í annað sinn sem all­ir flokk­ar á Alþingi taka hönd­um sam­an og ræða MeT­oo á morg­un­verðar­fundi.

For­sæt­is­ráðherra sagði að það ein­fald­asta sem stjórn­mála­fólk gæti gert væri að fara með mál tengd #MeT­oo í flokk­spóli­tísk­an far­veg og sagði hún að það hefði gerst í lönd­un­um í kring­um okk­ur.

Það mætti ekki ger­ast en fólk væri mætt á fund dags­ins til að taka hönd­um sam­an og til að ná sam­eig­in­legu mark­miði.

„Þetta á ekki að snú­ast um að kon­ur segi ekki frá því þær séu að vinna gegn eig­in stjórn­mála­flokki með því,“ sagði Katrín.

Hún sagði að all­ir flokk­ar þyrftu að skoða sín mál og ef­laust færu þeir mis­mun­andi leiðir. „Ég held að ekk­ert okk­ar hér inni viti ná­kvæm­lega hver besta leiðin er,“ sagði Katrín og ít­rekaði að það þyrfti að taka á óþægi­leg­um mál­um.

Stjórn­mála­fólk þyrfti að vera meðvitað um sér­stöðu stjórn­mál­anna, þar sem sam­keppn­in er gríðarleg. Það þýði að færri kom­ast að en vilja. „Sam­keppni get­ur leitt vil valda­bar­áttu,“ sagði Katrín og bætti við að það gæti aukið lík­ur á of­beldi og einelti.

„Við get­um verið ósam­mála og rök­rætt mál­in án þess að grípa til óviðeig­andi um­mæla,“ sagði Katrín.

„Við þurf­um að bregðast við #Met­oo-frá­sögn­um úr þess­ari jafn­rétt­ispara­dís,“ sagði Katrín. Að henn­ar mati höfðu sög­ur kvenna af er­lend­um upp­runa mest áhrif, ekki bara vegna þess að sög­urn­ar voru slá­andi held­ur einnig vegna þess að oft var um að ræða ein­angraðar kon­ur í ókunn­ugu landi.

„Við vit­um þó að ekki hafa all­ar sög­ur hljómað, sagði Katrín og nefndi fatlaðar kon­ur í því sam­hengi.

Á fundinum kynnti Mart­in Chungong, fram­kvæmda­stjóri Alþjóðaþing­manna­sam­bands­ins IPU, niður­stöður nýrr­ar rann­sókn­ar, þar sem kynjam­is­mun­un og kyn­bundið of­beldi og áreitni gegn kon­um í þjóðþing­um í Evr­ópu var kannað.

Fram kom í máli Chungong að 85% evr­ópskra þing­mann hafi orðið fyr­ir kyn­bundnu of­beldi í starfi. Hann sagði niður­stöðurn­ar slá­andi og að þær valdi áhyggj­um.

46,9% þing­kvenna sem tóku þátt í rann­sókn­inni höfðu fengið hót­an­ir um líf­lát eða nauðgan­ir, 58% hafa orðið fyr­ir barðinu á rógs­her­ferðum á sam­fé­lags­miðlum vegna kyn­ferðis síns og 67,9% hafa heyrt sögð um sig kyn­ferðis­lega niðrandi um­mæli.

Hann sagði að reynt væri af mikl­um krafti að auka þátt­töku kvenna í stjórn­mála­lífi en svona of­beldi og áreitni fæli kon­ur frá stjórn­málaþátt­töku.

Chungong sagði að það þyrfti að taka hart á brot­un­um en kyn­ferðis­legt of­beldi af hvaða tagi sem það er eigi ekki að líðast. Þing­in þurfi að tryggja að fórn­ar­lömb of­beld­is geti leitað sér aðstoðar og að þar sé fyllsta trúnaðar gætt. Auk þess þurfi menn­ing­in í stjórn­mál­um að breyt­ast.

„Marg­ir vita ekki að það sem þeir gera eða segja er rangt. Það þarf að virða ná­ung­ann og fræða fólk,“ sagði Chungong, sem vill að þeim sem brjóti af sér verði refsað.Hér er linkur á upptöku af fundinum: https://www.youtube.com/watch?v=WfjdeEUvkiQ  

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search