Search
Close this search box.

Það er þörf á mark­vissum að­gerðum til að auka þjónustu sér­greina­lækna á lands­byggðinni

Deildu 

Traust búseta og fjölskylduvænt samfélag á landsbyggðinni felst í öruggu aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu, menntun, heilnæmu umhverfi, traustum fjarskiptum, samgöngubótum og fjölbreyttum atvinnutækifærum við allra hæfi.

Ein grundvallarforsenda búsetuöryggis er öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Íbúar á öllu landinu verða að geta sótt heilbrigðisþjónustu nálægt sínum heimahögum. Því verður að halda áfram að byggja upp og efla heilbrigðisþjónustu um land allt og tryggja um leið að allir landsmenn eigi aðgang að bestu mögulegri heilbrigðisþjónustu.

Öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Við erum of oft minnt á að grunninnviðir okkar, til að vernda líf og heilsu fólks, eru götóttir. Of margir staðir á landinu búa ekki við örugga læknisþjónustu og stöðuga viðveru lækna og hjúkrunarfræðinga til að geta brugðist strax við ef fyrirvaralítið koma upp alvarleg veikindi eða slys. Hér þarf að gera svo miklu betur og í samvinnu við viðkomandi byggðarlög.

Á undanförnum árum hefur flóknari aðgerðum og sérfræðiþjónustu verið hagrætt í burtu af landsbyggðinni og til Reykjavíkur í hagræðingarskyni. Á móti átti að fjölga komum sérfræðilækna út á heilsugæslustöðvarnar um landið til að geta sinnt hluta þeirrar þjónustu áfram í heimabyggð. Það hefur ekki gengið eftir. Fólk af landsbyggðinni þarf nú í síauknum mæli að sækja sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur með þeim kostnaði, fyrirhöfn og áhættu sem því fylgir.

Sérgreinalæknar koma sjaldnar á landsbyggðina

Landsbyggðin fær nú sérgreinalækna sjaldnar í heimabyggð og biðlistar lengjast. Það er þörf á markvissum aðgerðum til að fjölga sérgreinalæknum, eins og formaður Læknafélags Íslands, Steinunn Þórðardóttir kallaði nýlega eftir í viðtali við Ríkisútvarpið. Þar staðfesti hún að komum sérgreinalækna á landsbyggðina hafi farið fækkandi síðustu misseri og að það sé afleiðing þess hve sárlega vanti fólk í ákveðnar sérgreinar.

Samkvæmt heilbrigðisstefnu yfirvalda til 2030 segir að jafna eigi aðgengi fólks á landsbyggðinni að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga. Það verður ekki einungis gert með öflugri fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum, eða eins og formaður Læknafélagsins segir (með leyfi forseta) „Fjarþjónusta lækna er alltaf talin verra úrræði heldur en að hitta lækninn í eigin persónu.“

Ég fór yfir þessa grafalvarlegu þróun í störfum þingsins á Alþingi í vikunni. Við þurfum aðgerðir strax til að fjölga sérgreinalæknum og auka þjónustu þeirra á landsbyggðinni.

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search