PO
EN
Search
Close this search box.

Svona virkar þingbundið lýðræði

Deildu 

Nú þegar Alþingi er með alla sína þingmenn starfhæfa og góðan fjarfundarbúnað ber því skylda til þess að afgreiða þingmál sem eru bein viðbrögð við faraldrinum (kölluð covid-mál). Það höfum við gert og verið í líflegum umræðum í þingsal um leið og við virðum sóttvarnir. Fundarskjáir vítt og breitt um húsnæði Alþingis tryggja að það gengur upp. Ávallt eru aðeins þeir í sal sem ræða mál eða hafa uppi andsvör (oftast 5-10 þingmenn). Aðrir fylgjast með og fjöldinn í þingsal alla jafna svipaður og þegar enginn er faraldurinn! Fjöldatakmörkun brast í fyrsta og eina skipti þegar nokkrum mönnum var ofaukið í þingsal 16. apríl. Þá átti að hefja þóf um fundarstjórn forseta en með öðrum orðum um dagskrá þingfundarins. Fimm  þingmönnum var þar ofaukið, á þeirra ábyrgð.

Ásakanir og feluleikur með raunverulegar ástæður upphlaups stjórnarandstöðunnar er raunalegur; orð um aðför að lýðræðinu alröng. Á dagskrá þingsins voru nokkur stjórnarmál, m.a. um hollustuhætti á vinnustöðum, sjúkratryggingar, stuðning við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og framkvæmdasjóð ferðamanna, og samvinnuverkefni í vegagerð. Fyrir þeim átti ráðherra að mæla, þingmenn að ræða innihaldið, hafa uppi andsvör ef svo bæri undir, en málum svo vísað til þingnefnda sem nota fjarfundarbúnað. Flokkar stjórnarandstöðunnar virðast aftur á móti vilja hindra að löngu kunn stjórnarmál komist áleiðis í alllangt en brýnt vinnuferli. Bera fyrir sig sóttvarnir eða að mál séu „í ágreiningi“. Hvað annað ætli gildi um flest stjórnarmál?

Einna verst er þó orðræðan um að semja skuli um framlagningu stjórnarmála. Þau eru að öllu jöfn í forgangi á þingdagskrá í þingbundnu lýðræði. Að sjálfsögðu var gert samkomulag í upphafi faraldursins um að covid-mál hefðu forgang alla leið til atkvæðagreiðslu. En engin stjórnarandstaða getur svo krafist þess að auki, ef nægt rými er í tíma og rúmi, að þingstarf á borð við fyrstu umræða um stjórnarmál og nefndarstarf, sem oftast tekur vikur með hvert mál, leggist með öllu af. Á fimmtudaginn lágu engin hrein covid-mál fyrir. Virðing fyrir þingbundnu lýðræði felst í að nýta ekki undantekningarástand (t.d. faraldur) til þess að halda aftur af reifun annarra þingmála og kleifri nefndarvinnu, auk þess sem mörg fyrirliggjandi þingmál til fyrstu umræðu varða beinlínis atvinnu fólks, efnahagsmál og velferðina; varða viðbrögð við faraldrinum þegar allt kemur til alls! Hver eru rökin fyrir slíkum töfum?

Hrollkaldur tölvupóstur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 16. apríl, sem hann missti greinlega úr höndum sér til annarra en flokksmanna, afhjúpar andlýðræðislega pólitíska aðferðarfræði með þessum kjarna: Því fleiri óumdeild stjórnarmál sem andstaðan skemmir fyrir í núverandi ástandi, hvað sem gagnsemi þeirra líður, þeim mun betra fyrir mig og mína. Í póstinum afhjúpast gróf tilraun til að grafa undan þingbundnu lýðræði sem ekki má líða. Eru aðrir úr forystu stjórnarandstöðunnar samþykkir þessari aðferðarfræði? Ég vona ekki, en það á eftir að koma í ljós.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search