Styrkir veittir til hjálpartækjakaupa fyrir börn sem eiga tvö heimili

Deildu 

Heimili barna sem búa á tveimur heimilum verða jafnsett við kaup á tilteknum hjálpartækjum sem styrkt eru af Sjúkratryggingum Íslands. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerð þessa efnis sem heimilar stofnuninni að veita styrki til beggja heimila barns vegna kaupa á sjúkrarúmum, dýnum, stuðningsbúnaði og hjálpartækjum tengdum salernisferðum. 

„Það er algengt að börn eigi tvö heimili. Það er því sanngirnis- og réttlætismál að ef barn þarf á hjálpartækjum að halda, þá eigi það þau vís á báðum stöðum og að bæði heimilin njóti sambærilegra styrkja við kaup á þeim“ segir ráðherra.  Hún segir þetta fyrsta skref í þessu máli. Áætlun sé fyrir hendi sem gerir ráð fyrir að á næstu þremur árum verði innleiddir styrkir til kaupa á fleiri mikilvægum hjálpartækjum á þessum forsendum, s.s. baðhjálpartækjum, vinnustólum og sessum og einnig lyfturum.

Sjá reglugerð, dagsett 27. maí, 2021.

(Frétt frá Heilbrigðisráðuneytinu)

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.