PO
EN

Það skiptir máli hver stjórnar – þess vegna þurfum við Vg í bæjar­stjórn Ár­borgar

Deildu 

Það styttist í kosningar. Hér í Árborg eru í boði sex framboð sem öll eru með frambærilegt fólk á sínum listum. Allir vilja samfélaginu vel. Oft er úr vöndu að ráða þegar kemur að því að setja X við listabókstaf á kjördag. Þess vegna er mikilvægt að ígrunda vel og skoða hvað flokkarnir hafa fram að færa og hversu trúverðugir þeir eru. Loforð og efndir fara ekki alltaf saman og því skiptir máli hverjir fara með völdin að kosningum loknum.

Í Árborg hefur orðið mikil fólksfjölgun á síðustu árum sem hefur gert það að verkum að innviðir samfélagsins hafa ekki fylgt eftir í sama hlutfalli og því er mikilvægt að breyta. Þess vegna er nauðsynlegt að setja upp skýra framtíðarsýn, hvernig við viljum sjá sveitarfélagið okkar í náinni framtíð? Það er ekki nóg að grípa til bráðabirgðalausna heldur verður að móta skýra stefnu til margra ára og fylgja henni eftir.

Í hraði uppbyggingar er eins og hefur verið í Árborg undanfarin ár þarf sveitarfélagið að vera öflugur stjórnandi og gæta þarf að uppbyggingin sé í samræmi við sérkenni svæðisins. Í því samhengi þarf að fylgja gildandi skipulagi en jafnframt að það sé í takt við það sem fyrir er á svæðinu. Þar þarf að taka tillit til ýmissa sérkenna t.d. útlit og stærð bygginga, náttúru og menningarminja. Hafa þarf í huga að miklar framkvæmdir og breytingar á umhverfi hafa oftast óafturkræf áhrif.

Eitt af forgangsmálum komandi kjörtímabils verður að byggja upp þjónustu og innviði sveitarfélagsins í takt við íbúafjölgun og í sátt við umhverfið. Það skiptir miklu máli að hugsa til framtíðar í öllum málaflokkum og hafa jafnrétti, jöfnuð og umhverfismál að leiðarljósi í ört stækkandi sveitarfélagi.

Við í Vinstri grænum horfum bjartsýn til framtíðar því stefnumál okkar eru skýr: Áhersla er lögð á fjölskylduvænt, réttlátt og umhverfisvænt samfélag þar sem allir íbúar Árborgar sitja við sama borð.

Það skiptir máli hver stjórnar og því teljum við mikilvægt að Vinstri græn nái góðum árangri í þessum kosningum. Þess vegna óskum við eftir þínum stuðningi á kjördag, svo við getum komið stefnumálum okkar í framkvæmd, sveitarfélaginu Árborg til heilla.

Kjósum V á kjördag

  • Sigurður Torfi Sigurðsson, 1. sæti Vinstri grænna
  • Guðbjörg Grímsdóttir, 2. sæti Vinstri grænna
  • Jón Özur Snorrason, 3.sæti Vinstri grænna
  • Sædís Ósk Harðardóttir, 4. sæti Vinstri grænna
  • Guðrún Runólfsdóttir, 5.sæti Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search