Smári McCarthy átti frumkvæði að umræðum á Alþingi um spillingu og sagði hann í ræðu sinni að spilling þrifist í öllum löndum heims. Hann fullyrti að Ísland væri skárra en mörg önnur lönd. Ráðist hefði verið í aðgerðir til að bæta regluverkið. „Við höfum staðið okkur mjög vel og ég vil meina að hæstvirtur forsætisráðherra hafi staðið sig einstaklega vel í þessum málaflokki,“ sagði Smári en bætti við að spýta þyrfti í lófana.
Það verður ekki liðið að íslensk fyrirtæki brjóti lög og reglur, það hefur afleiðingar ef lögum er ekki fylgt, sagði Katrín Jakobsdóttir í fyrri ræðu sinni. Hún sagði mjög mikilvægt að vandað verði til verka hjá Héraðssaksóknara við rannsókn málsins. „Að sjálfsögðu munu stjórnvöld tryggja að þær stofnanir sem fara með rannsókn málsins hafi fullt svigrúm til að sinna henni af kostgæfni.“
Hún sagði málið líka minna á mikilvægi þess að hafa öflugan og óháðan almannaþjónustufjölmiðil, RÚV, og sjálfstæða fjölmiðla sem geta sinnt rannsóknarblaðamennsku.
Katrín benti einnig á að í hennar tíð sem forsætisráðherra hafi hún lagt lagt mikla áherslu á lagabreytingar og regluverk í kringum hagsmunaskráningu, hagsmunaárekstra og upplýsingar og gagnsæi. Eftir hádegi verður mælt fyrir frumvarpi hennar um vernd uppljóstrara.