Search
Close this search box.

Sveitarfélögin sem jöfnunartæki

Deildu 

Það er napur janúarmorgunn, snjó hefur kyngt niður alla nóttina en samt sem áður kemst þú ferða þinna snemma morguns vegna þess að göturnar hafa verið ruddar áður en þú ferð af stað.

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í nærþjónustu og daglegu lífi fólks. Þau sinna þeim málum sem skipta fólk hvað mestu máli í daglegu lífi. Sveitarfélögin sinna leik- og grunnskólastarfi, reka dægradvöl fyrir börn, sinna margvíslegri þjónustu fyrir eldra fólk og fara með málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélögin tryggja að við komumst út úr hverfunum okkar á snjóþungum dögum og mörg hver reka almenningssamgöngur.

Einhvern veginn verða sveitarfélögin að fjármagna þessa hluta samneyslunnar og til þess innheimta þau útsvar og fasteignagjöld. Sveitarfélög innheimta einnig gjöld vegna einstaka þjónustuþátta. Slík gjöld geta vegið þungt fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur. Til dæmis gjöld vegna leikskóla, skólamáltíða, frístundaheimila og stundum aukakostnaður vegna grunnskóla. Með hófsamri gjaldtöku geta sveitarfélög því haft veruleg áhrif á fjárhag íbúanna. Sum sveitarfélög á landinu hafa raunar þegar stigið mikilvæg skref í þá átt.

Þessi misserin er mikið rætt um fjárhag heimilanna í landinu og hvað hið opinbera getur gert til að rýmka til fyrir kjarasamningum. Einhverjir hafa lagt til að réttast væri nú að lækka útsvarið til þess arna. Slík flöt lækkun skatta gerir það hins vegar að verkum að þeir sem hæstar hafa tekjurnar hagnast meira á því í krónum talið.

Í því samhengi geta sveitarfélögin einnig lagt sitt að mörkum til jöfnunar tækifæra. Að lækka leikskólagjöld til tekjulágra foreldra, skilar sér af mun meiri þunga til þeirra sem þurfa stuðning heldur en að lækka útsvarsprósentuna um brot úr prósenti. Einnig að standa gegn hækkunum á þjónustugjöldum, þar á meðal til eldri borgara og öryrkja. Eða hætta alfarið gjaldtöku í grunnskólum.

Þannig geta þau lagt sitt af mörkum til að stuðla að sátt í samfélaginu og unnið með ríkinu að því verkefni að allir geti lifað með reisn.


Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search