Search
Close this search box.

Styrkur alþjóðastofnana

Deildu 

Við erum herlaust eyríki langt frá heimsins vígaslóð. Stríðið á Gaza birtist okkur í daglegu lífi sem fyrirsagnir í blöðum, á samfélagsmiðlum og sem fréttir í sjónvarpi. Við sjáum skýrar en nokkru sinni hvaða hörmungar stríð hefur í för með sér. Við upplifum okkur vanmáttug en vitum að við getum lagt okkar af mörkum til þess að lina þjáningar fólksins með stuðningi við alþjóðastofnanir þegar einsýnt er að við ein getum ekki stöðvað þessar hörmungar.

Alþingi Íslendinga, eitt örfárra þjóðþinga í heiminum, samþykkti ályktun um afstöðu Íslands vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs í byrjun nóvember sl. þar sem þess er krafist að tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum verði komið á. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Að mati Alþingis er brýnt að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar. Með ályktuninni fól Alþingi ríkisstjórninni jafnframt að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktuninni. Og það hefur ríkistjórnin gert með auknum framlögum til Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu (UNRWA) og Alþjóðadómstólsins í Haag.

Mörg okkar biðu bráðabirgðaniðurstöðu Alþjóðadómstólsins sl. föstudag með óþreyju. Niðurstaða dómstólsins er bindandi en í henni segir m.a. að ísraelsk stjórnvöld þurfi að gera enn betur í að forða almennum borgurum frá þeim skelfilegu átökum sem við höfum öll fylgst vanmáttug með. Þá þurfa ísraelsk stjórnvöld að tryggja að hjálpargögn berist íbúum á Gaza.

Það skýtur því skökku við að á sama tíma og Alþjóðadómstóllinn birtir þessa bráðabirgðaniðurstöðu sína að utanríkisráðherra Íslands ákveði án samtals að hætta að veita framlög til Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu vegna rannsóknar á nokkrum fyrrverandi starfsmönnum hennar. Hið minnsta hefði utanríkisráðherrann átt að ræða þessa stöðu við utanríkismálanefnd Alþingis, sem lagði fram og fékk samþykkta ályktun sem sagði akkúrat hið gagnstæða; að ríkisstjórnin beiti sér fyrir auknum framlögum til mannúðaraðstoðar á Gaza. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, hefur á sama tíma varað við nákvæmlega þessum viðbrögðum þjóða heims við því máli sem upp er komið og sætir rannsókn.

Styrkurinn í öllum vanmættinum vegna þessa skelfilega ástands fyrir botni Miðjarðarhafs felst í alþjóðastofnununum okkar. Þar eigum við rödd og þeim getum við lagt lið í að því er virðist vonlausri baráttu. Ég vona að utanríkisráðherra Íslands endurskoði þessa ákvörðun sína

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search