Search
Close this search box.

Stóraukin áhersla á náttúruvernd

Deildu 

Umhverfis- og auðlindaráðherra skrifar um náttúruvernd

Náttúruvernd er eitt af mínum hjartans málum sem ég hef brunnið fyrir í mörg ár. Náttúruverndin mun skipta miklu fyrir framtíðina, bæði þegar litið er til náttúrunnar sjálfrar og til efnahagslegra tækifæra sem fylgja friðlýsingu svæða.

Einstakur þjóðgarður á miðhálendinu

Eitt af náttúruverndarverkefnunum er miðhálendisþjóðgarður – með honum rætist draumur okkar margra. Undirbúningur fyrir stofnun þjóðgarðsins er í fullum gangi hjá þverpólitískri nefnd sem fulltrúar allra flokka á Alþingi eiga sæti í og vinnunni miðar vel.

Á miðhálendi Íslands er að finna miklar andstæður – svarta sanda, fágætar gróðurvinjar og fjölda sérstæðra jarðmyndanna sem finnast hvergi í heiminum á einu og sama svæðinu. Landslag er þar afar fjölbreytt og öræfakyrrðin lætur engan ósnortinn. Vegna þess hve svæðið er einstakt hafa margir bent á að miðhálendið eigi að verða þjóðgarður allra landsmanna.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni en var fyrst lyft formlega árið 2015 undir forystu náttúruverndarsamtaka og í lið með þeim skipuðu sér mörg útvistarsamtök, sem og Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu. Síðustu tvær ríkisstjórnir unnu að viðamikilli skýrslu um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Þau tímamót urðu síðan að stofnun þjóðgarðsins var skrifuð inn í sáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Miðhálendisþjóðgarður mun marka straumhvörf í náttúruvernd á Íslandi, vekja verðskuldaða athygli út fyrir landsteinana og skapa fjölmörg tækifæri fyrir byggðirnar í jaðri hans. Umræddur þjóðgarður verður sá stærsti í Evrópu – náttúru- og útivistarparadís sem er einstök á heimsvísu.

Við undirbúninginn að stofnun þjóðgarðsins hef ég lagt mikla áherslu á víðtækt samráð og þverpólitíska vinnu. Áðurnefnd þingmannanefnd mun skila af sér í nóvember og á vorþingi stefni ég á að leggja fram lagafrumvarp vegna miðhálendisþjóðgarðs.  

Átak í friðlýsingum

Auk þess að koma á fót þessum einstaka þjóðgarði settu stjórnvöld í upphafi yfirstandandi kjörtímabils af stað sérstakt átak í friðlýsingum, í samræmi við áherslur í sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Að átakinu vinnur teymi sérfræðinga Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er hópnum meðal annars ætlað að vinna að verndun svæða sem Alþingi hefur þegar samþykkt að friðlýsa. Hann á líka að taka til skoðunar önnur svæði sem fyrir liggja tillögur um að friðlýsa, svo sem vegna álags af völdum ferðamanna eða vegna áhuga landeigenda eða sveitarfélaga. Friðlýsingu fjögurra svæða er nú lokið og friðlýsing 17 annarra svæða hefur verið kynnt opinberlega. Fleiri verkefni eru að auki í undirbúningi.

Friðlýsingaflokkar eru fjölmargir og fara eftir því hvað um ræðir – til dæmis getur svæði orðið að friðlandi, náttúruvætti eða þjóðgarði, svo nokkrir flokkar séu upptaldir. Einnig er hægt að friðlýsa ákveðnar fuglategundir og plöntutegundir.

Einn friðlýsingaflokkurinn er sérstök friðlýsing svæða gegn orkuvinnslu. Slík friðlýsing tekur einungis til orkuvinnslu og engar aðrar reglur eru settar, t.d. varðandi umsjón, umferð eða veiðar. Samkvæmt lögum eiga stjórnvöld að hefja undirbúning að þess konar friðlýsingu hafi svæði verið flokkað í verndarflokk rammaáætlunar. Þrátt fyrir að rammaáætlun hafi verið samþykkt á Alþingi fyrir sex árum hafði þetta þó ekki verið gert – fyrr en nú.

Þau tímamót urðu í sumar að fyrsta friðlýsing svæðis í verndarflokki rammaáætlunar var undirrituð. Með friðlýsingunni var Jökulsá á Fjöllum vernduð gegn orkuvinnslu sem tillögur voru um með Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun.

Í núgildandi rammaáætlun eru 20 virkjanakostir í verndarflokki á 12 svæðum sem ber að friðlýsa. Þar af er friðlýsingu tveggja kosta á einu svæði lokið – sem sé Jökulsá á Fjöllum – og undirbúningi annarra kosta ýmist lokið eða þeir í vinnslu. Þetta markar vatnaskil.

Tækifæri um allt land

Yfirskrift ofangreinds átaks er ný sýn, ný nálgun. Stjórnvöld nálgast þannig náttúruverndina á nýjan hátt, með áherslu á þau tækifæri sem í henni felast.

Margvísleg verkefni hafa verið sett af stað tengt þessari áherslu – til að mynda liggur nú fyrir viðamikil úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem sýnir að friðlýst svæði hafa ótvírætt jákvæð efnahagsleg áhrif. Úttektin sýnir að fyrir hverja krónu sem hið opinbera leggur til friðlýstra svæða skila sér 23 krónur til baka í þjóðarbúið.

Einnig er nú unnið að greiningu tækifæra og áhrifa friðlýstra svæða á nærsvæði þeirra í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga og hafa Samband sveitarfélaga á Austurlandi og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga nú þegar riðið á vaðið.

Stóraukið fjármagn til náttúruverndar

Aukinni pólitískri áherslu á náttúruvernd fylgir stóraukið fjármagn. Þannig verður ríflega þremur milljörðum króna varið á næstu þremur árum til að vernda náttúruna okkar og menningarsögulegar minjar í gegnum svokallaða Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Um er að ræða stórfellt átak í uppbyggingu göngustíga, útsýnispalla, salernishúsa og annarra mikilvægra innviða til að vernda náttúruna á nær 100 stöðum vítt og breitt um landið.

Auk þess er áætlað að verja 1,3 milljörðum króna sérstaklega til landvörslu á næstu þremur árum en það er lykilatriði við að gæta náttúrunnar okkar. Aldrei hefur viðlíka fjármagni verið varið til landvörslu og uppbyggingar innviða til að verja náttúruna og nú.

Náttúran hefur aldrei haft jafnmikið vægi hjá stjórnvöldum og nú.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search