EN
PO
Search
Close this search box.

Takk Bjarkey

Deildu 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna og fyrrum ráðherra tilkynnti fyrir rúmlega viku síðan að hún myndi ekki halda áfram í forystu VG á næsta kjörtímabili. Bjarkey kom fyrst inn á þing fyrir VG sem varaþingmaður árið 2004 og kom nokkrum sinnum inn sem slíkur frá 2004 – 2013 en á því tímabili var hún bæjarfulltrúi í Fjallabyggð, þar sem hún sat fyrst fyrir lista Félagshyggjufólks og óháðra og síðan fyrir T-lista Fjallabyggðarlistans.

Bjarkey varð níundi þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir VG á 2013 og hefur setið á þingi síðan. Bjarkey hefur gengt ýmsum störfum á þingi t.a.m. var hún þingflokksformaður VG 2017-2021 og formaður fjárlaganefndar 2021-2023. Bjarkey Olsen var skipuð sem matvælaráðherra í apríl 2024. Við viljum þakka Bjarkeyju fyrir störf hennar í þágu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs en vitum að við munum hitta Bjarkeyju á viðburðum og fundum hreyfingarinnar í framtíðinni. Við gefum Bjarkeyju lokaorðið:

„Kæru vinir og samferðafólk

Nú eru enn og aftur tímamót þegar boðað hefur verið til kosninga. Ég hef ákveðið að stíga til hliðar eftir að hafa verið varaþingmaður og þingmaður í 20 ár. Ég fór fyrst inn á þing 2004 sem varaþingmaður og reglulega þar til ég var kjörin 2013.

Ég hef verið þingflokksformaður, setið í fjölda þingnefnda, verið formaður fjárlaganefndar og velferðarnefndar og nú síðast matvælaráðherra.

Þetta hefur verið afar skemmtilegur tími og ég hef notið þess að hitta fjöldann allan af fólki og mynda góð tengsl víða í kjördæminu í gegnum árin. Það tel ég vera afar mikilvægt enda oft snúið að fylgja eftir mörgum þeim málum sem við landsbyggðarfólk þekkjum svo vel og kallar á sterkar raddir inn á Alþingi. Ég tel að ég hafi sinnt kjördæminu af alúð sem og landinu öllu þessi ár sem ég hef verið á þingi.

Síðustu sex mánuði, sem matvælaráðherra, hef ég öðlast enn frekari skilning á aðstæðum ýmissa atvinnugreina. Ég setti af stað talsverða vinnu í matvælaráðuneytinu er varðar dýravelferðarmál sem ég tel að við þurfum að taka betur utanum. Ég fundaði nú í sumar með mörgum bændum og hringdi í aðra sem hafa átt afar erfiða tíma sökum veðurfars. Ég hitti líka fjölmarga trillukarla og var með fyrirhugaðar breytingar á strandveiðum í vinnslu sem og önnur mál er tengjast sjávarútveginum. Aukið gagnsæi og eignarhald var á meðal þeirra.

Ég setti upp skrifstofur víða um land og bauð fólki að hitta mig og eiga beint samtal og var því afar vel tekið. Ég tel að þannig þurfi ráðherrar að vinna í meira mæli – fara til fólksins.

Pólitík er sannarlega snúin og hlutirnir ganga oft hægar en við vildum. Það eru flóknir tímar framundan og það verður vandasamt að vinna úr þeim viðfangsefnum sem ný ríkisstjórn og þing þurfa að takast á við. Ég óska þeim velfarnaðar í störfum sínum.

Ég hef verið í fjarbúð s.l. 12 ár og farið heim nærfellt hverja helgi til að njóta samvista við fjölskylduna og er ég þakklát þeim fyrir þolinmæðina og stuðninginn alla tíð.

Ég vil að endingu þakka öllum þann stuðning, vináttu og vinsemd sem ég hef notið þessi tuttugu ár.

Áfram VG“

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search