Search
Close this search box.

Stórátak í landgræðslu í Hítardal

Deildu 

Ein megináhersla mín sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur verið á loftslagsmál og er aukin kolefnisbinding og stöðvun á tapi kolefnis úr jarðvegi hluti af þeirri vegferð. Að sama skapi hef ég lagt áherslu á endurheimt gróðurs og jarðvegs sem tapast hefur á undanförnum öldum. Þessi markmið fara mjög vel saman.

Langtímaverkefni í endurheimt vistkerfa

Í lok maí hófst langtímaverkefni í landgræðslu í Hítardal á Mýrum undir stjórn Landgræðslunnar. Á næstu þremur árum verður unnið á um 300 hektara svæði sem er misilla farið af gróður- og jarðvegseyðingu, en talið er að svæðið hafi áður fyrr verið þakið birkikjarri eins og leifar af birkiskógi á svæðinu bera vitni um. Í vor og sumar verður sáð í um 80 hektara lands, dreift úr gömlu rúlluheyi við rofabörðin í Almenningshlíðinni og hafist handa við að laga girðingar. Einnig er fyrirhugað að gera tilraunir með notkun búfjáráburðar á svæðinu. Áhugavert væri líka að nýta moltu til uppgræðslu á þessu svæði og með því móti breyta lífrænum úrgangi í áburð og verðmæti. Þannig yrði loftslagsávinningur enn meiri því urðun lífræns úrgangs er helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda þegar kemur að losun vegna meðhöndlunar úrgangs. Það eru því mörg spennandi tækifæri á svæðinu.

Náttúrunni hjálpað af stað

Með aðgerðunum er ætlunin að stöðva rof jarðvegs, gera yfirborðið stöðugra og efla gróður á svæðinu. Með stöðugra yfirborði eiga birkifræ auðveldara með að spíra og birkið sem enn er að finna á svæðinu getur numið land og dreift sér með sjálfsáningu. Í gömlu gróðurtorfunum er einnig að finna ýmsar aðrar plöntur sem geta dreift sér og auðgað gróður dalsins. Þannig er náttúrunni hjálpað til að gróa sjálfri.

Þátttaka bænda

Heimamenn hafa lengi horft til þess að gerð yrði gangskör að endurheimt landgæða á svæðinu neðan afréttargirðingar í Hítardal. Landeigendur á svæðinu eru þátttakendur í verkefnum Landgræðslunnar, ýmist verkefninu Bændur græða landið eða hafa sótt fjármagn til landgræðslu í Landbótasjóð. Landgræðsluverkefnið í Hítardal er því mjög gott dæmi um virka þátttöku heimamanna í að búa í haginn fyrir framtíðina.  

Aðgerðir með fjölþætt markmið

Mikilvægt er að horfa til alþjóðlegra markmiða með aðgerðum okkar í umhverfismálum. Þegar kemur að kolefnisbindingu hef ég lagt áherslu á að horfa til þess að við vinnum í anda stóru alþjóðlegu umhverfisverndarsamninga Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að og í anda heimsmarkmiðanna. Landgræðsluverkefnið í Hítardal er gott dæmi um verkefni þar sem unnið er að markmiðum þriggja slíkra samninga: Í fyrsta lagi er uppblástur og landeyðing stöðvuð, í öðru lagi eru vistkerfi á svæðinu endurheimt og líffræðileg fjölbreytni efld og í þriðja lagi er kolefni bundið úr andrúmslofti sem hjálpar til við að draga úr loftslagsbreytingum.

Hugsað í áratugum frekar en árum

Í fyrrasumar kynntum við Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áætlun til fjögurra ára um aukna landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Með aðgerðunum má búast við að loftslagsávinningur í formi bindingar koltvísýrings úr andrúmslofti og samdráttar í losun frá landi muni verða um 50% meiri árið 2030 og 80% meiri árið 2040 en annars hefði orðið. Þetta er mikilvægur liður í að vinna að kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 eins og stefnt er að samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Víða um land eru núna að hefjast ný verkefni á grundvelli þessarar stefnumótunar og aukins fjármagns, hvort sem litið er til landgræðslu, skógræktar eða endurheimtar votlendis. Við munum sjá árangur þessa á næstu árum og áratugum. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Umhverfis- og auðlindaráðherra

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search