Mynd: EPASvandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ásamt þríeykinu og ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu taka á móti Pfizer-bóluefninu í vöruskemmu fyrirtækisins Distica klukkan hálf ellefu í dag. Ráðgert er að tíu þúsund skammtar af bóluefninu komi til landsins í fyrstu sendingu og að hafist verið handa við að bólusetja á morgun, þriðjudag.
Bóluefnið kemur frá dreifingarmiðstöð Pfizer í Belgíu en flogið er með það frá Amsterdam í Hollandi. Gert er ráð fyrir að vélin með bóluefninu lendi milli 9 og 10 á Keflavíkurflugvelli.
Flókið er að flytja bóluefnið milli landa þar sem það þarf að geymast við mikið frost; -60 til -90 gráður. „Distica tekur við efninu og þá þarf að athuga hvernig hitastigið var í flutningunum og sjá hvort að allir pappírar og gögn séu með sendingunni. Það er síðan í höndum Pfizer að leggja mat á flutninginn og losa sendinguna í notkun á Íslandi,“ sagði Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við fréttastofu í gærkvöld.
Landspítalinn stefnir á að hefja bólusetningu hjá sínum starfsmönnum á morgun. 770 verður boðin bólusetning í fyrstu umferð og er reiknað með að ljúka bólusetningu hópsins þann 30. desember.
Þetta er starfsfólk á bráðamóttöku í Fossvogi, bráðamóttöku barna, gjörgæsludeilda og COVID-19 göngudeildar. Þá verður starfsfólki sem tók aukavaktir á þessum deildum í þriðju bylgjunni einnig boðið að fara í bólusetningu. Í fyrsta forgangshópi eru einnig íbúar á hjúkrunarheimilum.
Bóluefnið verður gefið í tveimur skömmtum, 0,3 ml hvor, með að minnsta kosti 21 dags millibili. Því er sprautað í vöðva, yfirleitt á upphandlegg. Fyrst þarf að láta það þiðna, helst í þrjár klukkustundir og það er síðan þynnt með natríumklóríði.
Mjög algengar aukaverkanir eru verkur og bólga á stungustað, þreyta, höfuðverkur, vöðvaverkir, liðverkir, kuldahrollur og hiti. Algengar aukaverkanir eru roði á stungustað og ógleði. Fram kemur í fylgiseðli með bóluefninu að þessar aukaverkanir séu venjulega vægar eða miðlungsmiklar og gangi til baka fáum dögum eftir bólusetningu.
Í fyrstu sendingu koma tíu þúsund skammtar en eftir það þrjú þúsund skammtar á viku hverri fram í mars. Ísland fær samtals 170 þúsund skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech sem eiga að duga til að bólusetja 85 þúsund Íslendinga.