Frumvarpi um mikilvægar og tímabærar breytingar á stjórnarskrá var dreift á Alþingi nú í vikunni. Frumvarpið er fjórir kaflar, ný ákvæði um auðlindir í þjóðareign, umhverfisvernd, íslenska tungu og táknmál og síðan endurskoðaður kafli um forseta og framkvæmdavald. Það er afrakstur fyrri áfanga heildurendurskoðunar á stjórnarskránni sem ég lagði til við formenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi í upphafi kjörtímabilsins.
Nokkuð ítarlegar breytingar eru á kaflanum um forseta og framkvæmdavald. Þessar breytingar hafa verið til umræðu á vettvangi formanna og fulltrúa flokkanna undanfarin misseri en voru einnig viðfangsefni sérstakrar rökræðukönnunar sem haldin var haustið 2019. Þar komu saman á þriðja hundrað manns sem ræddu breytingar á stjórnarskrá heila helgi. Nokkrar breytinganna sem hér eru lagðar til byggjast á niðurstöðum hennar og vonandi verður þetta dæmi um hvernig nýta má almannasamráð til að undirbúa samfélagslegar breytingar og löggjöf stjórnvalda á hverjum tíma.
Í ákvæðinu um forsetaembættið eru gerðar auknar kröfur um fjölda meðmælenda. Lagt er til að lengja kjörtímabil forseta úr fjórum árum í sex og setja þak á fjölda kjörtímabila. Þá er lagt til að taka upp forgangsraðaða kosningu til að tryggja að forseti hafi ávallt meirihlutastuðning þjóðarinnar en þetta er ein þeirra breytinga sem nutu stuðnings í rökræðukönnuninni. Að lokum eru lagðar til breytingar á ákvæðum stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð og landsdóm. Samhliða verða kynnt lagafrumvörp sem gætu orðið grunnur að lagabreytingum á þessu sviði að breyttri stjórnarskrá.
Margoft hafa verið lögð fram ákvæði um þjóðareign á auðlindum á Alþingi en aldrei náð fram að ganga. Fyrir liggur að þjóðin vill sjá slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Í því ákvæði sem hér er lagt fram er því lýst yfir að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni, og náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti verði engum afhent til eignar eða varanlegra afnota. Ákvæðið felur þar með í sér að heimildir til að nýta slíkar auðlindir séu annaðhvort tímabundnar eða uppsegjanlegar. Þar er einnig kveðið á um sjálfbæra nýtingu til hagsbóta landsmönnum öllum, við veitingu heimilda skuli gæta jafnræðis og gagnsæis, og með lögum skuli kveða á um gjaldtöku fyrir nýtingu í ábataskyni. Þar með er gerður greinarmunur á þeirri nýtingu sem rekin er með samfélagslegum hætti, til dæmis í hitaveitu, vatnsveitu og rafveitu sem reknar eru af sveitarfélögum í þágu almennings og þeirri nýtingu sem skapar einkaaðilum arð – eins og til dæmis nýtingu sjávarauðlindarinnar. Ákvæðið svarar kalli margra kynslóða og tryggir stjórnarskrárvarða þjóðareign á auðlindum fyrir framtíðarkynslóðir.
Í ákvæði um umhverfisvernd er einnig kveðið á um sjálfbæra nýtingu. Jafnframt að náttúruvernd skuli grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum, fjölbreytni náttúrunnar skuli viðhaldið og vöxtur og viðgangur lífríkis sé tryggður. Þannig er fjallað um grundvallaratriði í umhverfis- og náttúruvernd í þessu skorinorða ákvæði en ákvæði um þessi stóru mál, auðlindir og umhverfi, hefur vantað í stjórnarskrá. Kveðið er á um rétt fólks til heilnæms umhverfis og kveðið er á um almannarétt; að almenningi sé heimil för um landið og dvöl í lögmætum tilgangi. Það hefur lengi verið baráttumál að almannarétturinn njóti þessarar verndar í stjórnarskrá og sérstakt fagnaðarefni að þessi réttur, sem á rætur sínar að rekja allt aftur til fornlaganna í Grágás og Jónsbók, sé nú festur í stjórnarskrá.
Lagt er til að íslenska sé ríkismál Íslands og íslenskt táknmál tungumál þeirra sem nota það til tjáningar og samskipta.
Það er von mín að þetta frumvarp fái góða og ítarlega efnislega umræðu á Alþingi og í kjölfarið fallist meirihluti þingmanna á breytingar á stjórnarskrá sem yrðu stór skref í framfaraátt. Það liggur fyrir að ekki eru allir flokkar sammála um þessar breytingar en ég er eigi að síður þakklát fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað á vettvangi formanna og fulltrúa stjórnmálaflokkanna og tel að hún hafi átt stóran þátt í þeim tillögum sem nú verða lagðar fram. Um leið er mikilvægt að niðurstöður almannasamráðs endurspeglast í breytingum á kafla stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdavald og slíkri aðferðafræði verður vonandi beitt áfram þegar móta á stefnu í stórum og mikilvægum málum.
Þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá er mikilvægt að forgangsraða og var það meðal annars ábending frá Feneyjanefndinni árið 2013. Þær breytingar sem hér eru lagðar fram svara ákallinu um forgangsröðun. Að mínu viti eru þær góð leið úr sjálfheldu sem endurskoðun stjórnarskrárinnar lenti í. Sú sjálfhelda kann að vera þægileg fyrir einhverja en málið á að vera stærra en þeir hagsmunir. Afdrif tillagnanna munu vera mikilvæg vísbending um hversu stjórnmálastéttinni er umhugað um breytingar á stjórnarskránni.
Þær breytingar sem lagðar eru til svara ákalli samfélagsins um að stjórnarskráin verði ekki þögul um sum stærstu málefni samtímans, ekki síst þjóðareign á auðlindum og umhverfis- og náttúruvernd. Kafli stjórnarskrár um forseta og framkvæmdavald er færður í nútímalegra horf og mikilvægi íslenskrar tungu og táknmáls verður undirstrikað í stjórnarskrá. Þó að verkinu sé ekki lokið snúast tillögurnar að mínu viti um kjarnann í mörgu því sem almenningur hefur kallað eftir og byggjast á vandaðri vinnu og ígrundun. Það er raunverulegt tækifæri til að marka leiðina fram á við með góðum breytingum á stjórnarskrá.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.