Í heilbrigðisumdæmi Vesturlands bjuggu árið 2020 18.750 manns og Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) sinnir almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Fjármagn til HVE hefur á kjörtímabilinu, þ.e. árunum 2017-2021, aukist um 12,5% skv. fjárlögum, án launa- og verðlagshækkana, þ.e. á föstu verðlagi. Með auknu fjármagni er mögulegt að veita enn betri þjónustu til handa íbúum umdæmisins. Einnig er unnið að stofnun liðskiptaseturs við HVE á Akranesi, sem verður bylting í þjónustu við fólk sem þarf á slíkum aðgerðum að halda.
Heilbrigðisstofnunin
HVE hefur lagt áherslu á mönnun þjónustunnar og nýliðun starfsfólks, en mönnun er stöðug áskorun á landsbyggðinni. Þá hefur mikilvægi þess að bæta tækjabúnað, vinnuaðstæður og aðbúnað starfsmanna og sjúklinga verið í forgangi.
Kjarnastarfsemi HVE skiptist í þrjá flokka eftir meginviðfangsefnum; heilsugæslusvið, sjúkrasvið og hjúkrunarsvið. Sjúkradeildir eru á sjúkrahúsum HVE á Akranesi og í Stykkishólmi og hjúkrunardeildir á Hólmavík og Hvammstanga. Á sjúkrahúsinu á Akranesi, sem er umdæmissjúkrahús Vesturlands, eruþrjár legudeildir, þ.e. lyflækningadeild, handlækningadeild og kvennadeild. Þar er rekin öflug skurð- og svæfingadeild auk slysa- og bráðamóttöku. Á Akranesi starfa ásamt öðru starfsfólki 16 sérfræðilæknar sem flestir sinna jafnframt göngudeildarþjónustu, en sú sérfræðiþjónusta styrkir þjónustu við íbúana verulega.
Heilsugæslustöðvar sem HVE rekur eru á Akranesi, Borgarnesi, Búðardal, Grundarfirði, Hólmavík, Hvammstanga, Ólafsvík og Stykkishólmi, og heilsugæslusel er á Reykhólum.
Framkvæmdir og liðskiptasetur
Unnið hefur verið að heildarendurbótum á handlækninga- og lyflækningadeild á HVE á Akranesi, en þær framkvæmdir hófust í júní á þessu ári, og endurbætur á húsnæði HVE í Stykkishólmi eru í gangi. Bygging sjúkrabílamóttöku við HVE á Akranesi er einnig í gangi.
Þá standa framkvæmdir vegna opnunar liðskiptaseturs við HVE á Akranesi yfir, en þar verður skurðstofa þar sem eingöngu verða gerðar liðskiptaaðgerðir. Gert er ráð fyrir að liðskiptasetrið taki að fullu til starfa í mars á næsta ári. Með tilkomu liðskiptasetursins er stefnt að varanlegri árlegri fjölgun liðskiptaaðgerða sem nemur um 260 aðgerðum á ári. Vegna Covid-19 hafa aðgerðir síðustu misseri verið nokkru færri en að jafnaði. Því hefur einnig verið ákveðið að ráðast í sérstakt átak til 12 mánaða til að fjölga aðgerðum enn frekar tímabundið og stytta biðlista. Í því átaki er gert ráð fyrir að gerðar verði um 300 liðskiptaaðgerðir sem koma til viðbótar þeirri fjölgun sem leiðir af opnun liðskiptasetursins á Akranesi. Gert er ráð fyrir því að ný skurðstofa verði tilbúin í upphafi árs 2022.
Geðheilbrigðisþjónusta
Árið 2017 var stöðugildi sálfræðings í heilsugæslunni 1,25, en með stofnun geðheilsuteymis fjölgaði stöðugildunum í 4. Í geðheilsuteyminu er einnig starfandi geðlæknir og tveir geðhjúkrunarfræðingar í hlutastarfi. Það skiptir miklu máli að geðheilbrigðisþjónusta á svæðinu hafi verið styrkt.
Endurnýjun tækja
Fjármagn til tækjakaupa á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur verið aukið verulega á kjörtímabilinu. Fjármagnið hækkaði um 200 milljónir árið 2018 en á kjörtímabilinu nema fjárframlög til tækjakaupa heilbrigðisstofnananna tæpum 1,3 milljarði samtals. Þessi aukning á fjármagni hefur gert það að verkum að stór áfangi hefur náðst í kaupum á nýjum tækjabúnaði hjá HVE, sérsérstaklega á sjúkrasviði þar sem uppsöfnuð þörf fyrir endurnýjun var orðin mikil og sum tæki orðin meira en 20 ára. Röntgentæki voru til dæmis keypt á myndgreiningardeild HVE á Akranesi og á heilsugæslustöð HVE í Stykkishólm. Þessi kaup minnka einnig þörf fyrir viðgerðir gamalla tækja, sem skiptir miklu fyrir rekstur HVE.
Sjúkraflutningar
Á síðasta ári fékk stofnunin fjóra nýja sjúkrabíla til umráða en þeir eru staðsettir á Akranesi, Borgarnesi, Ólafsvík og í Stykkishólmi. Von er á þremur nýjum bílum á næstunni en samtals eru 16 sjúkrabílar í rekstri innan starfssvæðisins.
Aldraðir og endurhæfing
Nú eru í gangi framkvæmdir vegna 18 rýma hjúkrunarheimilis á 2. og 3. hæð á HVE á Stykkishólmi, og endurbætur á neðri hæðum hússins. Rýmum í heilbrigðisumdæminu mun ekki fjölga vegna þeirrar framkvæmdar, en aðbúnaður batna mjög. Verklok vegna þessa eru áætluð í apríl 2022.
Í Stykkishólmi er nú rekin 5 daga sérhæfð endurhæfingardeild sem sinnir meðferð við háls- og bakverkjum en sú meðferð stendur öllum landsmönnum til boða. Fagteymi deildarinnar á gott samstarf við sérfræðilækna í Reykjavík um fjarlæknisþjónustu, sprautumeðferðir og fræðslu við skjólstæðinga deildarinnar.
Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er mjög mikilvægt, og raunar eitt af markmiðum heilbrigðisstefnu. Á kjörtímabilinu hefur heilbrigðisþjónusta á Vesturlandi verið styrkt á fjölbreytta vegu, auk þess sem HVE gegnir mikilvægu hlutverki varðandi framkvæmd liðskiptaaðgerða á landsvísu. Samvinna stofnana skilar sér þannig í enn betri heilbrigðisþjónustu fyrir öll.
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra og skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður.