Hve margir þræðir spinnast í viðbrögð stjórnvalda við alvarlegum heimsfaraldri?
Í svarinu hljóta að koma fram þættir á borð við efnahagsmál, forvarnir, lýðréttindi, heilbrigðisvísindi, hættustig faraldursins, atvinnumál, siðfræði, stjórnmál, samgöngur, landamæraeftirlit, lögvernd innanlands, lega landa og stærð samfélaga, samvinna yfirvalda og borgara o.fl. Þessir þættir, og fleiri til, móta aðstæður og hafa áhrif á viðbrögð og skoðanaskipti um þau. Sumt eru óvissuþættir. Nefna má þróun bóluefnis, lengd faraldursins, áhrif hans á samskipti ríkja og efnahag þeirra á næstunni, og viðbrögð veirunnar sjálfrar á meðan faraldurinn geisar, og hvað um hana verður næstu ár og áratugi. Það er þungur róður að höndla ágjöfina og gæta að því að vega og meta kosti og galla ákvarðana sem taka til fyrrgreindra þátta. Umræður og rökstudd gagnrýni hljóta að miða að því að lágmarka mistök en líka tjónið af veirunni. Áskorunin er sambærileg við alvarlega en annars konar náttúruvá sem öll heimsbyggðin getur orðið fyrir, t.d. hamfaragosi í stóru heimsálfunum og afleiðingar þess í nokkur ár. Enginn þegn og ekkert fyrirtæki er stikkfrí. Öryggi borgaranna telst í forgangi. Veirufaraldur sem þessi lýtur ekki stjórn manna, nema að litlu leyti.
Meginstefin í stefnu stjórnvalda, fyrst og fremst ríkisstjórnar en einnig sveitarfélaga, hafa mótast í margvíslegu starfi og miklum umræðum. Frá upphafi faraldursins lá þunginn á Alþingi og ríkisstjórn, frá því í febrúar fram undir lok júní. Ein 30 sérstök þingmál voru afgreidd á þingi og sum önnur mál tengdust faraldrinum með beinum eða óbeinum hætti, einkum efnahagslega þættinum og atvinnustigi. Nokkur meginatriðið kristölluðust í stefnu stjórnvalda á þessum tíma. Minna má á þá ætlun að styðjast tryggilega við vísindi og fræðilega þekkingu, nýta fjölþætt almannavarnarkerfi, sem hefur sannað gildi sitt, og grípa hratt inn í versnandi eða batnandi aðstæður. Ákveðið var að loka ekki landinu heldur halda upp samgöngum á sjó og í lofti en með mismunandi takmörkunum eftir því sem aðstæður leyfa. Loks var ákveðið að vernda atvinnustig sem best, aðstoða almenning og fyrirtæki með því að veita opinberu fé m.a. til framkvæmda, styrkja og annarra greiðslna, greiða fyrir bankalánum og grípa til fleiri ráðstafana, ásamt því að taka tillit til ólíkra aðstæðna samfélagshópa. Um stefnuna hefur verið deilt, einkanlega framkvæmd hennar, stjórnvöld jafnvel harðlega gagnrýnd en sjaldnast lagðar fram rökstuddar hugmyndir um aðrar og betri aðferðir í baráttunni gegn covid-19 veirunni.Auglýsing
Heilbrigðisvísindi eru ekki óumdeild en þau þróast að mörgu leyti sem raunvísindi. Hagfræði er ekki raungrein, heldur að hluta pólitísk fræðigrein og lögfræði er meðal fræðigreina þar sem ólík túlkun fræðiþátta er hvað útbreiddust. Nefni þetta til að hnykkja á þeim rökum stjórnvalda að treysta mjög á læknisfræði og tengdar greinar. Almannavarnir, og þar með lögregluyfirvöld, koma að helstu verkefnum enda augljós skyldleiki milli náttúrulegs veirufaraldurs og vanda af völdum t.d. jarðrænnar hættu. Samvinna Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar hefur reynst dýrmæt. Megintenglar við almenning hafa verið fulltrúar úr heilbrigðisþjónustunni og Almannavörnum, ólíkt því sem víða sést annars staðar. Hitt er augljóst að sérhver ákvörðun er tekin á ábyrgð ráðherra og eftir umræður í ríkisstjórn og stjórnkerfinu. Því fer fjarri að stjórnmálamenn hafi skýlt sér á bak við sérfræðinga og embættismenn. Eitt er ráðgjöf, annað stjórnvaldsákvörðun. Á meðan þinghlé varir fram að stuttu sumarþingi, um 8-9 vikur, hefur Alþingi ekki komið á ákvörðunum en þeim mun oftar hafa verið boðaðir fundir á vegum ríkisstjórnar. Nú síðast mun stór vinnufundur hagaðila, stofnana og embætta útbúa nesti handa nýjum samráðshópi undir stjórn sóttvarnarlæknis, stjórnvöldum til aðstoðar. Reglulegt Alþingi hefur störf 1. október, eftir sumarþingið.
