Search
Close this search box.

Styrkjum innviði matvælaframleiðslu

Deildu 

Fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2024-2028 var rædd á Alþingi í gær. Þar fór ég yfir þau mál­efna­svið áætl­un­ar­inn­ar sem heyra und­ir mitt ráðuneyti, ráðuneyti mat­væla. Und­ir ráðuneytið heyra grund­vall­ar­at­vinnu­grein­ar okk­ar, sjáv­ar­út­veg­ur, lagar­eldi og land­búnaður. Ég legg áherslu á að efla innviði grein­anna og í þeirri vinnu skipt­ir höfuðmáli að við höf­um mark­vissa stefnu­mót­un sem veg­vísi. Unnið hef­ur verið að slíkri stefnu­mót­un í ráðuneyt­inu, en ný­lega mælti ég fyr­ir þings­álykt­un um mat­væla­stefnu til árs­ins 2040 á þing­inu og land­búnaðar­stefnu til árs­ins 2040.

Skil­yrði til auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar

Í fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2028 kem­ur fram að út­gjald­arammi sjáv­ar­út­vegs og fisk­eld­is eykst um 5,2 millj­arða króna á tíma­bil­inu. Tæp­um helm­ingi þeirr­ar fjár­hæðar, 2,2 mö.kr., verður varið til að styrkja stjórn­sýslu og eft­ir­lit með fisk­eldi og þá renna 3 ma.kr. til að efla haf­rann­sókn­ir og eft­ir­lit með sjáv­ar­út­vegi. Öflug­ar haf­rann­sókn­ir og eft­ir­lit með fisk­veiðiauðlind­inni eru for­senda þess að ís­lensk­ar sjáv­ar­af­urðir séu sam­keppn­is­hæf­ar á alþjóðamörkuðum og stuðli að vexti ís­lensks at­vinnu­lífs og sam­fé­lags. Þessi auknu fram­lög miða að því að styrkja grund­vall­arþætti í fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu og fisk­eldi og skapa þar með skil­yrði til auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar með sjálf­bæra nýt­ingu að leiðarljósi.

Þá er gert ráð fyr­ir því að fram­lög til Fisk­eld­is­sjóðs verði auk­in um 1,7 millj­arða á tíma­bil­inu, sam­hliða fyr­ir­hugaðri hækk­un verðmæta­gjalds vegna sjókvía­eld­is. Fram und­an er líka end­ur­skoðun á lög­um um veiðigjald, sem unn­in verður í sam­hengi við verk­efnið um Auðlind­ina okk­ar. Loka­til­lög­ur í verk­efn­inu um Auðlind­ina okk­ar verða til­bún­ar í vor og ég geri ráð fyr­ir að stefna sem bygg­ist á þeirri vinnu fari í sam­ráð í haust.

Korn­rækt er for­senda fæðuör­ygg­is

Í fjár­mála­áætl­un er ráðgert að verja 2 millj­örðum króna til að byggja upp innviði korn­rækt­ar og fjár­festa í plöntukyn­bót­um, en það eru aðgerðir sem lagðar eru til í skýrslu um efl­ingu korn­rækt­ar hér á landi, sem unn­in var af Land­búnaðar­há­skól­an­um að minni beiðni. Fyrstu skref­in í þessu stóra verk­efni hafa þegar verið stig­in. Í síðustu viku und­ir­ritaði ég sam­komu­lag við Land­búnaðar­há­skól­ann um að hefja inn­leiðingu á nýrri tækni við plöntukyn­bæt­ur sem gjör­breyt­ir þeim tíma sem það tek­ur að aðlaga nytja­jurtir á borð við bygg og hveiti að ís­lensk­um aðstæðum. Þessi áform mæta helstu áskor­un­un­um sem að okk­ur steðja í mál­efn­um fæðuör­ygg­is og stuðla auk þess að fleiri at­vinnu­tæki­fær­um í dreif­býli.

Með áherslu á þekk­ingu, skil­virkt eft­ir­lit og fram­sýni munu skap­ast skil­yrði fyr­ir auk­inni verðmæta­sköp­un í mat­væla­fram­leiðslu og þannig áfram­hald­andi vel­sæld á Íslandi.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search