Search
Close this search box.

Styrkur íslensks samfélags

Deildu 

Skiljanlega eru flest okkar orðin þreytt á ástandinu sem kórónuveirufaraldurinn hefur skapað hér á landi og um allan heim. Því er það mikilvægt fyrir okkur sem stöndum í brúnni að finna  að fólk er vel upplýst og hefur skilning á sóttvarnaráðstöfunum eins og skoðanakannanir bera vitni um. Fyrir viku var ákveðið að herða sóttvarnaráðstafanir og von mín stendur til þess að ábyrg viðbrögð okkar allra við þessum ráðstöfunum muni skila tilætluðum árangri.

Hertar aðgerðir endurspegla þá staðreynd að fagfólk okkar og vísindamenn hafa lært af reynslunni, þau vita hvað er árangursríkast og nýta nýja þekkingu og rannsóknir til að ná auknum árangri. Þannig hefur náðst mikill árangur í meðferð sjúklinga og unnið er að rannsóknum á eftirköstum sjúkdómsins. Mikilvægt verkefni er að styðja við endurhæfingu og aðhlynningu þeirra sem glíma við viðvarandi einkenni sökum COVID-19. Meira er nú lagt upp úr grímunotkun en áður enda hefur verið sýnt fram á að hún geti dregið úr smithættu.  

Þó að dánartalan á Íslandi sé enn með því lægsta sem þekkist er sárt að hugsa til þeirra sem faraldurinn hefur leikið grátt. Ég votta öllum þeim sem misst hafa ástvini í þessari og fyrri bylgjum faraldursins samúð mína.

Markmið stjórnvalda eru skýr hér eftir sem hingað til; að vernda líf og heilsu landsmanna, ná smitstuðlinum hratt niður fyrir einn og fækka þeim sem smitast af veirunni. En markmiðið hefur líka verið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins. Þetta er vandratað einstigi. Hinar ákveðnu sóttvarnaraðgerðir þjóna einmitt því markmiði að draga úr áhrifum veirunnar á samfélagið enda hefur það afar slæm áhrif á ýmsa eftirspurn ef smitbylgjan rís of hátt. En þó að vangaveltur heyrist um enn strangari lokanir leggjum við  áherslu á að skólastarf geti haldið áfram eins og í fyrri bylgju og komið er til móts við óhjákvæmileg efnahagsleg áhrif með skýrum mótvægisaðgerðum. 

Í vor kynntum við fyrstu efnahagsaðgerðir okkar undir yfirskriftinni Varnir, vernd og viðspyrna. Þá var von allrar heimsbyggðarinnar að veiran yrði skammvinnur gestur. Það hefur breyst, faraldurinn koðnaði ekki niður heldur sækir á ný í sig veðrið og við getum öll átt von á því að sóttvarnaráðstöfunum verði beitt þegar hann blossar upp aftur. Það er hins vegar til mikils að vinna fyrir íslenskt samfélag og hagkerfi að hlé komi í storminum þannig að samfélagið geti gengið fyrir sig með sem eðlilegustum hætti og um leið dragi úr faraldursþreytu. 

Afli hins opinbera beitt gegn kreppunni

Meðan faraldurinn geisar munu stjórnvöld styðja við þá sem verða fyrir höggi og beita til þess fullum þunga ríkisfjármálanna. Hætta er á að ójöfnuður aukist í kjölfar heimsfaraldra; bæði milli samfélaga og innan samfélaga. Það er því mikilvægt að íslensk stjórnvöld séu meðvituð um að tryggja jöfnuð í aðgerðum sínum og ýmsar félagslegar aðgerðir þjóna því markmiði. En stóra verkefnið til að tryggja jöfnuð er að atvinnuleysi verði ekki langtímaböl og það hefur verið helsta verkefni ríkisstjórnarinnar. 

Til að vega gegn atvinnuleysi og styðja við heimilin í landinu hefur verið gripið til margháttaðra leiða. Hlutastarfaleiðin hefur vegið þungt í að styðja við afkomu fólks. Án þess að telja allt upp má nefna sérstakan barnabótaauka á vormánuðum, tómstundastyrki til tekjulágra fjölskyldna sem afgreiddir verða í nóvember, aukna geðheilbrigðisþjónustu um land allt, sérstaka eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, launatryggingu í sóttkví, heimild til úttektar á séreignarsparnaði, menntaúrræði fyrir atvinnuleitendur og tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta hefur verið tvöfaldað. 

