EN
PO
Search
Close this search box.

Stöðvum plast­mengun hafsins með al­þjóð­legum samningi

Deildu 

Á hverju ári enda á bilinu 4 – 12 milljónir tonna af plasti í heimshöfunum. Ef við umreiknum það yfir í hálfslítra gosflöskur þá jafngildir það því að um einn milljarður þeirra lendi í sjónum á hverjum degi. Plastmengun í höfum er alvarleg ógn við lífríki jarðar og ef þjóðir heims ætla að takast á við hana er nauðsynlegt að gera það með samhentu átaki.

Hafið er nátengt sjálfsmynd okkar Norðurlandabúa. Það tengir okkur saman og fjöldi fólks á norðurslóðum byggir afkomu sína á auðlindum hafsins. En þessi tenging tekur líka á sig sorglegri myndir. Plastmengun innan landhelgi einnar þjóðar er plast í hafi okkar allra. Rétt eins og Golfstraumurinn flytur heitan sjó hingað norðureftir, þá eru heimshöfin orðin að færibandi fyrir sjampóbrúsa, grímur, plastpoka og slitin veiðarfæri. Plastinu skolar upp á strendur allt frá Lofoten í norðri til Eldlandsins í suðri eða þá að það safnast í fljótandi ruslahauga á Kyrrahafi eða Atlantshafi. Sumt af því endar í meltingarfærum hvala, sela eða sjávarskjaldbaka eða flýtur á yfirborðinu og freistar sjófugla, sem taka plastið í misgripum fyrir fæðu. Með tímanum leysist plastið upp í örplast, sem kann að lenda í þörmum fiskanna sem við síðan drögum úr sjó.

Þetta er ein af stóru áskorunum 21. aldarinnar á sviði umhverfismála og hún krefst alþjóðlegrar lausnar.

Alþjóðlegur samningur nauðsynlegur

Á Norðurlöndunum höfum við því ákveðið að hafa forystu um að gerður verði alþjóðlegur samningur til þess að sporna gegn plastmengun í hafi. Verkefnið er ekki á færi neinnar einnar þjóðar. Við þurfum öll að taka þátt.

Norðurlöndin hafa um árabil unnið að því að koma plastmengun í hafi á dagskrá alþjóðasamfélagsins. Á síðasta ári samþykkti Norræna ráðherranefndin yfirlýsingu um plastmengun í hafi þar sem skýrt er kveðið á um að lausn þessa vanda krefjist alþjóðlegs samnings.

Það er nefnilega enginn slíkur samningur til í dag. Við eigum alþjóðlega samninga um loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og efnavörur, en engar alþjóðlegar skuldbindingar eða reglur ná yfir allan lífsferil plasts. Okkur skortir ramma til þess að vinna gegn plastmengun og því þarf að bæta úr.

Árið 2019 sammæltust þjóðir heims um að taka upp strangar reglur um inn- og útflutning á plastúrgangi. Reglurnar ná hins vegar bara yfir lítinn hluta lífsferils plasts. Skýrslur sem unnar hafa verið fyrir Sameinuðu þjóðirnar hafa sýnt að þrátt fyrir að ráðist hafi verið í ýmis samstarfsverkefni, þá vantar enn mikið upp á. Eins skortir mörg þróunarríki, sem í dag eru illa útsett fyrir plastmengun, verkfæri til þess að takast á við vandann. Til að mynda að geta takmarkað hvaða gerðir af plastvörum eru settar á markað, eða að geta gert kröfur til plastframleiðenda um sjálfbærari framleiðslu.

Unnið að víðtækri samstöðu þjóða

Í lok október kynntum við umhverfisráðherrar Norðurlandanna skýrslu um þá þætti sem við teljum nauðsynlegt að setja fram í alþjóðlegum samningi gegn plastmengun í hafi. Yfir 900 manns frá öllum heimshornum voru viðstödd rafræna kynningu skýrslunnar, þar á meðal ráðamenn allt frá Perú til Fiji-eyja.

Það er mikilvægt að sjá slíka samstöðu. Eigi samningurinn að virka sem skyldi þurfa allar þjóðir heims að taka þátt. Skýrslan verður innlegg í umræður um plastúrgang á umhverfisþingum Sameinuðu þjóðanna árin 2021 og 2022. Svo er ekki síður mikilvægt að skýrslan mun leggja grunninn að samningaviðræðum um alþjóðlegan samning, sem vænst er að hefjist á árinu 2022.

Skoða verður allan lífsferil plasts

Það leikur enginn vafi á að plast er á margan hátt einstakur og ómissandi efniviður. Það dregur úr matarsóun og er notað í ýmiss konar vörur, allt frá sólarsellum til augnlinsa.

Gallinn er hins vegar sá að í dag er allt of mikið af plastvörum hannaðar á þann hátt að það er allt að því ómögulegt að endurvinna þær. Jafnframt er líftími plasts langur en talið er að það geti tekið plastflösku mörg hundruð ár að brotna niður í hafinu. Auk þess eru óumhverfisvæn og hormónatruflandi efni víða notuð við framleiðslu á plastvörum. Vörum sem geta ekki bara endað í hafinu, heldur líka í höndum barna, ungmenna og fullorðinna, jafnvel í fátækustu ríkjum heims.

Rétt eins og með aðra umhverfisvá er nauðsynlegt nú að ráðast að rót vandans. Það er ekki nóg að hreinsa bara til, það þarf líka að skoða uppsprettur mengunarinnar. Sjálfbærari plastframleiðsla, notkun og losun á plastúrgangi þarf að vera markmiðið á heimsvísu, því plastmengun verður ekki til í heimshöfunum heldur á færiböndum verksmiðja.

Plastmengun í höfum er alvarleg ógn við lífríki jarðar og ef þjóðir heims ætla að takast á við hana er nauðsynlegt að gera það með samhentu átaki.

Alþjóðleg fyrirtæki kalla eftir samningi

Það er ánægjulegt að sjá að rúmlega 30 framleiðendur, þar á meðal stór alþjóðleg fyrirtæki, hafa skrifað undir ákall um nýjan alþjóðlegan samning gegn plastmengun í hafi. Margir framleiðendur kalla eftir sameiginlegum stöðlum og grænni kröfum. Með því móti geti þeir skipt yfir í sjálfbærari framleiðslu án þess að óttast að verða undir í samkeppni vegna ólíkra skilmála í mismunandi löndum og mörkuðum.

Norðurlöndin í forystuhlutverki

Nýjum alþjóðlegum samningi er ætlað að skapa grundvöll til að stöðva þann gífurlega straum af plasti sem nú á greiða leið beint út í sjó. Hann á að skapa aðstæður svo fleiri lönd sjái sér fært að gera metnaðarfullar áætlanir og ráðstafanir. Hann á líka að leiða heiminn á braut hringrásarhagkerfis, þar sem sælgætisbréf og gosflöskur hringsóla ekki í heimshöfunum, heldur verða hluti af sjálfbærri hringrás frá framleiðslu til endurnýtingar.

Þetta verður ekki auðvelt verk, en Norðurlöndin eru reiðubúin að taka forystu í þessu máli.

Eftir norrænu umhverfisráðherrana Leu Wermelin (Danmörk), Sveinung Rotevatn (Noregur), Isabellu Lövin (Svíþjóð), Kristu Mikkonen (Finnland), Guðmund Inga Guðbrandsson (Ísland), Jess Svane (Grænland) og Helga Abrahamsen (Færeyjum).

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search