Síðustu mánuði hefur verið hart sótt að kennurum í landinu. Síðast í gær var haldið áfram að höggva í sama knérunn á forsíðu þessa blaðs; því haldið fram að veikindahlutfall kennara væri hátt og að kennurum hefði fjölgað hraðar en nemendum. Undirliggjandi í þessum málflutningi er að vandinn séu kennarar. Eðlilegt er að mörg spyrji sig: Hvert er planið með þessum málflutningi? Hvaða markmiðum er verið að reyna að ná fram með því að ráðast á kennarastéttina? Sporin hræða þegar almannaþjónusta er gagnrýnd frá hægri – það er undanfari þess að markaðsöflunum sé gefinn laus taumur. Menntakerfið er einfaldlega of mikilvægt og má ekki verða þeirri kredduhugsun að bráð. Mín sýn, og okkar í VG, er að við þurfum að færa kennurum verkfærin til þess að ná árangri, frekar en að útmála þá sem sökudólga.
Menntakerfið er í almannaþágu
Í allri mælikvarðasúpunni sem dynur á almenningi er mikilvægt að muna að fjöregg okkar Íslendinga er samheldið samfélag. Það færir okkur samstöðuna á erfiðum tímum, í samheldninni með náunganum og í mennskunni. Menntakerfið, frá leikskóla upp í háskóla, er miðlægt í þessu hlutverki og okkur má ekki mistakast. Þar verða kennarar alltaf í lykilhlutverki.
Breytt samfélag með aukinni fjölbreytni kallar á aukinn stuðning við kennara, ekki árásir, til þess að hægt sé að mæta börnum á þeim stað sem þau eru. Það er flókið verkefni að kenna nemendahópi þar sem fjöldi nemenda hefur annað móðurmál en íslensku, hópum þar sem fjöldi barna með ýmsar greiningar hefur aukist mikið síðustu áratugi. Samfélagsbreytingar af þessum toga færa skólum verkefni sem áður voru ekki til staðar. Því til viðbótar koma samfélagsmiðlar og gliðnun samfélaga. Fylgifiskur stéttskiptingar er harðnandi heimur meðal barna, þar sem ofbeldi og vanlíðan eykst. Þess vegna þurfum við að styðja bæði leik- og grunnskólana betur. Undirstöðuþjónusta í okkar samfélagi er veitt af sveitarfélögum og þau verða að hafa tekjustofna til þess að standa undir þeirri þjónustu.
Í því verkefni má okkur ekki mistakast. Við viljum ekki feta í fótspor nágrannalanda okkar þar sem innviðir hafa verið einkavæddir í þágu fjármagns en ekki samfélagsins. Það sem við höfum verið svo stolt af, samfélag samstöðu, verður til í almennu skólakerfi. Þessu jöfnunarhlutverki verður að gefa gaum því það vegur þungt. Samfélag þar sem börn eru ekki dregin í dilka eftir uppruna eða efnahag er samfélag sem við í VG viljum sjá. Þess vegna börðumst við fyrir því að skólamáltíðir í grunnskólum yrðu gjaldfrjálsar. Skólakerfið er sá staður þar sem samfélagi okkar verður gefin einkunn. Stöndum með kennurum og almannaþjónustunni.
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG