Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er sérstök í sögulegu samhengi. Hún samanstendur af flokkum sem þvera hið pólitíska svið, frá vinstri til hægri, sem voru sammála um að byggja þyrfti upp velferðarkerfið og gera umbætur á mörgum sviðum samfélagsins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð lagði áherslu á að verkefni sem endurspegluðu grunnstoðirnar í stefnu VG enduðu í stjórnarsáttmála og þingmenn og ráðherrar VG hafa á kjörtímabilinu unnið hörðum höndum að því að koma verkefnunum til framkvæmda.
Af hálfu VG hefur á kjörtímabilinu verið lögð áhersla á umhverfisvernd, kvenfrelsi, alþjóðlega friðarhyggju og félagslegt réttlæti og aðgerðir sem eru til þess fallnar að auka jöfnuð í samfélaginu. Það voru Vinstri-græn sem settu þau málefni á oddinn og komu verkefnum þeim tengdum til framkvæmda.
VG lagði áherslu á það að auka jöfnuð. Greiðsluþátttaka sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu hefur verið lækkuð verulega og nú er hún sambærileg því sem best gerist annars staðar á Norðurlöndunum, komugjöld á heilsugæslu voru lækkuð umtalsvert og felld niður fyrir aldraða og öryrkja, auk þess sem heilsugæslan hefur verið efld sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu, með aukningu fjárframlaga um 25%. Allt eru þetta breytingar sem stuðla að auknu aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu
VG lagði áherslu á jafnréttismál á kjörtímabilinu. Ný löggjöf um þungunarrof, sem ég lagði fram á Alþingi, var samþykkt, en lögin tryggja sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Réttur til að skilgreina eigið kyn hefur verið tryggður með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði og fæðingarorlof var lengt úr níu mánuðum í heilt ár. Svo nokkur dæmi séu tekin.
VG setti umhverfismál á oddinn. Stórátak var gert í friðlýsingum svæða, fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlunin gegn loftslagsvánni var unnin og loftslagsráð og loftslagssjóður stofnuð. Innleiðing hringrásarhagkerfisins hófst af krafti, m.a. með breytingum á lögum um úrgangsmál, og hringrásarhagkerfi sett af stað.
VG settu umbætur í húsnæðismálum á dagskrá. Í tengslum við lífskjarasamningana tryggðum við stofnframlög til byggingar á 1.800 almennum íbúðum á árunum 2020-2022, sem gera 600 íbúðir á ári. Við komum á nýjum hlutdeildarlánum til að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Í ár og á því næsta má áætla að um þriðjungur af öllu nýju íbúðarhúsnæði verði til í tengslum við félagslegar húsnæðisaðgerðir hins opinbera, almennar íbúðir og hlutdeildarlán.
Verkefnunum er ekki lokið og VG vilja halda áfram að vinna að umbótum í þágu samfélagsins alls. Það skiptir máli að VG sé í ríkisstjórn. Það skiptir máli að kjósa VG.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra skipar 1. sæti á lista VG í Reykjavíkurkjördæmi suður.