Search
Close this search box.

Styrkjum skipulag í Hafnarfirði

Deildu 

Skipulag bæja og sveitarfélaga er mikilvægt stjórntæki ef því er beitt á skynsamlegan hátt. Með skipulagi er mörkuð stefna sveitarfélaga til framtíðar um uppbyggingu innviða, s.s. allt manngert umhverfi, byggingar, samgöngur, útivistar- og friðuð svæði.

Skipulag er flókið ferli margra þátta og sjónarmiða sem samtvinnast daglegu lífi. Í skipulagslögum og reglugerð hafa verið settar saman leikreglur fyrir þá sem vinna við skipulag og þá sem koma að ákvörðunum á því hvernig á að þróa og byggja umhverfi okkar. Inntak laganna er m.a. það að gæta réttaröryggis allra, tryggja samráð við almenning og tryggja faglegan undirbúning fyrir mannvirkjagerð.

Það er brýnt að vinda ofan af þeirri vitleysu, sem hefur fengið að viðgangast hér í Hafnarfirði síðastliðin tvö kjörtímabil, þar sem lóðarhafar hafa tekið ákveðin svæði í gíslingu og þvingað fram óásættanlegar breytingar á skilmálum eða hafa með aðgerðarleysi og tómlæti staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun eða uppbyggingu. Eitt mikilvægasta þróunarsvæði bæjarins við ofanverðan Reykjavíkurveg frá Flatahrauni að Bæjarhrauni hefur staðið óbreytt um margra ára skeið þrátt fyrir að þar hafi legið fyrir rammaskipulag um langt skeið.

Skipulag er og verður alltaf að vera á hendi bæjarfélagsins. Vinstri græn vilja styrkja Skipulags- og Byggingarsvið Hafnarfjarðar þannig að þetta embætti hafi burði til þess að styðja fulltrúa Hafnfirðinga í að hafa skýra framtíðarsýn varðandi uppbyggingu í bænum og sé virkilega það tæki sem tryggir eðlilega þróun og uppbyggingu í anda Skipulagslaganna.

Það er mikilvægt að horfa til þess að á næsta áratug þurfa allir að takast á við gjörbreyttar forsendur varðandi orkuskipti í samgöngum. Þá skiptir máli hvernig við undirbúum okkur undir þetta og hvernig við högum uppbyggingu og þróun bæjarins.

Sigurbergur Árnason,
arkitekt og skipar 13.sæti á lista VG í Hafnarfirði

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search