Search
Close this search box.

Stytting vinnuvikunnar felur í sér aukin lífsgæði

Deildu 

Árið 1971 voru sett lög um 40 stunda vinnuviku á Íslandi sem þóttu mikið framfaramál fyrir launþega þar sem þeim var tryggð meiri hvíld en áður tíðkaðist. Á þessum 48 árum hefur orðið gríðarleg breyting á íslensku samfélagi. Því er ekki sjálfgefið að 40 stunda vinnurammi henti ennþá best, sé tekið tillit til mikilla tækniframfara og breyttrar vinnutilhögunar víðast hvar. Stytting vinnuvikunnar er eitt af þeim áherslumálum Vinstri grænna og óháðra sem við viljum vinna að á þessu kjörtímabili. Hugmyndin er sveitarfélagið ráðist í tilraunaverkefni og byrji á leikskólum í Skagafirði í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk. Því höfum við lagt fram eftirfarandi tillögu fyrir sveitarstjórnarfund í dag: “Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að stefna að því að stytta vinnuvikuna hjá starfsfólki sveitarfélagsins og fara yfir mögulegar leiðir að því markmiði eftir því sem völ er á. Horft verði til þess að byrjað verði á leikskólum Skagafjarðar sem tilraunaverkefni.”

Vinnuálag á Íslandi með því mesta sem gerist

Rannsóknir benda til þess að Ísland sé aftarlega þegar kemur að jafnvægi milli vinnu og einkalífs. OECD hefur tekið saman stuðul þar sem Ísland er í 34. sæti af 38, langt að baki hinum Norðurlöndunum en á svipuðum slóðum og Suður Afríka og Japan. Í júní 2018 gaf Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, RHA út skýrslu um áhrif tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg og völdum ríkisstofnunum. Í skýrslunni voru könnuð áhrif styttri vinnuviku á fjölskyldulíf og jafnrétti kynjanna. Reykjavíkurborg hóf þetta tilraunaverkefni árið 2015 og samkvæmt skýrslu RHA er skýr ávinningur af verkefninu.

Rannsóknir hérlendis sýna mjög jákvæð áhrif styttingar vinnuviku

Reynsla þátttakenda af styttingu vinnuvikunnar var almennt jákvæð samkvæmt rannsókn RHA. Bæði kyn töluðu um að stytting vinnuvikunnar hafi minnkað álag á heimilum og auðveldað samræmingu milli vinnu og einkalífs. Þátttakendur upplifðu sig afslappaðri, samskipti bæði við vinnufélaga og fjölskyldumeðlimi voru betri og samverustundum fjölskyldunnar fjölgaði. Fólk upplifði bætta andlega og líkamlega heilsu, þá töldu þátttakendur sig hafa meiri orku sem nýttist innan og utan vinnu. Starfsfólk var síður að útrétta á vinnutíma, það notaði tímann sem gefst vegna styttingar frekar til að sinna því sem almennt þarf að sinna á vinnutíma. Tímann sem sparaðist notaði fólk á mismunandi hátt, í sjálfsrækt, tómstundir, félagslíf og til þess að sinna foreldrum og ættingjum. Ennfremur segir í skýrslunni að stytting vinnuvikunnar þyki líkleg til að stuðla að jafnrétti kynjanna, bæði á vinnumarkaði og inni á heimilum. Staðreyndin er sú, að konur hafa hingað til verið líklegri til að minnka við sig vinnu til að sinna börnum og heimili. Það hefur áhrif bæði á laun þeirra og framgang á vinnumarkaði. Að mati viðmælenda í rannsókninni, stuðlaði stytting vinnuvikunnar að aukinni starfsánægju og um leið jukust afköst fólks í vinnunni.

Mikill ávinningur af því að stytta vinnuvikuna í Skagafirði

Erfiðlega hefur gengið að manna leikskóla hér í sveitarfélaginu og eru mannabreytingar eru tíðar á þessum vinnustöðum þar sem stöðugleiki skiptir börnin okkar máli. Laun leikskólakennara eru of lág miðað við ábyrgð og vinnuálag. Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er ákveðin launauppbót og sveigjanlegri vinnutími gerir vinnustaðina eftirsóknarverðari. Í tillögu VG og óháðra er lögð áhersla á að komið verði á móts við hvern og einn starfsmann eins og mögulegt er og þannig unnið að því að vinnuvika starfsmanna verði stytt í allt að 36 tíma á viku. Það er hægt að gera í áföngum eftir því sem svigrúm og skipulag leyfir, án þess að skerða þjónustu á nokkurn hátt. Gefist þetta verkefni vel gætu fleiri vinnustaðir sveitarfélagsins fylgt í kjölfarið með styttri vinnuviku.

Álfhildur Leifsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra Skagafirði

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search