Search
Close this search box.

Stjórnvöld efla stjórnsýslu loftslagsmála

Deildu 

Loftslagsváin er stærsta áskorun samtímans og það hvernig heimsbyggðin tekst á við loftslagsmálin mun skipta sköpum fyrir komandi kynslóðir. Loftslagsmálin snerta líka flest svið samfélagsins. Þau eru þverlæg í stjórnkerfinu og úrlausnarefnin heyra undir flest ráðuneyti og fjölda stofnana, svo ekki sé minnst á hlutverk sveitarstjórnarstigsins, atvinnulífsins og almennings. Loftslagsmálin eru því ekki eingöngu viðfangsefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Loftslagsmál eru ekki síður efnahagsmál, jafnréttismál, samgöngumál eða menntamál. Vegna þess hversu víðfeðmt viðfangsefni loftslagsmálin eru, er mikilvægt að stjórnsýsla loftslagsmála sé skilvirk og samþætt.

Ráðherranefnd og samstarfsnefnd ráðuneytisstjóra um loftslagsmál

Ríkisstjórnin ákvað að koma á fót sérstakri ráðherranefnd til að fjalla um loftslagsmál og kom hún nýlega saman í fyrsta sinn sem markaði tímamót í eflingu stjórnsýslu loftslagsmála. Nefndin er skipuð átta ráðherrum og er henni ætlað að styrkja yfirsýn og samþættingu loftslagsmála og vera vettvangur fyrir pólitíska stefnumótun og umræður um aðgerðir á sviði loftslagsmála. Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt í síðustu viku að komið yrði á fót samstarfshópi ráðuneytisstjóra þeirra ráðuneyta sem fara með verkefni á sviði loftslagsmála. Markmiðið er að auka samráð og samþættingu innan Stjórnarráðsins, tryggja sem besta eftirfylgni áætlana stjórnvalda í loftslagsmálum þvert á ráðuneyti og samhæfa vinnu stofnana hins opinbera á sviði loftslagsmála.

Loftslagsráð og Loftslagssjóður stofnuð

Árið 2018 var Loftslagsráð sett á fót, sem var gríðarlega mikilvægt skref til að efla aðhald og ráðgjöf til stjórnvalda í loftslagsmálum en Loftslagsráð er sjálfstætt í störfum sínum. Ári síðar var Loftslagssjóður stofnaður og hefur hann nú þegar styrkt tugi verkefna sem snúa að fræðslu og nýsköpun í loftslagsmálum.

Úttekt á stjórnsýslu loftslagsmála

Eitt af þeim verkefnum sem ég fól Loftslagsráði þegar það var sett á fót árið 2018 var að vinna úttekt á stjórnsýslu loftslagsmála hérlendis. Í sumar kom svo út skýrsla Loftslagsráðs sem unnin var af Capacent, þar sem lagðar voru fram ýmsar góðar ábendingar og tillögur að úrbótum. Unnið hefur verið að fjölmörgum verkefnum allt frá því að ég tók við sem ráðherra umhverfismála, í því skyni að efla starf stjórnvalda á sviði loftslagsmála.

Skylt að gera loftslagsstefnu, vísindaskýrslur og aðlögunaráætlun

Með breytingum á loftslagslögum árið 2019 var öllum ríkisstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins gert skylt að setja sér loftslagsstefnu og útbúa áætlun um samdrátt í losun. Það er gríðarlega mikilvægt framfaraskref. Á sama tíma var einnig fært í lög að gerðar skyldu vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi með reglulegu millibili. Þá var sú skylda lögð á herðar stjórnvöldum að vinna að áætlun um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum, en á sama tíma og við róum að því öllum árum að hægja á og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga þá þarf líka að undirbúa samfélagið undir þær breytingar sem óhjákvæmilega munu verða á næstu árum og áratugum. Vinna við gerð stefnu um aðlögun íslensks samfélags hefst á þessu ári í starfshópi undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytis. 

Skipulagsbreytingar og aukinn mannafli

Gerðar hafa verið breytingar á skipulagi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í því skyni að efla starf ráðuneytisins á sviði loftslags- og alþjóðamála. Sérstök skrifstofa fer með loftslagsmál og ný skrifstofa fer með alþjóðamál og samþættingu umhverfismála, ekki síst loftslagsmála við aðra málaflokka eins og hringrásarhagkerfi, landgræðslu, skógrækt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Starfsfólki sem vinnur að loftslagsmálum í ráðuneytinu hefur því verið fjölgað til að takast á við aukin verkefni og aukna ábyrgð. Stofnanir ráðuneytisins hafa líka fengið aukið fjármagn til þess að sinna verkefnum sínum á sviði loftslagsmála í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þannig hafa Umhverfisstofnun, Landgræðslan, Skógræktin, Veðurstofa Íslands og Hafrannsóknastofnunin verið styrktar til þess að takast á við rannsóknir, losunarbókhald og beinar aðgerðir í þágu loftslagsmála.   

Aldrei meiri metnaður – aldrei meira fjármagn

Til þess að ná árangri í loftslagsmálum er lykilatriði að aðgerðum og áætlunum fylgi fjármagn, en sú hefur ekki alltaf verið raunin. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar lagt á þetta áherslu og staðreyndin er sú að aldrei hefur meira fjármagn runnið til umhverfismála en í tíð þessarar ríkisstjórnar. Fjárheimildir hafa aukist um 47% frá árinu 2017 til 2021. Ef við horfum til loftslagsmálanna einna þá munu fjármunir til þeirra hafa aukist um samtals 13,9 milljarða króna frá 2017 til 2025, að meðtalinni þeirri 3 milljarða króna aukningu sem fram er sett í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú liggur fyrir Alþingi. Þá er ekki taldar með aðgerðir sem heyra undir aðra málaflokka en umhverfisráðuneytið, eins og samgöngumál eða fjárhagslega hvata sem eru á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sýnt meiri metnað í loftslagsmálum en nokkur önnur ríkisstjórn hingað til.  Stjórnarsáttmáli setur skýrar áherslur um loftslagsmál og markið sett á kolefnishlutleysi Íslands fyrir árið 2040. Á fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar var fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum gefin út og nú í sumar var hún uppfærð með fjölda nýrra aðgerða. Samanlagt eiga þær að skila okkur meiri samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en núverandi alþjóðlegar skuldbindingar segja til um og við erum auðvitað hvergi nærri hætt.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search