Search
Close this search box.

Takmörkanir á samkomum vegna farsóttar breytast lítið en snertingar leyfðar í sviðslistum og tónlist eins og í íþróttum.

Deildu 

Ný auglýsing heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar tekur gildi 28. ágúst næstkomandi og gildir til og með 10. september. Litlar breytingar verða á þeim takmörkunum sem nú gilda og er það í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra sem fram koma í meðfylgjandi minnisblaði. Þær breytingar sem þó verða gerðar eru raktar hér að neðan. Efnið var kynnt á fundi ríkisstjórnar í dag.

Auglýsingin tekur ekki til skólastarfs eins og núgildandi auglýsing, heldur er fjallað sérstaklega um takmarkanir á skólahaldi í auglýsingu sem tók gildi 21. ágúst sl. og gildir til 29. september næstkomandi. Sú auglýsing er einnig í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis og var unnin í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Markmiðið með þeirri auglýsingu er að raska sem minnst skólastarfi vegna COVID-19 þrátt fyrir að gætt sé að sóttvarnasjónarmiðum.

Helstu breytingar:

2 metra reglan: Ákvæði um almenna nálægðartakmörkun er breytt. Þar sem nú er kveðið á um að rekstraraðilar skuli tryggja að hægt sé að tryggja að minnsta kosti 2 metra milli einstaklinga sem ekki deila heimili verður ákvæðið þannig að tryggja beri að hægt sé að tryggja að minnsta kosti 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. 
Íþróttir: Samkvæmt nýju auglýsingunni verða íþróttir almennt leyfðar. Þær íþróttagreinar sem ekki heyra undir ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands) skulu setja sér leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbeiningum og sambærilegar íþróttagreinar innan ÍSÍ.
Sviðslistir, tónlist og kvikmyndataka: Snertingar verða heimilar á æfingum í sviðslistum og tónlist á sama hátt og í íþróttum. Sama gildir um kvikmyndatöku.
Líkamsræktarstöðvar: Takmarkanir vegna sérstakrar smithættu verða þær sömu á líkamsræktarstöðvum og á sund- og baðstöðvum. Gestir mega þar aldrei vera fleiri en nemur helmingi eða minna af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. 

Eins og áður segir tekur ný auglýsing um takmarkanir á samkomum gildi 28. ágúst og gildir til og með 10. september.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search