Search
Close this search box.

Þingræða um landbúnað og ylrækt

Deildu 

Hluti þingræðu Ara Trausta Guðmundssonar, vegna sérstakra umræðna við Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, ráðherra

Stjórnvöld hafa sett sér ýmis markmið, þar á meðal að auka við landbúnað og ylrækt og annað slíkt hér í landinu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tækifærið til að ræða þessi mikilvægu viðfangsefni. Stjórnvöld hafa sett sér framsækna matvælastefnu sem byggir á því að lækka vistspor og auka matvælaöryggi og nýta auðlindir landsins, sem eru jú vatn og loft og orka og jarðvegur, og þetta er að auki mikilvæg byggðastefna. Samtímis hefur það gerst í heiminum að matarþörf eykst hratt, bæði vegna mannfjölgunar og vegna loftslagsbreytinga. Þar með kviknar að sjálfsögðu, bæði vegna innlendra og erlendra þarfa, sú grunnhugmynd að efla mjög ræktun á Íslandi og stórefla um leið ræktun matvæla til útflutnings. Þetta er eins konar ný tegund stóriðju, metnaðarfullt en raunhæft skref sem tekið er í nokkrum áföngum.

Ræktunarmöguleikar hér á landi eru býsna fjölbreyttir. Það er sem sagt hin hefðbundna útiræktun, það er ylrækt í jafnvel stórum byggingum, eins konar fiskeldi, seiðaeldi, og það nýjasta, þörungar. Lykillinn að þessu er a.m.k. tvenns konar. Það er jarðvarminn, sem kemur víða við sögu og við höfum — ég vil ekki segja nóg af en alla vega mikið af. Þá á ég við stórræktun, eins og tómata og annað slíkt til útflutnings. Ég á við þörunga, svipað eins og Vaxa er að gera og Bláa lónið, þ.e. að rækta þörunga sem henta bæði til matvæla, neyslu, til fóðurs og til framleiðslu á ýmiss konar hliðarefnum. Ég á við fiskeldi, bæði innlendar og erlendar tegundir í einingum sem eru 1.000 tonn á ári, eða allt upp í 5.000 tonn á ári, og seiðaeldi, sem er ákaflega mikilvægt. Þarna kemur jarðhitinn svo sannarlega við sögu. Ég nefni að flutningar á sjó og lofti skilyrða þessa framleiðslu. Hún er háð þessum atriðum og nú er verið að bæta við hafnir, eins og Þorlákshöfn og víðar, sem myndi henta mjög vel í þessu skyni. Síðan er slík framleiðsla háð bæði orkuöryggi, þ.e. að dreifikerfið sé í góðu lagi, flutnings- og dreifikerfið, orkuframboðið sé alltaf í takt við þörfina, og síðast en ekki síst að orkuverð sé hóflegt.

En lykillinn, og það er seinni sá seinni sem ég vildi gjarnan nefna, er menntun og nýsköpun. Nú hafa sömu stjórnvöld sett fram metnaðarfulla nýsköpunarstefnu. Það er mikilvægt að minna á að þessi ríkisstjórn hefur verið dugleg við að setja fram grunnstefnur sem vantað hefur á Íslandi í marga áratugi. Nýsköpunarstefnan er framsækin og er búið að tryggja þar ákveðna sjóði, Matvælasjóð svokallaðan, Loftslagssjóð verð ég að nefna, og Tækniþróunarsjóð sem kemur líka þarna við sögu. Þannig að nýtt fjármagn hefur komið inn í nýsköpun á þessu sviði.

Fyrirhugaðar eru skipulagsbreytingar á nýsköpunarstarfi á Íslandi sem leiða vonandi til góðra afreka í þessum efnum, en megináherslan í þessu öllu saman er jú menntunin sjálf. Það þarf að vera til kerfi á Íslandi sem tryggir að almenn menntun í landbúnaði og sérmenntun í landbúnaði sé fyrir hendi, sem hún er vissulega, en líka sérgreinar, eins og ylrækt. Nú er þannig um þetta búið að ylrækt hefur verið framhaldsmenntun á framhaldsskólastigi, eða við getum öllu heldur kallað það fagmenntun. Það er mjög mikilvægt að það verði áfram þannig, en líka að viðbótarmenntun sé möguleg.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG í Suðurkjördæmi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search