Search
Close this search box.

Það á að vera gott að eldast

Deildu 

Eldra fólk er marg­breyti­leg­ur hóp­ur og oft er talað um að á engu öðru ævi­skeiði sé hóp­ur jafn fjöl­breytt­ur. Æviskeið sem er sí­fellt að verða lengra þökk sé fram­förum í þekk­ingu okk­ar á fé­lags- og heil­brigðisþátt­um. Hlut­fall 67 ára og eldri er núna 13% þjóðar­inn­ar eða um 47 þúsund ein­stak­ling­ar. Því er spáð að eft­ir tæp 30 ár eða árið 2050 verði hlut­fallið 20% eða rúm­lega 90 þúsund ein­stak­ling­ar, sem þýðir nærri því tvö­föld­un í fjölda.

Sam­starf um betri þjón­ustu við eldra fólk

Þessi stór­aukni fjöldi eldra fólks og kröf­ur til meiri breyti­leika og gæða í þjón­ustu í nú­tíma­sam­fé­lagi kalla á end­ur­skoðun í þjón­ustu við eldra fólk. Rík­is­stjórn­in vinn­ur að því að svara þessu kalli í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög og Lands­sam­tök eldri borg­ara.

Fyr­ir stuttu samþykkti Alþingi aðgerðaáætl­un sem ég mælti fyr­ir um í þjón­ustu við eldra fólk fyr­ir árin 2023-2027, sem nefn­ist Gott að eld­ast. Í gær kynnt­um við þrír ráðherr­ar og for­menn Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og Lands­sam­bands eldri borg­ara áætl­un­ina ásamt grein­ingu KPMG á kostnaði og ábata þjón­ust­unn­ar. Aðgerðaáætl­un­in verður meg­in­stjórn­tæki stjórn­valda í að breyta og bæta þjón­ustu við eldra fólk og fel­ur í sér um­fangs­mikla kerf­is­breyt­ingu á þjón­ust­unni til hins betra.

Ger­um fólki kleift að búa leng­ur heima hjá sér

Meg­inþungi aðgerða í aðgerðaáætl­un­inni ligg­ur í þró­un­ar­verk­efn­um sem snú­ast um að samþætta fé­lags- og heil­brigðisþjón­ustu fyr­ir eldra fólk og flétta sam­an þá þjón­ustu sem ríkið sér ann­ars veg­ar um og hins veg­ar sveit­ar­fé­lög­in. Þannig geti fólk búið leng­ur heima hjá sér og eft­ir­spurn eft­ir hjúkr­un­ar­heim­il­um minnki. Einnig verður ráðist í aðgerðir sem hverf­ast um heil­brigða öldrun með al­hliða heilsu­efl­ingu, sveigj­an­legri þjón­ustu og stór­bætt­um aðgangi að ráðgjöf og upp­lýs­ing­um um þjón­ustu fyr­ir eldra fólk. Áætl­un­in bygg­ist á 19 aðgerðum á fimm sviðum eða stoðum, samþætt­ingu, virkni, upp­lýs­ing­um, fræðslu, þróun og heim­ili fólks.

Far­sæl öldrun: Ekki er ráð nema í tíma sé tekið

Til að tryggja far­sæla öldrun þarf bæði þjón­usta við eldra fólk en einnig við sjálf sem yngri erum að huga að und­ir­bún­ingi þess að verða eldri. Við und­ir­bún­ing aðgerðaáætl­un­ar komu fram mjög skýr skila­boð frá hagaðilum að nauðsyn­legt væri að ráðast í vit­und­ar­vakn­ingu um ýmsa þætti sem stuðlað geta að far­sælli öldrun. Slík vit­und­ar­vakn­ing verður að ná til breiðs ald­urs­hóps og stuðla að því að fólk taki upp­lýst­ar ákv­arðanir sem áhrif hafa á líf þess á seinna ævi­skeiði.

Eldra fólk er virði en ekki byrði

Stund­um ber á umræðu um að þjón­usta við eldra fólk sé kostnaðar­söm. Sam­kvæmt grein­ingu og sam­an­tekt KPMG hafa út­svars­greiðslur fólks eldra en 67 ára til sveit­ar­fé­laga fimm­fald­ast á síðustu 15 árum, sam­hliða al­mennt hækk­andi tekj­um eldra fólks. Gera má ráð fyr­ir að út­svars­greiðslur þessa hóps verði tæp 30% af heild­ar­útsvar­s­tekj­um sveit­ar­fé­laga árið 2050 meðan hlut­fall eldra fólks verður um 20% af íbúa­fjölda. Þess vegna er ekki hægt að tala um eldra fólk sem byrði, held­ur miklu frek­ar virði. Það virði er í mín­um huga marg­vís­legt, ekki síst fé­lags­legt og menn­ing­ar­legt, en grein­ing KPMG sýn­ir að virðið er einnig efna­hags­legt fyr­ir sveit­ar­fé­lög­in. Þess vegna er hag­kvæmt fyr­ir sveit­ar­fé­lög, og ríki, að stuðla að auknu heil­brigði eldra fólks. Grein­ing­in bend­ir til þess að það borgi sig hrein­lega fyr­ir efna­hag sveit­ar­fé­laga að kepp­ast við að laða þenn­an hóp til sín, meðal ann­ars með bættri og samþætt­ari þjón­ustu með rík­inu.

Öll með

Þjón­usta við eldra fólk skipt­ir lyk­il­máli fyr­ir far­sæla öldrun. Betra vel­ferðarsam­fé­lag þarf að rúma okk­ur öll og sú veg­ferð sem felst í Gott að eld­ast fel­ur í sér mik­il­væga kerf­is­breyt­ingu fyr­ir eldra fólk sem ég von­ast til að sjá raun­ger­ast á næstu árum og mun bæta ís­lenska vel­ferðarsam­fé­lagið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search