Search
Close this search box.

Svandís Svavarsdóttir kynnir heilbrigðisstefnu til 2030

Deildu 

Tillaga Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 var til umfjöllunar í ríkisstjórn í gær sem samþykkti að senda hana til þingflokka. Að lokinni umfjöllun í þingflokkum verður hún lögð fyrir Alþingi þar sem ráðherra mælir fyrir henni.

Vinna við mótun heilbrigðisstefnu hófst í velferðarráðuneytinu í apríl 2018 í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Við vinnuna hefur verið byggt á margvíslegum greiningum sem gerðar hafa verið á ýmsum þáttum heilbrigðisþjónustunnar hér á landi á síðustu árum og tekið mið af ýmsum gögnum og upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, m.a. heilbrigðisstefnu Evrópu til ársins 2020. Jafnframt hefur verið stuðst við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Í byrjun október síðastliðnum stóð velferðarráðuneytið fyrir tveggja daga vinnustofu með fulltrúum heilbrigðisstofnana af öllu landinu þar sem kallað var eftir sýn og áherslum viðkomandi inn í stefnumótunarvinnuna. Fleiri fundir voru haldnir þar sem rætt var við fag- og stéttarfélög heilbrigðisstarfsfólks og fleiri aðila sem veita heilbrigðisþjónustu. Dagskrá Heilbrigðisþings, sem haldið var 2. nóvember síðastliðinn var helguð þessu málefni þar sem fyrirliggjandi drög voru kynnt og efnt til umræðu við ráðstefnu gesti um framtíðarsýn og meginviðfangsefni heilbrigðiskerfisins á komandi árum.

Drög að heilbrigðisstefnunni voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu frá 28. nóvember til 19. desember síðastliðinn og voru umsagnir birtar í gáttinni jafnóðum og þær bárust. Tæplega 30 umsagnir bárust frá heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum, fagfélögum, sjúkingasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum. Umsagnirnar voru gagnlegar og var tekið tillit til þeirra eins og kostur var. Þá munu þær jafnframt nýtast vel við gerð aðgerðaáætlana og framkvæmd og eftirfylgd heilbrigðisstefnunnar.

Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd verður gerð áætlun um aðgerðir til fimm ára í senn og verður sú aðgerðaáætlun uppfærð árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi. Framkvæmd stefnunnar mun þar með endurspeglast í aðgerðaáætlun heilbrigðismála og fjármálaáætlun hverju sinni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search