Search
Close this search box.

Störf kvenna þarf að meta að verðleikum

Deildu 

Hinn 24. októ­ber árið 1975 lögðu um 90% kvenna á Íslandi niður störf. Kon­ur gengu út til að sýna sam­fé­lag­inu, og kannski fyrst og fremst körl­um, fram á mik­il­vægi sitt á vinnu­markaði og á heim­il­um. Enda kom á dag­inn að gang­verk sam­fé­lags­ins stöðvaðist þegar kon­ur lögðu niður störf. Með þessu vildu kon­ur sýna fram á verðmæti vinnu­fram­lags síns og kröfðust þess að það yrði metið að verðleik­um og þær fengju notið sömu rétt­inda og launa­kjara og karl­ar.

Meðal skipu­leggj­enda fyrsta kvenna­frí­dags­ins voru rauðsokka­hreyf­ing­in, kven­fé­lög og stétt­ar­fé­lög. Viðburður­inn vakti heims­at­hygli – og ger­ir enn. Þegar ég ferðast er­lend­is og ræði jafn­rétt­is­mál er ég iðulega spurð um dag­inn þegar kon­ur lögðu niður störf á Íslandi. Svart­hvít­ar mynd­ir frá mannþröng­inni á Lækj­ar­torgi og Arn­ar­hóli eru fyr­ir löngu orðnar hluti af sög­unni og greypt­ar í minni þjóðar­inn­ar.

Við get­um verið stolt af þess­um hluta sög­unn­ar en því miður eru gömlu bar­áttu­mál­in – jafn­rétti á vinnu­markaði – enn á dag­skrá. Enn sjá­um við óút­skýrðan kyn­bund­inn launamun þó að hann hafi dreg­ist sam­an síðustu ár. Og enn krefj­umst við þess að störf kvenna séu met­in til jafns á við störf karla. Saga jafn­rétt­is­mála sýn­ir okk­ur að jafn­rétti ger­ist ekki af sjálfu sér. Fyr­ir því þarf að berj­ast og til að koma á jafn­rétti verður að grípa til stjórn­valdsaðgerða.

Á liðnu kjör­tíma­bili stofnaði ég tvo starfs­hópa með það fyr­ir aug­um að færa okk­ur nær launa­jafn­rétti. Ann­ars veg­ar starfs­hóp um launa­gagn­sæi því að sýnt hef­ur verið fram á að birt­ing upp­lýs­inga um kyn­bund­inn launamun á vinnu­stöðum eyk­ur jafn­rétti á vinnu­markaði. Hins veg­ar starfs­hóp um mat á virði starfa. Hóp­ur­inn lagði fram til­lög­ur um þró­un­ar­verk­efni og í fram­hald­inu var skipaður aðgerðahóp­ur um launa­jafn­rétti og jafn­rétti á vinnu­markaði.

Þó að ým­is­legt hafi áunn­ist í bar­átt­unni fyr­ir kyn­jafn­rétti erum við ekki kom­in í mark. Auk þess þarf að verja þær vörður sem þegar hafa áunn­ist á leiðinni. Við verj­um ár­ang­ur­inn með því að vera sí­fellt vak­andi fyr­ir mis­rétti, leyndu og ljósu, með því að setja jafn­rétt­is­mál í for­grunn allra ákv­arðana stjórn­valda og með því að taka ár­angri aldrei sem sjálf­sögðum hlut. Við þurf­um ekki að horfa langt út fyr­ir land­stein­ana til að sjá var­huga­verða þróun þegar kem­ur að kynja­jafn­rétti. Sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ur kvenna hef­ur meðal ann­ars verið tak­markaður með nýrri lög­gjöf um þung­un­ar­rof í Texas í Banda­ríkj­un­um. Og í heims­far­aldr­in­um hef­ur heim­il­isof­beldi auk­ist um heim all­an. Á hinn bóg­inn er ég ánægð með þann ár­ang­ur sem við höf­um náð hér á landi með nýrri lög­gjöf um þung­un­ar­rof sem styrk­ir sjálfs­ákvörðun­ar­rétt kvenna og full­fjár­magnaðri áætl­un um for­varn­ir gegn kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi og áreitni fyr­ir árin 2021-2025.

Í dag berj­umst við fyr­ir sömu rétt­ind­um og kon­urn­ar sem lögðu niður störf á þess­um degi gerðu árið 1975. Við berj­umst áfram sam­an fyr­ir kon­urn­ar sem börðust fyr­ir rétt­ind­um sín­um og okk­ar, fyr­ir okk­ur sjálf í nú­tím­an­um og fyr­ir næstu kyn­slóðir. Til ham­ingju með dag­inn!

Katrín Jakobsdóttir, for­sæt­is­ráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search