Hinn 24. október árið 1975 lögðu um 90% kvenna á Íslandi niður störf. Konur gengu út til að sýna samfélaginu, og kannski fyrst og fremst körlum, fram á mikilvægi sitt á vinnumarkaði og á heimilum. Enda kom á daginn að gangverk samfélagsins stöðvaðist þegar konur lögðu niður störf. Með þessu vildu konur sýna fram á verðmæti vinnuframlags síns og kröfðust þess að það yrði metið að verðleikum og þær fengju notið sömu réttinda og launakjara og karlar.
Meðal skipuleggjenda fyrsta kvennafrídagsins voru rauðsokkahreyfingin, kvenfélög og stéttarfélög. Viðburðurinn vakti heimsathygli – og gerir enn. Þegar ég ferðast erlendis og ræði jafnréttismál er ég iðulega spurð um daginn þegar konur lögðu niður störf á Íslandi. Svarthvítar myndir frá mannþrönginni á Lækjartorgi og Arnarhóli eru fyrir löngu orðnar hluti af sögunni og greyptar í minni þjóðarinnar.
Við getum verið stolt af þessum hluta sögunnar en því miður eru gömlu baráttumálin – jafnrétti á vinnumarkaði – enn á dagskrá. Enn sjáum við óútskýrðan kynbundinn launamun þó að hann hafi dregist saman síðustu ár. Og enn krefjumst við þess að störf kvenna séu metin til jafns á við störf karla. Saga jafnréttismála sýnir okkur að jafnrétti gerist ekki af sjálfu sér. Fyrir því þarf að berjast og til að koma á jafnrétti verður að grípa til stjórnvaldsaðgerða.
Á liðnu kjörtímabili stofnaði ég tvo starfshópa með það fyrir augum að færa okkur nær launajafnrétti. Annars vegar starfshóp um launagagnsæi því að sýnt hefur verið fram á að birting upplýsinga um kynbundinn launamun á vinnustöðum eykur jafnrétti á vinnumarkaði. Hins vegar starfshóp um mat á virði starfa. Hópurinn lagði fram tillögur um þróunarverkefni og í framhaldinu var skipaður aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði.
Þó að ýmislegt hafi áunnist í baráttunni fyrir kynjafnrétti erum við ekki komin í mark. Auk þess þarf að verja þær vörður sem þegar hafa áunnist á leiðinni. Við verjum árangurinn með því að vera sífellt vakandi fyrir misrétti, leyndu og ljósu, með því að setja jafnréttismál í forgrunn allra ákvarðana stjórnvalda og með því að taka árangri aldrei sem sjálfsögðum hlut. Við þurfum ekki að horfa langt út fyrir landsteinana til að sjá varhugaverða þróun þegar kemur að kynjajafnrétti. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna hefur meðal annars verið takmarkaður með nýrri löggjöf um þungunarrof í Texas í Bandaríkjunum. Og í heimsfaraldrinum hefur heimilisofbeldi aukist um heim allan. Á hinn bóginn er ég ánægð með þann árangur sem við höfum náð hér á landi með nýrri löggjöf um þungunarrof sem styrkir sjálfsákvörðunarrétt kvenna og fullfjármagnaðri áætlun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021-2025.
Í dag berjumst við fyrir sömu réttindum og konurnar sem lögðu niður störf á þessum degi gerðu árið 1975. Við berjumst áfram saman fyrir konurnar sem börðust fyrir réttindum sínum og okkar, fyrir okkur sjálf í nútímanum og fyrir næstu kynslóðir. Til hamingju með daginn!
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.