Það verður að segjast að þingveturinn sem leið er sá sérkennilegasti sem ég hef upplifað, þó mig hafi ekki órað fyrir því síðastliðið haust. Leiðinda tíð með langvarandi óveðri, snjóflóð, jarðskjálftar og heimsfaraldur er nefnilega ekkert sem gerir boð á undan sér. En nú erum við komin undan vetri og inn í bjart og milt sumar.
Á lokadögum þingsins var óvenju gott veður og á Austurvelli mátti sjá fjölda fólks spóka sig í sólbaði, spjalli og leikjum. Þörf áminning um að lífið heldur áfram sinn vanagang þrátt fyrir að veiran skæða tæki stjórn á lífi okkar allra. Á nánast einu augnabliki í mars stöðvaðist samfélagið og við tókum öll saman höndum. Árangurinn var slíkur að nú eru augu heimsins á Íslandi og fjallað er um okkar öfundsverðu stöðu. Við höfum stigið fyrstu skrefin til að taka á móti ferðamönnum á ný og fylgist þríeykið okkar, Þórólfur, Alma og Víðir vel með stöðu mála eins og þau hafa gert hingað til. Það þarf þó að hafa varann á eins og fréttir síðustu daga hafa sýnt. Ekki er vitað hversu lengi takmarkanir munu vera í gildi hér á landi en ég er sannfærð um að við munum takast á við það af æðruleysi hér eftir sem hingað til.
Í þeim hamagangi sem fylgdi því að koma okkur í skjól fyrir Covid-19 efaðist ég aldrei nokkurn tímann um að vel myndi til takast. Við búum nefnilega að traustri forystu, bæði í forsætisráðuneytinu sem og ráðuneyti heilbrigðismála sem mæddi mikið á þetta vorið. Það er á þeim stundum, þar sem taka þarf stórar og erfiðar ákvarðanir sem efasemdir þagna um hæfi fólks. Ég er afar stolt af því að vera þingflokksformaður Vinstri grænna enda skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn.AUGLÝSING
Um 30 mál voru afgreidd á Alþingi í vor til að bregðast við heimsfaraldri Covid-19. Þau voru í daglegu tali kölluð Covid-mál og tóku á tímabili alla athygli þingsins. Þrátt fyrir það voru fjölmörg önnur og góð mál samþykkt þennan veturinn.
Þannig varð á dögunum til glænýtt námslánakerfi á Íslandi. Menntasjóður námsmanna og segja má að baráttumál stúdentahreyfingarinnar til margra ára sé í höfn með auknum stuðningi og réttlátara kerfi.
Við höfum líka lengt fæðingarorlof, tryggt réttaröryggi uppljóstrara, stofnað Kríu – nýjan og öflugan nýsköpunarsjóð og samþykkt fyrstu forvarnaráætlunina meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Við höfum tryggt heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknivanda með tilkomu neyslurýma, lögfest að norrænni fyrirmynd þriggja þrepa skattkerfi og gjörbylt lögum um náttúruvernd.
Á síðustu dögum þingsins voru mörg góð mál samþykkt. Eitt af þeim var afar mikilvægt frumvarp forsætisráðherra um eignarráð á landi sem tryggir gagnsæi í jarðaviðskiptum og spornar gegn óhóflegri samþjöppun lands á fárra manna hendur.
Einnig voru frumvörp umhverfisráðherra um loftslagsmál og bann við margs konar einnota plastvörum samþykkt sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Íslendinga enda erum við með því að staðfesta alþjóðlegar skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu og sporna við mengun í höfum og örplasti í drykkjarvatni.
Það eru svona mál sem minna mig á hvers vegna ég hóf þátttöku í stjórnmálum – til að hafa áhrif á samfélagið til hins betra. Það munum við Vinstri græn halda áfram að gera.
Framundan er kosningavetur og er það alkunna að með honum færist oft harka í stjórnmálin. Það er mín einlæga von að okkur þingmönnum takist þó að krafsa okkur í gegnum hann á málefnalegum nótum. Það er margt gott fólk sem á sæti á Alþingi og stóran hluta kjörtímabilsins hefur samstarf við minnihlutann gengið vel.
Það er sjaldan lognmolla á Alþingi, hvað þá þegar fer að síga á seinni hluta kjörtímabils. Við Vinstri græn munum þó halda áfram að vinna af heilum hug að góðum málum, landi og þjóð til heilla.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.