Search
Close this search box.

Þingmolar á föstudegi

Deildu 

Vikan í þinginu litaðist mjög af fjölda varaþingmanna sem tóku sæti í vikunni. Alls voru 11 varaþingmenn inni í vikunni og þar af voru þrír varaþingmenn vinstri grænna. Það voru Bjarni Jónsson, Una Hildardóttir og Eydís Blöndal. Eydís hafði aldrei áður tekið sæti á þingi og hélt því jómfrúarræðu sína á miðvikudag undir liðnum störf þingsins og gerði lög um velferð dýra að umfjöllunarefni sínu. Eydís lagði einni fram þrennar fyrirspurnir um fæðingarstyrk námsmanna, innflutning á sojabaunum og gegnsæi umhverfisáhrifa við framleiðslu vara og þjónustu.

Bjarni lagði fram fyrirspurn um starfsemi Hafrannsóknarstofnunar og Una lagði fram tvær um hvata til fyrirtækja til að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika. Una mælti auk þess fyrir sínu fyrsta þingmáli, frumvarpi um breytingar á almennum hegningarlögum sem tryggir réttindi intersex fólks.

Á þriðjudag var sérstök umræða um útgreiðslu persónuafsláttar og þar voru fulltrúar VG í umræðunni þau Ólafur Þór Gunnarsson og Una Hildardóttir.

Á miðvikudag mælti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir frumvarpi sínu um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnar­ráði Íslands. Æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og aðstoðarmönnum ráðherra er með frumvarpinu gert að tilkynna opinberlega um tiltekna hagsmuni og gjafir. Forsætisráðuneytið heldur skrá yfir upplýsingarnar og birtir þær almenningi að hluta.

Á miðvikudag var einnig sérstök umræða um jafnrétti til náms óháð búsetu og þar tóku Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Eydís Blöndal.

Á fimmtudag var sérstök umræða um örorku kvenna og álag við umönnun. Umræðunni var beint að Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra en auk hennar tók Steinunn Þóra Árnadóttir þátt í umræðunni.

Sama dag var munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins árin 2000-2019 og í þeirri umræðu var Bjarni Jónsson fulltrúi VG. 

Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir voru öll fjarverandi í vikunni vegna alþjóðastarfs en snúa aftur til starfa á Alþingi í næstu viku.

Þá eru tíðindi í starfsmannamálum þingflokksins en Kára Gautasyni og kærustu hans Gró Einarsdóttur fæddist dóttir í síðustu viku. Kári er því kominn í fæðingarorlof en Hulda Hólmkelsdóttir upplýsingafulltrúi þingflokksins leysir hann af næsta mánuðinn. Þingflokkurinn óskar þeim skötuhjúum innilega til hamingju með frumburðinn.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search