Í vikunni er ég stödd á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Barcelona. Sýning þessi er sú stærsta sinnar tegundar og tengir saman sjávarútveginn við kaupendur. Yfir 40 íslensk fyrirtæki taka þátt í sýningunni og kynna fjölbreytta starfsemi. Þá fara fram samhliða sýningunni ýmiss konar hliðarviðburðir fyrir alla þá fjölmörgu aðila sem starfa í sjávarútvegi og eiga í viðskiptum innan greinarinnar. Ég hef líka fundað með erlendum kollegum og tekið þátt í kynningarviðburðum um íslenskan sjávarútveg á meðan á dvöl minni stendur.
Viðburðir sem þessir eru vitnisburðir um sterka stöðu sjávarútvegs á Íslandi á heimsvísu. Fótspor og viðvera Íslands á sýningunni er mörgum númerum stærra en stærð landsins gefur til kynna. Þessi sterka staða er þó ekki sjálfsögð eða sjálfgefin. Það er ljóst að aukin verðmætasköpun mun trauðla verða vegna aukins magns úr sjó heldur fremur vegna aukinnar verðmætasköpunar þess afla sem nú er veiddur. Þar hefur íslenskur sjávarútvegur staðið sig ákaflega vel. Sá tími kann að renna upp að roðið á þorski verði verðmætari vara heldur en hnakkarnir.
Vísindi skapa aukin verðmæti
Þannig hafa vísindi, þekking og rannsóknir orðið að auknum verðmætum. Sá hugmyndarammi að skapa meira úr minnu með hjálp vísinda og þekkingar er það sem til þarf til þess að leysa stærstu áskoranir okkar tíma; hvernig við fæðum mannkynið á sama tíma og við tökumst á við loftslagsbreytingar og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Þar á sama við hvort sem er tekist á við sjávarútveg eða lagareldi. Lausnin er alltaf sú að stuðla að því að ákvarðanataka sé byggð á bestu fáanlegu þekkingu með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Sem liður í því er ánægjulegt að sátt sé um það að leggja til auknar hafrannsóknir og efla stjórnkerfi og eftirlit með fiskveiðum og fiskeldi í fjármálaáætlun til ársins 2028, en í henni er gert ráð fyrir að 5,2 milljörðum króna til viðbótar verði varið til ofangreindra málaflokka á tímabilinu.
Almannahagsmunir af því að auka sátt
Almannahagsmunir eru fólgnir í því að skapa aukna sátt um sjávarútveg. Nýleg skoðanakönnun sem gerð var vegna stefnumótunarverkefnisins „Auðlindarinnar okkar“ leiðir í ljós fjölmörg sóknarfæri í þá veru. Ljóst er af niðurstöðum könnunarinnar að skoðanir eru skiptar á þeim fjölmörgu álitaefnum sem fjallað er um á vettvangi „Auðlindarinnar okkar“. Það eru hagsmunir allra sem að því stóra verkefni koma að auka sátt um sjávarútveg. Könnunin er mikilvægt gagn í því verkefni að auka sátt um sjávarútveg og kemur að notum við áframhaldandi vinnu Auðlindarinnar okkar. Aukin sátt um þessa þróttmiklu og mikilvægu atvinnugrein mun tryggja áframhaldandi sterka stöðu greinarinnar.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.