Flestar aðgerðir vegna faraldursins eru endurskoðaðar jafnt og þétt. Það er í samræmi við vástjórnunaraðferðir (krísustjórnun) þegar aðlögunarþörfin er rík. Þeim er ekki ætlað að gilda til langframa, hverju sinni, enda óvissuþættir margir og breytilegir. Réttilega hafa stjórnvöld tamið sér að grípa fljótt inn í atburðarás og sjaldan þurft að afturkalla ákvarðanir eða breyta þeim fljótlega vegna mistaka eða ófullnægjandi mats á aðstæðum. Vissulega er sú skoðun mín umdeild meðal marga af því að þeirra vilja aðrar aðgerðir og beita öðrum rökum en stjórnvöld. Viðbrögðin við fyrstu bylgjunni báru árangur sem eftir er tekið, einkum miðað við að þær voru ekki með þeim ströngustu í Evrópulöndum eða sumum Asíulöndum, einmitt í ljósi þess sem minnst var á hér að framan; hinar ólíku aðstæður, hvort sem er á Taívan, í Frakklandi, á Nýja-Sjálandi, í Litháen, Finnlandi, Noregi eða jafnvel á Bretlandi. Eftirlit hér var hóflegt og mjög treyst á ábyrgð og skynsemi hvers landsmanns. Seinni bylgjunni var fljótlega mætt með hertum reglum eftir eftirgjöf sem reyndist misvel og þar sem útbreiðsla nýrra smita skrifast bæði á reikning okkar sjálfra og innkomu nýrra smita að utan. Bylgjan hefur ekki reynst nærri því eins erfið og sú fyrri, eins þótt faraldurinn sæki á víðast hvar í samskiptalöndum okkar og ferðamenn þaðan á flandri meðal okkar.
Með skimunum og misströngum sóttkvíarreglum hafa samgöngur við umheiminn ekki stöðvast enda markmið í sjálfu sér. Ástand hér innanlands er aðeins hluti aðstæðna sem þarf að taka tillit til. Faraldurinn í hverju samskiptalandi og aðgerðir þar, jafnt á landamærum sem innan þeirra landa, koma til álita. Í fyrstu bylgjunni, og með okkar ströngustu ákvörðunum, stóð slagurinn um að keyra útbreiðslu veirunnar niður og hindra sem mest alvarleg veikindi. Í slakanum þar á eftir snerist framvindan um að létta á takmörkunum almennings gagnvart venjubundnu lífi og opna stærri glufu til umheimsins. Farþegafjöldi til landsins fór þá fljótt úr u.þ.b. 1.500 manns á dag í rúm 3.000; ríflega helmingurinn erlendir gestir. Tal um að stjórnvöld hafi gengið erinda ferðaþjónustunnar stenst ekki enda áttfalt til tífalt fleiri á ferð hér í sambærilegum ferðamánuðum áranna á undan. Vegna fjölgunar innanlandssmita og harðari faraldurs í mörgum Evrópulöndum var glufan minnkuð á ný en þó ekki að sömu sóttvörnum og í fyrri bylgjunni. Aftur varð svo að grípa til aðgerða án langs aðdraganda og setja öryggið á oddinn. Enn fremur varð að auðvelda fólki á öllum aldri að sinna menningu, menntun, hefðum sínum með því að herða reglur innanlands að nokkru marki en halda um leið samskiptum milli manna opnum í samræmi við aðstæður. Misræmi á milli birtra reglna og minnisblaða má auðvitað gagnrýna en það breytir ekki því að viðbrögðin eru raunsæ og viðunandi.Auglýsing
Útflutningsatvinnuvegirnir hafa haldið þolanlegum velli nema ferðaþjónustan. Hún veldur um 40% útflutningstekna hér, en t.d. 17% á Nýja-Sjálandi. Hún hefur stórlega látið á sjá og samdráttur og óvissa valdið margvíslegu tjóni. Ýmis annar rekstur hefur orðið fyrir misþungum áföllum og atvinnuleysi margfaldast miðað við góðæri. Svokallaðar covid-aðgerðir verða ekki raktar hér, ekki misgamlir en nýlegir kjarasamningar og ekki heldur persónubundnar aðgerðir sem deila út ríkisfé til eða breyta innheimtu ríkisins einstaklingum í hag. Ég fullyrði að gera verður betur á næstunni, m.a. þegar Alþingi endurskoðar fjármálastefnu og -áætlun ríkisins. Samtímis gerum við okkur grein fyrir tvennu. Í einn stað því augljósa verkefni að hið opinbera fjárfesti í innviðum, fylgi þeirri margþættu nýsköpunarstefnu sem hún hefur samþykkt, og tekur oftast mörg ár að raungera af hálfu þeirra sem nýsköpun stunda, og loks að stutt verði við fjölbreyttari atvinnustarfsemi en tíðkast hefur; á umhverfisvænum forsendum. Þar varða auðlindir á borð við raforku, ferskvatn, sjó, jarðveg og hugvit miklu. Í annan stað vitum við að til verður, með öllu fjárstreyminu frá ríkinu, hundruð milljarða króna skuld við þá sem munu lána fé á mjög lágum vöxtum til að vega á móti halla ríkissjóðs. Þá skuld verður að greiða á löngum tíma en ekki með niðurskurði, t.d. á velferð, og skyndilegum sparnaði á röngum stöðum.
Óbærilegur léttleiki tilverunnar, sbr. orð skáldsins, getur stundum orðið óvænt að lítt bærilegum þunga hennar. Við því er eitthvert töfraráð í raunheimum ekki til. Frammi fyrir ólukkans veirunni má benda á tilmæli eins og þolinmæði, samviskusemi við persónulegar sóttvarnir og ábyrgð gagnvart þeim reglum (þær eiga að vera skýrar og fáar!) sem settar eru af góðri yfirsýn af til þess bæru fólki. Svo kann að fara að ný bóluefni létti af okkur mest öllum byrðum af veirunni en af sjálfu leiðir að það er ekki víst. Fari svo, þarf að endurskipuleggja og endurhanna margt og mikið.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna.