Search
Close this search box.

Stöndum saman

Deildu 

Nú er tæp­ur mánuður síðan fyrsta staðfesta til­vikið af COVID19-sjúk­dómn­um greind­ist hér á landi, en það var 28. fe­brú­ar síðastliðinn. Á þess­um tíma hef­ur þjóðin öll þurft að bregðast við og aðlag­ast breytt­um veru­leika. Marg­ir finna fyr­ir streitu­ein­kenn­um og hafa áhyggj­ur, sem er eðli­legt á þess­um sér­stöku tím­um. En það er líka magnað að finna sam­taka­mátt­inn í sam­fé­lag­inu. Það er greini­legt að al­menn­ing­ur fylg­ist mjög vel með upp­lýs­ing­um og fer eft­ir fyr­ir­mæl­um stjórn­valda, og það er þakk­arvert. Það skipt­ir líka miklu máli að muna hversu lán­söm við erum að eiga frá­bært fram­línu­fólk hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, Embætti land­lækn­is og sótt­varna­lækni og á fleiri stöðum í heil­brigðis­kerf­inu sem held­ur svo vel og ör­ugg­lega utan um þetta stóra verk­efni, og á hrós og þakk­ir skilið. Starfs­fólk í heil­brigðis­kerf­inu öllu á líka stórt hrós skilið, og kenn­ar­ar á öll­um skóla­stig­um fyr­ir að laga nám og kennslu að óvenju­leg­um tím­um.

Sam­komu­bann og tak­mörk­un á skóla­haldi tók gildi fyr­ir tæp­um tveim­ur vik­um, þann 13. mars, og mark­mið þeirra aðgerða er að hægja á út­breiðslu COVID-19-sjúk­dóms­ins svo að heil­brigðisþjón­ust­an muni eiga auðveld­ara með að tak­ast á við álag í tengsl­um við sjúk­dóm­inn. Fram að því höfðu viðbrögð á Íslandi beinst að fljótri grein­ingu, ein­beittri rakn­ingu, ein­angr­un sýktra og sótt­kví þeirra sem grunaðir eru um smit. Má telja víst að þess­ar ráðstaf­an­ir hafi nú þegar komið í veg fyr­ir fjöl­mörg inn­lend smit.

Í byrj­un þess­ar­ar viku tók ég svo ákvörðun í sam­ræmi við til­lögu sótt­varna­lækn­is um að tak­marka sam­kom­ur enn frek­ar en áður vegna út­breiðslu COVID-19 í sam­fé­lag­inu, en til­laga sótt­varna­lækn­is var lögð fram með hliðsjón af þróun mála hér á landi, til­mæl­um Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar og í ljósi aðgerða annarra ríkja. Viðburðir þar sem fólk kem­ur sam­an eru nú tak­markaðir við 20 manns í stað 100 áður og tryggja þarf við öll manna­mót að nánd milli manna verði yfir tveim­ur metr­um. Ýmiss kon­ar starf­semi þar sem ná­lægð er mik­il er nú bönnuð og einnig er búið að loka lík­ams­rækt­ar­stöðvum og sund­laug­um. Þess­ar aðgerðir hafa mik­il áhrif á líf okk­ar allra, auk starf­semi margra fyr­ir­tækja og stofn­ana, og það er áskor­un að laga okk­ur að þess­um breyt­ing­un­um en það er til mik­ils að vinna.

Stjórn­völd vinna að því hörðum hönd­um að bregðast við og lág­marka skaðann sem óhjá­kvæmi­lega verður af inn­rás veirunn­ar í sam­fé­lagið. En þetta er líka sam­fé­lags­verk­efni, því við erum öll al­manna­varn­ir. Við þurf­um öll að leggja okk­ar lóð á vog­ar­skál­arn­ar og erum að því. Ég finn fyr­ir því að við erum öll að gera okk­ar besta í aðstæðum sem ekk­ert okk­ar hef­ur áður reynt. Stönd­um sam­an í því áfram. Samstaðan mun koma okk­ur í gegn­um þetta. Gangi okk­ur öll­um vel.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search