PO
EN

Stjórnvöld starfa með Samtökunum 78 og styðja við börn

Deildu 

Forsætisráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið hafa undirritað samstarfssamninga við Samtökin ’78. Markmið samninganna sem eru samtals að fjárhæð 9 milljónir króna er að veita fræðslu og stuðning til hinsegin barna og ungmenna og vinna gegn fordómum og haturstjáningu.

Samstarfið nær til:

  • starfa hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna ’78 og Tjarnarinnar,
  • fræðslu og þróunarstarfs í grunn- og framhaldsskólum á landsbyggðinni og
  • útgáfu fræðsluefnis um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi og leiðbeiningar til þeirra sem bera ábyrgð á slíku starfi.

Heildarstuðningur stjórnvalda við Samtökin ´78 hefur sjöfaldast frá árinu 2017 og nemur á yfirstandandi ári tæpum 50 milljónum króna.

Þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025, sú fyrsta sem snýr eingöngu að málefnum hinsegin fólks, samanstendur af 21 verkefni sem skilgreinir stefnu stjórnvalda í málaflokknum og lýsir tilteknum verkefnum sem miða að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks í samfélaginu. Ábyrgð á verkefnunum er á hendi tíu ráðuneyta. 

Til að tryggja eftirfylgni hefur nú verið birt mælaborð þar sem staða aðgerða er sýnd á myndrænan hátt. Gert er ráð fyrir að mælaborðið verði uppfært tvisvar á ári og verður næsta uppfærsla í apríl 2023. Mörg verkefnanna eru þegar komin af stað en önnur enn í undirbúningi en aðgerðaáætlunin gildir til ársins 2025.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search