EN
PO
Search
Close this search box.

Sýnum skynsemi í sóttvörnum

Deildu 

Árangur Íslands í sóttvörnum hefur verið svo góður að eftir hefur verið tekið. Með samstilltu átaki hefur okkur tekist að haga málum þannig að áhrif heimsfaraldurs á daglegt líf fólks hafa verið minni hér en víða. Mörg voru því farin að líta sumarið hýru auga; það yrði hægt að lifa enn frjálsara lífi hér en við þó gerum í dag.

Til að svo megi verða þarf að tryggja að sóttvarnir séu áfram eins og best verður á kosið. Við þurfum að huga að persónulegum sóttvörnum, nota grímuna, halda skilgreindri fjarlægð og þvo okkur um hendur, spritta og virða samkomutakmarkanir. Það sama á við um landamærin; við verðum að hafa þær reglur þar við lýði sem tryggja sem bestar sóttvarnir.

Sóttkvíarhótel er ein af þeim aðferðum sem talin var nauðsynleg til að tryggja sem bestar sóttvarnir. Reglugerð um það reyndist ekki hafa lagastoð og því var fallið frá skylduvist í sóttkvíarhóteli. Þess í stað treystum við á að fólk sem kemur yfir landamærin virði allar reglur um sóttkví; líka nýju og strangari reglurnar sem voru settar eftir úrskurð um sóttkvíarhótel. Eins og dæmin sanna þarf ekki nema örfá tilvik um að reglur séu ekki virtar í hvívetna, kannski bara eitt, til að smit breiðist út.

Ég er einfaldur maður og horfi til einfaldra lausna. Ef vantar að styrkja lagastoð undir sótt­kvíarhótel, þá styrkjum við lagastoð undir sóttkvíarhótel. Ávinningurinn af slíku er ótvíræður; við hljótum öll að vilja að hægt sé að slaka enn frekar á klónni innanlands. Átt frjálsara sumar. Frekar en að herða reglur aftur.

Í löngu og viðamiklu verkefni getur það gerst að á lokametrunum verði löngunin til að ljúka verkefninu öllu öðru yfirsterkara. Við megum ekki falla í þá gryfju með COVID. Það er jafn mikilvægt núna og fyrir ári síðan að huga vel að öllum sóttvörnum. Sýnum skynsemi í sóttvörnum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search