Search
Close this search box.

Styrkjum úthlutað úr Barnamenningarsjóði

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tilkynntu í gær um úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði Íslands. Alls hljóta 41 verkefni styrk að þessu sinni en heildarfjárhæð styrkja nemur 96,8 milljónum króna. Er þetta í fimmta sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum.

Tilkynnt var um úthlutun styrkja við hátíðlega athöfn í Skála Alþingis. Forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra fluttu ávörp og Eva Jáuregui og Francisco Javier Jáuregui fluttu tónlistaratriði.

Alls bárust 105 umsóknir og nam heildarfjárhæðin sem sótt var um rúmum 374 milljónum króna. Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknir og samþykkti forsætisráðherra tillögur stjórnar Barnamenningarsjóðs um úthlutun styrkja. Í starfi og reglum sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Í rökstuðningi fagráðsins segir að verkefnin spanni allt litróf lista og menningar og þeim sé ætlað að auka aðgengi og þátttöku allra barna í listsköpun og listflutningi, þau leitast við að gera sköpun barnanna og sýnileika verkanna jafn hátt undir höfði og sambærilegum verkum fullorðinna, auk þess sem sannfærandi áhersla á Barnasáttmálann og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sé til staðar.

Það sem einkennir umsóknirnar í ár að mati fagráðsins eru helst þættir á borð við aðgengi og inngildingu, ásamt samspili náttúruvísinda, umhverfisverndar og listsköpunar. Eins má nefna umsóknir sem byggja á umfangsmiklu erlendu samstarfi, sem er til þess fallið að auðga varanlega starf barna og ungmenna á sviði lista og menningar. Þá var í ár nokkur fjölgun umsókna um fjölbreyttar barnamenningarhátíðir, þar sem innlend verkefni af ólíkum toga eru tengd saman undir einn hatt, ýmist þematengt eða landshlutabundið.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands árið 2018. Þá var ákveðið að setja 100 milljónir króna árlega í sjóðinn til að efla listir og menningu í þágu barna og að hann skyldi starfa í fimm ár. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.

Í fyrri úthlutunum úr sjóðnum á árunum 2019 til 2022 hefur 371,5 milljónum króna verið úthlutað til 149 verkefna um allt land. Nú er til meðferðar á Alþingi þingsályktunartillaga forsætisráðherra um eflingu barnamenningar. Þar er lagt  til að starfsemi Barnamenningarsjóðs verði fest í sessi til framtíðar og komið á fót Miðstöð barnamenningar sem falin verði umsjón með barnamenningarverkefninu List fyrir alla og starfsemi Barnamenningarsjóðs með það að markmiði að auka aðgengi barna og ungmenna að listum og menningar- og listfræðslu.

Yfirlit yfir úthlutun styrka úr Barnamenningarsjóði 2023 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search