Þingmenn VG voru á ferð og flugi í síðustu viku í svokallaðri kjördæmaviku. Þar hittu þingmenn fjölda fólks víða um land á opnum fundum og vinnustaðaheimsóknum. Þingstarfið hófst svo á ný í vikunni og þingmennirnir vel nestaðir inn í vinnuna framundan.
Á mánudag mælti Kolbeinn Óttarsson Proppé fyrir þingsályktunartillögu sinni um starfshóp um útgáfu öruggra opinberra skilríkja. Sama dag var mælt fyrir þingsályktunartillögu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur um stöðu barna tíu árum eftir hrun.
Á þriðjudag var umræða um skýrslu menntamálaráðherra um stafræna endurgerð íslensk prentmáls. Skýrslan er tilkomin vegna þingsályktunartillögu Kolbeins Óttarssonar Proppé sem samþykkt var á Alþingi árið 2018. Kolbeinn tók sjálfur þátt í umræðu um skýrsluna, ásamt Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Ara Trausta Guðmundssyni.
Sama dag voru friðarmál áberandi á dagskrá Alþingis þökk sé þingmönnum VG. Kolbeinn mælti fyrir þingsályktunartillögu um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja á eftir. Þetta var í 15. sinn sem mælt er fyrir þessu máli. Beint í kjölfarið mælti Steinunn Þóra Árnadóttir fyrir tillögu til þingsályktunar um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Það var í áttunda sinn sem mælt er fyrir því máli.
Á fimmtudag var sérstök umræða um stuðning við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ari Trausti voru fulltrúar VG í þeirri umræðu. Þann sama dag mælti Ólafur Þór Gunnarsson fyrir frumvarpi sínu um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og málefni aldraðra en málinu er ætlað að tryggja íbúum á dvalar- og hjúkrunarheimilum rétt til einbýlis.
Föstudagurinn var svo nýttur til vinnustaðaheimsókna á höfuðborgarsvæðinu sem varð að aflýsa í kjördæmaviku vegna veðurs. Þar fór góður hópur og heimsótti Háskóla Íslands og Öryrkjabandalagið.