Við höfum stutt við fyrirtæki og þar með atvinnu fólks með lokunarstyrkjum og tekjufallsstyrkjum en hvorttveggja tekur breytingum núna í þriðju bylgju faraldursins og mun ná til fleiri aðila með hærri styrkjum, til dæmis ferðaþjónustufyrirtækja, veitingahúsa og sjálfstætt starfandi aðila. Í undirbúningi eru viðspyrnustyrkir sem munu einnig mæta þeim sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli. Þá má nefna að skattgreiðslum var frestað, stutt við greiðslu launa í uppsagnarfresti og ráðist í umfangsmikinn stuðning við nýsköpun í atvinnulífinu. Fjármálafyrirtækjum hefur verið gert kleift að nýta sitt svigrúm til að styðja við fyrirtæki og ríkisvaldið ábyrgist að fullu svokölluð stuðningslán og brúarlán að hluta. Að auki var tryggingagjald lækkað tímabundið til að styðja við framlengingu kjarasamninga.  

Ríkisstjórnin hefur með markvissum hætti aukið opinbera fjárfestingu á fjölbreyttum sviðum til að auka umsvif og fjölga störfum. Þar vega þyngst fjárfestingar í samgöngumannvirkjum um land allt sem munu einnig greiða fyrir samgöngum og auka umferðaröryggi. Einnig er ráðist í tímabærar byggingaframkvæmdir og stóraukin fjárfesting er í brýnum umhverfismálum: hringrásarhagkerfinu, fráveituframkvæmdum og loftslagsmálum. Síðast en ekki síst má nefna fjárfestingar í grunnrannsóknum, nýsköpun, matvælaframleiðslu og skapandi greinum. Allt eru þetta skynsamar og mikilvægar fjárfestingar sem munu skapa störf og auka verðmætasköpun bæði til skemmri og lengri tíma. Á sviði þekkingargreinanna á Íslandi eru stór tækifæri – eins og sjá má á nýlegum gleðifréttum um evrópustyrk til vísindamanna á sviði svefnrannsókna. Íslenskt vísindafólk og listafólk hefur náð ótrúlegum árangri víða um heim á undanförnum árum og þar hefur uppbygging menntunar og stuðningskerfis verið lykilþáttur.

Fjárfest fyrir framtíðina

Opinber fjárfesting dugir þó ekki til ein og sér og hvetja þarf til atvinnuvegafjárfestingar einkaaðila. Þar eru stjórnvöld  að kanna sérstakar skattaívilnanir sem hvetji til grænna fjárfestinga og fjárfestinga í hátækni og nýsköpun. Ef vel tekst til getur þessi erfiði tími sem við göngum nú í gegnum orðið hraðall fyrir græna umbreytingu og tækniþróun. Þannig getum við áfram tekið sífellt stærri skref til að ná raunverulegum árangri í baráttunni gegn loftslagsvánni og tryggt að tæknibreytingar auki í senn velsæld og verðmætasköpun. Mikilvægt er að gleyma ekki að hagkerfið sem kemur út úr kreppunni verður ekki nákvæmlega eins og hagkerfið sem fór inn í kreppuna. 

Í gegnum þennan heimsfaraldur hef ég margoft þakkað fyrir að tilheyra samfélagi þar sem umræðan er opin og gagnsæ, þar sem fólk er vel upplýst og umhugað hvert um annað, þar sem vísindamenn forgangsraða tíma sínum og efnum til að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn sjúkdómnum og þar sem fagfólk og yfirvöld eiga lýðræðislegt samtal um leiki í flóknu tafli. Baráttan við veiruna hefur reynst vera torveld gönguferð sem við vitum ekki alveg hve lengi varir né hvar við endum. En ég veit að í þessari gönguferð eru þekking, umburðarlyndi og seigla mikilvægustu  ferðafélagarnir og skila okkur á endanum í örugga höfn. 

Katrín Jakobsdóttir 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search