PO
EN

Tækifæri eða töpuð barátta? 

Deildu 

Í nýrri skýrslu OECD um stöðu íslensks efnahagsmála kemur ýmislegt í ljós varðandi menntun sem kennarar, skólasamfélagið og stjórnvöld þurfa að taka alvarlega. Það er engin launung að PISA niðurstöður Íslendinga hafa dalað síðustu ár. Það kallar á markvissar aðgerðir og samfélagslegt átak í átt að breyttu menntakerfi sem er í takt við nútíma samfélag.

Á sama tíma og OECD undirstrikar mikilvægi þess að Ísland styrki menntakerfið, hefur ríkisstjórnin kynnt áform um að lækka framlög til menntamála á næstu árum. Fyrirhugað er að fram­lög verði um 2,5 millj­örðum lægri árið 2030 en þau eru nú árið 2025. Þetta á að eiga sér stað á sama tíma og nemendum á fram­halds­skóla­stigi fjölgar veru­lega og biðlistar í iðnnám hlaupa á hundruðum. Þessi niðurskurður er þvert á ráðleggingar sérfræðinga sem kalla eftir endurnýjun og eflingu skólakerfisins.

Aukin fagmennska

Við sem störfum innan skólanna sjáum daglega hversu mikil áhrif fjárhagslegar ákvarðanir hafa á líf og nám barna. Skertur stuðningur, aukin bið eftir úrræðum, of stórir bekkir og niðurskurður í faglegri þróun kennara eru afleiðingar sem bitna beint á börnum, sérstaklega þeim sem standa höllum fæti. Niðurskurður til menntamála kemur til með að gera fyrirliggjandi áskoranir enn stærri, vandinn kemur til með að aukast. Aldrei hefur verið mikilvægara að efla skólakerfið með hæfu fólki og búa því gott starfsumhverfi en í skýrslu OECD kemur einnig fram að hærri laun eða viðbótarlaun við erfiðar aðstæður gætu hjálpað til við að laða að hæfari kennara. Raunveruleikinn er að fjöldi leiðbeinenda á fyrstu skólastigum fer hratt vaxandi.

Aukið læsi

Það er vissulega ánægjulegt að sjá að í stefnu nýrrar ríkisstjórnar er lögð sérstök áhersla á að efla íslenskukennslu og aðgengi allra barna að fjölbreyttu námsefni. Þar er einnig lögð áhersla á aukin gæði kennslu, einföldun námskrár og mælikvarða á árangur með matskvörðum. En það er ekki nóg að tala upp hugmyndir um íslenskukennslu, læsi og aukin gæði menntunar á tyllidögum ef bæði fjárveitingar og raunveruleg stefna ríkisstjórnar ganga í öfuga átt í raunveruleikanum. Fjárfesting í menntun er forvörn til framtíðar.

Aukið samstarf

OECD bendir á þann mannauð sem samfélagið okkar býr yfir, vel menntað ungt fólk, sterk velferðarkerfi og áhersla á jafnrétti fyrir öll. Þar liggja tækifærin. En verkefnið er stórt, það þarf samstillt átak milli skóla og heimila. Eins og fram kemur í grein Kristínar Á. Ólafsdóttur í Tímariti um uppeldi og menntun (2024) þá byggir árangur í læsi og áframhaldandi námi ekki einungis á starfi skólans, heldur jafnframt á samvinnu við foreldra og heimili. Uppeldi barna á ekki að útvista til skóla heldur er ábyrgðin foreldranna. Með samstilltu átaki, auknu trausti á fagfólki í skólum og raunverulegum fjárfestingum í menntun getum við snúið við þessari neikvæðu þróun sem OECD bendir á og tryggt börnum okkar sanngjarnt tækifæri til framtíðar. Til þess þarf samfélagssáttmála sem setur unga fólkið okkar í fyrsta sæti og styður hvern einstakling í námi og þroska.

Aukin tækifæri

En til að slíkt átak raungerist þá þarf að hafa langtímasýn og fjárfestingar en ekki skert fjárframlög á sama tíma og krafan um gæði og árangur vex. Kostnað við íslenskt menntakerfi er erfitt að bera saman við önnur í Evrópu vegna landfræðilegrar legu, t.d. vegna kostnaðar við skólaakstur, fámennis og lítilla skóla og oft fjálglegra útreikninga á innri leigu skólamannvirkja. Menntakerfið vill metnaðarfullt samstarf, bæði við foreldra og stjórnvöld en það samstarf verður að byggja á raunhæfum forsendum, trausti og sameiginlegri ábyrgð. Við hvetjum því stjórnvöld, sveitarfélög og allt samfélagið til að horfa til jákvæðra tækifæra sem felast í því að styrkja menntakerfið og búa þannig til öflugri framtíð fyrir börnin okkar og samfélagið allt.

Álfhildur Leifsdóttir, oddviti VG í Skagafirði
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ritari VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search