Í upphafi maí hefst strandveiðitímabil þessa árs. Veiðarnar eru stundaðar frá maí til ágúst ár hvert. Verður það fjórtánda sumarið síðan strandveiðum var komið á í stjórnartíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Strandveiðar voru hugsaðar til þess að fólki yrði gert kleift að stunda veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Var þannig opnað fyrir það að þau sem ekki hefðu yfir að ráða aflamarki gætu reynt fyrir sér í sjávarútvegi. Þetta fyrirkomulag hefur gefist ágætlega, líf færðist yfir hafnir sem höfðu verið dauflegar áður. Í dag hefur fjöldi fjölskyldna hluta af sínum heimilistekjum af strandveiðum. Sá afli sem til ráðstöfunar er hverju sinni er breytilegur eins og aðrar veiðar og miðast við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ákvörðun ráðherra um leyfilegan heildarafla.
Aldrei hærra hlutfall þorsks í strandveiðar
Frá því að strandveiðunum var komið á hefur á bilinu 2,5-4,4% af leyfilegum heildarafla í þorski verið ráðstafað til strandveiða. Í ljósi niðurstöðu skiptimarkaða núna á útmánuðum er svigrúm til þess að auka við þá ráðstöfun sem áður hafði verið ákvörðuð. Ég mun sjá til þess að 10.000 tonn af þorski verði í strandveiðipottinum á þessu tímabili. Með 1.500 tonna viðbót, mun aldrei hafa verið ráðstafað stærri hluta af leyfilegum heildarafla í þorski til strandveiða. Er það í takti við stefnu VG að festa strandveiðar enn betur í sessi.
Lærum af reynslunni
Nú þegar strandveiðar eru komnar á fermingaraldur er tilefni til þess að fara yfir hvernig til hefur tekist með fyrirkomulag strandveiða. Undirbúningur fyrir þá vinnu er farinn af stað. Við þurfum að leggja niður fyrir okkur hver staða strandbyggða er og afla gagna um hverju strandveiðar skila fyrir byggðirnar. Við þurfum líka að horfa fram á veginn. Það þarf að horfa til þess að innleiða hvata við fiskveiðar til þess að hvetja til orkuskipta. Þegar eru komin af stað verkefni á Íslandi sem miða að orkuskiptum í smábátum og lofa góðu.
Orkuskipti í sjávarútvegi, í stóru og smáu eru ekki bara mikilvægt loftslags- og efnahagsmál heldur einnig mikilvægt fæðuöryggismál. Því er til alls að vinna að hvatar séu í þeim kerfum sem við nýtum við stjórn fiskveiða sem hraði orkuskiptum eins og kostur er. Með þeim hætti gætu strandveiðar, sem nú þegar eru með létt kolefnisspor, verið enn loftslagsvænni. Fleiri atriði þarfnast skoðunar og hef ég fengið erindi frá strandveiðimönnum hringinn í kringum landið. Þar ég hef verið hvött til þess taka til skoðunar hvernig bæta megi kerfið þannig að verðmætasköpun verði sem mest og jafnræði landsvæða sem best. Mikilvægt er að strandveiðar verði áfram tryggðar í þágu byggða, sjálfbærni og fæðuöryggis.