EN
PO
Search
Close this search box.

STYRKUR SAMFÉLAGA

Deildu 

Þegar óveður geysa og kyngikraftur náttúrunnar tekur völd með snjóflóðum og flóðbylgjum eins og gerðist á Flateyri og á Suðureyri 14 janúar sl. kemur í ljós hve mikill styrkur er í þessum litlu samfélögum til að takast á við afleiðingarnar og samhugurinn er mikill. Ég tel að allir viðbragðsaðilar hafi unnið mjög gott starf. Það veitir öryggistilfinningu að vita af þessu vaska liði sem við höfum á að skipa fyrir vestan eins og Björgunarsveitirnar, Rauða krossinn Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, lögreglu, aðgerðarstjórn, almannavarnir, Snjóflóðasetur og aðra þá aðila sem standa vaktina við svona aðstæður.

Það hafði verið ákveðið að varðskipið Þór yrði hér fyrir vestan sem var gott og skipti miklu eins það að fá björgunarþyrluna vestur.

Við megum þakka fyrir að mannslífi var bjargað og ekkert manntjón varð þó gífurlegt eignartjón hafi orðið hjá mörgum sem eiga nú um sárt að binda og verða að fá allan þann stuðning sem hægt er að veita frá ríki og sveitarfélagi til að koma aftur undir sig fótunum og hefja starfsemi að nýju ef mögulegt er.

Það sýndi sig að samstaða, kjarkur og þor er til staðar og fólk horfir fram á veginn og vill búa áfram í sýnum byggðum því þar er gott samfélag og gott að búa og ala upp sín börn.

Lýðskólinn á Flateyri hefur dregið til sín nýja íbúa sem svo sannarlega hafa sett svip sinn á þorpið og hleypt auknum krafti í byggðina sem hefur átt í vök að verjast eftir mörg áföll undanfarin ár en verið mjög að sækja í sig veðrið undanfarin misseri. Það er ljóst að fjárveitingavaldið verður að standa vel með skólanum.

Það verður að vera áfram öflug smábátaútgerð á Flateyri og uppbygging í kringum sjókvíaeldi styrkir Vestfirði sem heild og enn frekar þegar heilsárssamgöngur verða innan norður og suðursvæðis Vestfjarða.

Okkur Súgfirðingum var mjög brugðið þegar öflug flóðbylgja skall á hluta Suðureyrar samhliða kröftugu snjóflóði úr Norðureyrargili til móts við Suðureyri. Það hefði getað geta valdið skaða á fólki og enn meiri skemmdum en þó varð. Öflug flóðbylgja gekk líka á land þegar snjóflóð féll 1995 innar norðan megin í firðinum þar sem sundlaugin gamla í fjörunni fór í rúst og stór ýta færðist úr stað þó nokkra metra. Björgunarsveitarmenn á leið til hjálpar í snjóflóðunum á Flateyri voru ný búnir að keyra í gegn þar sem flóðbylgjan gekk yfir veginn af miklum þunga og núverandi formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri varð vitni að.

Ekki er til nein sérstök rýmingaráætlun vegna afleiðinga flóðbylgju og  brýnt er í kjölfar þessara atburða að endurmeta  viðbrögð og vakta líka þau svæði ásamt því að endurmeta varnargarða á Flateyri miðað við hvernig þetta flóð hegðaði sér og náði að fara inn á svæði sem áttu að teljast örugg.

Varnarmannvirki hafa sannað sig þó gera þurfi betur og ljúka við uppbyggingu á þeim átta stöðum sem eftir er að verja á hættusvæðum C en búið er að verja fimmtán staði á hættusvæðum C.

Það er mikill ábyrgðarhluti að það fé sem runnið hefur í ofanflóðasjóð hafi ekki verið að fullu nýtt til varnar snjóflóðum heldur farið í aðra innviðauppbyggingu sem ríkið hefur staðið fyrir. Lýðræðislega kjörnir þingmenn til fjölda ára bera ábyrgð á þeirri ráðstöfun.

Heildarendurskoðun fer nú fram á vegum forsætisráðuneytisins og komið verður með endurmat á skilgreindum snjóflóðahættusvæðum með raunhæfri framkvæmdaráætlun. Nauðsynlegt er að nýta sem best í þessari úttekt staðþekkingu heimamanna sem hefur byggst upp til fjölda ára.

Það þarf að upplýsa íbúa sem best um hættur sem stafa af snjóflóðum án þess að hræða fólk heldur það að allir þekki sem best hvað beri að varast og hvernig bregðast eigi við ef hættuástand skapast og þannig halda fólki upplýstu og skapa þar með meira öryggi. Íbúasamsetning hefur breyst mikið á liðnum árum og við búum í fjölmenningarsamfélagi og það skiptir máli að íbúar sé vel upplýstir og tryggja þarf að lágmarksbúnaður sé til staðar til að mæta fyrstu hjálp ef slys verða. Áfallahjálp, sálgæsla og félagslegur stuðningur eftir válega atburði skipta miklu máli til að takast á við erfiðar tilfinningar sem ýfa líka upp gömul sár. Það styður fólk til að takast á við framtíðina og búa áfram með náttúruöflunum með eins öflugum vörnum og mögulegt er að reisa með aðgát og rýmingu þar sem þörf er á.

Ég sendi hlýjar kveðjur til allra sem upplifðu þessar náttúruhamfarir og til þeirra sem urðu fyrir skaða og eignatjóni ásamt því að minnast þeirra sem féllu frá fyrir 25 árum í snjóflóðunum á Flateyri og í Súðavík.

Ég trúi því og treysti að við stöndum öll saman sem einn maður í að treysta og efla byggð fyrir vestan.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search